Átthagakaffi og hlaup í Litla Skerjó
Átthagakaffi fyrir fyrrverandi og núverandi íbúa Litla Skerjafjarðar er drukkið á hverju ári. Síðasta átthagakaffi var haldið þann 4. október síðastliðinn með glæsilegu kaffihlaðborði á Hótel Sögu.
Þetta er fastur punktur í lífi margra úr Litla Skerjafirði. Þar koma saman núverandi íbúar og brottfluttir og rifja upp gamlar minningar og ekki má gleyma þeim sem flutt hafa inn í hverfið, því þarna heyra þeir sögur um það hvernig byggðin hefur þróast og jafnvel sögur af húsinu sem það býr í núna. Margir góðir leynigestir hafa heiðrað samkomuna og í ár var það Felix Bergsson leikari sem fór á kostum með sögum úr Skerjafirði og nágrenni. Þá má geta þess að Skerjafjarðarhlaupið fór nýlega fram en þangað mæta bæði eldri og yngri Skerðfirðingar. Myndirnar tala sínu máli um glaðværðina sem fylgir þessu samkomuhaldi – bæði kaffi og hlaupi.