Víðtæk samvinna lykillinn að árangri

Tilraunaverkefnið ,,Frístundir í Breiðholti“ sem samþykkt var í borgarráði 27. ágúst sl. er gríðarlega víðtækt samfélagsverkefni til að efla börn og unglinga í hverfinu.

Þráinn Hafsteinsson

Meginmarkmið verkefnisins eru að auka þátttöku barna og unglinga í skipulögðu íþrótta- og frístundastarfi í Breiðholti, bæta nýtingu frístundakortsins í hverfinu og að nýta íþrótta- og frístundaþátttökuna til að auðvelda samfélagslega þátttöku, íslenskunám og félagslega aðlögun barna með mismunandi bakgrunn.

Til að þessi markmiðin náist í náinni framtíð þurfum við á því að halda að íbúar í Breiðholti, starfsmenn leikskóla, grunnskóla, framhaldsskóla, frístundamiðstöðvar og þjónustumiðstöðvar vinni saman ásamt öllum íþrótta- og frístundaaðilum í hverfinu.

Leitum óvirkra barna

Leitum þeirra barna og unglinga sem eru óvirk en hefðu hugsanlega áhuga á að taka þátt í skipulögðu íþrótta- eða frístundastarfi. Upplýsum bæði börn og foreldra þeirra um þá fjölbreyttu íþrótta- og frístundakosti sem til staðar eru í hverfinu. Kynnum þeim frístundakortið og kosti þess. Hvetjum börnin til þátttöku og eflum foreldrana í foreldraþátttökunni. Stundum er hvatning ekki nóg til að barn hefji þátttöku og þá þarf hugsanlega að hjálpa til með öðrum hætti. Hjálpin gæti verið fólgin í að fylgja viðkomandi barni og foreldrum fyrstu þátttökudagana eða þangað til að kynni hafa náðs við kennara eða þjálfara. Þá þarf að fylgjast með þátttökunni, hvetja og hjálpa ef eitthvað bjátar á. Ef barn nær ekki að festa rætur í þátttöku í einum frístundakosti þarf að finna annan sem barninu gæti hugnast og veita sömu hvatningu og hjálp.

Stöndum saman og leggjum okkur fram

Íþrótta- og frístundaþátttaka er afar stór hluti að menningarheimi íslenskra barna og mikilvægur hlekkur í því að tilheyra samfélaginu. Stöndum saman og leggjum okkur fram um að veita öllum börnum í Breiðholti sem þess óska verðugt og uppbyggilegt tækifæri til að leggja sitt að mörkum til okkar samfélags með íþrótta- og frístundaþátttöku sinni. 

Þráinn Hafsteinsson, Verkefnastjóri frístunda og félagsauðs, Þjónustumiðstöð Breiðholts.

You may also like...