Óbreytt álagningarhlutfall – skuldir aukast
– Fjárhagsáætlun Seltjarnarnesbæjar 2019 –
Gert er ráð fyrir að skatttekjur Seltjarnarnesbæjar verði 3.625 milljónir króna á næsta ári samanborið við 3.302 milljónir á yfirstandandi ári. Bærinn mun hafa 3.017 milljónir í tekjur af útsvari og 345 milljónir af fasteignasköttum og lóða leigu. Þá er gert ráð fyrir 262,8 milljóna framlagi úr Jöfnunarsjóði sveitarfélaga á árinu 2019. Þetta kemur fram í fjárhagsáætlun bæjarfélagsins sem lögð var fram til fyrri umræðu á fundi bæjarstjórnar Seltjarnarnesbæjar miðvikudaginn 14. nóvember. Gert er ráð fyrir að síðari umræða og afgreiðsla áætlunarinnar verði í bæjarstjórn Seltjarnarnesbæjar miðvikudaginn 28. nóvember n.k.
Fjárhagsáætlunin byggir á því að álagningarhlutfall útsvars verði óbreytt eða 13,7% sem er verulega undir leyfilegu hámarki samkvæmt gildandi lögum og að álagningarhlutfall fasteignaskatta verði einnig óbreytt 0,175%. Við áætlun útsvars er gert ráð fyrir að útsvarstekjur muni hækka í takt við almennar launahækkanir, einnig er gert ráð fyrir nokkurri fjölgun íbúa milli ára. Því er gert ráð fyrir að tekjur af útsvari nemi um 3.017 milljónum króna á árinu, sem er rúmlega 9% hækkun milli ára. Skuldir Seltjarnarnesbæjar hafa verið langt undir viðmiðunarmörkum samkvæmt ákvæðum sveitarstjórnarlaga en þar er mælt fyrir um að skuldir megi ekki vera hærri en sem nemur 150% af reglulegum tekjum. Í fjárhagsáætlun næsta árs er gert ráð að skuldahlutfall hækki í árslok 2019 þar sem miklar framkvæmdir hafa verið á árinu sem er að líða. Má þar nefna byggingu á fjörutíu rýma hjúkrunarheimili sem tilbúið verður um áramótin og stækkun á íþrótta-miðstöðinni en þær framkvæmdir eru nú í fullum gangi.