Velheppnuð bæjarhátíð
Bæjarhátíð Seltjarnarness fór fram 31. ágúst til 2. september sl. með fjölbreyttri fjölskyldudagskrá alla helgina. Bæjarbúar voru hvattir til að skreyta hús sín og götur í sínum hverfislit en veðrið var skreytimeisturum þó ekki hliðhollt því fyrsta alvöru haustlægðin gekk yfir suðvesturhornið. Það var því eiginlega vonlaust að skreyta úti en nokkrir hörkuðu af sér og tóku skreytingarnar alla leið. Bæjarbúar voru einnig þrátt fyrir hvassviðri og úrhellisrigningu með reglulegu millibili duglegir að njóta þeirra viðburða sem í boði voru þessa helgina.
Fjölskylduhátíð í Gróttu með afar fjölbreyttri dagskrá fyrir börn og fullorðna. Spiderman klifraði meðal annars upp og niður Gróttuvitann og sýndi ýmsar listir. Friðrik Karlsson og Unnur Birna Björnsdóttir ásamt slagverksleikara héldu stórkostlega tónleika í Fræðasetrinu, þar sem ennfremur var hægt að gæða sér á vöfflum og skoða lífríki sjávarins á rannsóknarstofunni. Ratleikur, flugdrekasmiðja, hugvekja og myndlistarsýning voru í boði auk þess sem Margrét Arnardóttir spilaði á harmonikkuna um alla eyju og uppi í vita gestum til mikillar ánægju.
Hápunkturinn hjá mörgum var svo Bæjargrillið sem haldið var á nýendurbættum Vallarbrautarróló í umsjón afar öflugrar íbúanefndar en yfir 400 manns úr öllum hverfum komu og höfðu gaman saman. Tuddinn grillbíll sá um hamborgarana og „500kallinn“ hann Jón Sig. sló algjörlega í gegn, sýndi og sannaði að þessir bestu vinna yfirleitt annað sætið í söngvakeppnunum. Hátíðin fór vel fram og allir virtust skemmta sér hið besta eins og myndirnar sýna.