Hækka mest á Seltjarnarnesi

– Gjöld fyrir skóladagvistun og skólamat –

Heildargjöld fyrir skóladagvistun og skólamat á Seltjarnarnesi hækkuðu mest á milli ára mest eða um 10,1%. Gjöldin hækkuðu í öllum 15 stærstu sveitarfélögum landsins en voru alltaf um eða undir 2,5% nema í tilviki Seltjarnarnesbæjar. Þetta eru niðurstöður verðkönnunar Alþýðusambands Íslands á skóladagvistun og skólamat. Gjöldin á Seltjarnarnesi voru þau hæstu meðal 15 stærstu sveitarfélaganna fyrir breytinguna og eru enn.

Mikill munur er á heildargjöldum fyrir skóladagvistun og skólamat milli sveitarfélaga. Mestur munur eða 17.157 krónur er á hæstu gjöldunum sem eru á Seltjarnarnesi, 42.315 krónur, og þeim lægstu sem eru í Fjarðarbyggð eða 25.158 krónur. Munurinn á hæstu gjöldunum og þeim lægstu er því 154.413 krónur á ári.

Seltjarnarnesbær gengur ekki í takt með öðrum sveitarfélögum hvað þessi gjöld varðar. Kjarabætur lífskjarasamningsins voru gerðar á þeim grunni að bæturnar sem um var samið yrðu ekki teknar til baka annars staðar. Drífa Snædal forseti Alþýðusambands Íslands segir að Seltjarnarnesbær hafi ákveðið að hunsa þetta. Ekki sé nóg með að kostnaður þar sé einn sá hæst fyrir heldur hækki sveitarfélagið skóladagvistun og skólamáltíðir margfalt umfram verðbólgu. Þetta sé óskiljanleg ákvörðun og sannanlega ekki til hagsbóta fyrir fjölskyldufólk í bæjarfélaginu. Þetta sé slæm ákvörðun sem þurfi að breyta strax.“

You may also like...