Átak í íbúðabyggingum
– Byggingarsamvinnufélag atvinnubifreiðastjóra (BSAB) var stórtækt í Breiðholtinu. Þá eignuðust margar fjölskyldur íbúðarhúsnæði á viðráðanlegum kjörum –
Eftir síðari heimsstyrjöldina streymdi fólk af landsbyggðinni til Reykjavíkur. Íbúðarhúsnæði skorti mjög á þessum árum og þrátt fyrir verulegar byggingaframkvæmdir urðu margir að láta sér nægja búsetu um lengri eða skemmri tíma í bárujárnsbröggum sem setuliðið hafði reist. Upp úr miðri liðinni öld voru uppi háværar kröfur um að heilsuspillandi húsrými yrði útrýmt, þar með bröggunum, og nýjar íbúðir skyldu byggðar í stað þeirra, bæði í fjölbýli og sérbýli. Byggingameistarar reistu hús og seldu, stéttatengd byggingafélög byggðu fyrir félaga sína og einstaklingar byggðu sjálfir eigin hús. Um miðjan 7. áratuginn var sérstakri byggingaráætlun hrint af stað.
Hið svokallaða júnísamkomulag verkalýðshreyfingarinnar og atvinnurekenda frá 1964 markaði tímamót. Ríkisstjórnin gerði samráðssamning við verkalýðshreyfinguna um umbætur í húsnæðismálum og Framkvæmdanefnd byggingaráætlunar var komið á fót. Hún lagði grunninn að stórtækum breytingum í húsnæðismálum þjóðarinnar sem komu sér einkum vel fyrir láglaunafólk. Mikil áhersla var lögð á byggingu fjölbýlishúsa með nýjustu tækni þess tíma og á tiltölulega stuttum tíma tókst bæði að útrýma heilsuspillandi húsnæði að mestu og stórauka framboð á nýju íbúðarhúsnæði. Húsaleiga lækkaði samhliða þessari merku þróun.
Mest munaði um Breiðholtsbyggðina
Það er íhugunarefni fyrir okkur Breiðholtsbúa hve hratt þessi fjölmennasti borgarhluti Reykjavíkur, með yfir 20 þúsund íbúa, byggðist upp, í fyrstu að frumkvæði Framkvæmdanefndar byggingaráætlunar þótt margir aðrir aðilar kæmu þar við sögu með ýmsum hætti. Úr Blesugróf lágu tveir malarvegir upp í Breiðholtið, annars vegar að Breiðholtsrétt og austur með Elliðaám og hinn fram hjá Fjárborg að Breiðholtsbýlinu og austur yfir Vatnsendahvarf. Allt landið þar á milli, Breiðholtsgirðinguna, alveg austur að Elliðaám í Víðidal, hafði Fjáreigendafélag Reykjavíkur til vor og haustbeitar frá 1933 -1965 þegar gatnagerð var að hefjast í Stekkjum og Bökkum. Fyrri hluti Breiðholtsins, neðra Breiðholt, reis á árunum 1966-1973 en hið efra frá 1970-1985 og má segja með sanni að á þessu svæði hafi verið byggt upp meira og hraðar en nokkurn tíma hefur þekkst hér á landi. Byggingarsaga Breiðholtsins hefur því nokkra sérstöðu í þéttbýlismyndun á Íslandi.
Byggingarsamvinnufélag atvinnubifreiðastjóra (BSAB) stórtækt í Breiðholtinu
Þegar verið er að ræða um stórfelldan skort á íbúðarhúsnæði í Reykjavík og víðar er vert að minnast byggingarsamvinnu- félaganna, sem eins og nöfn þeirra bentu til störfuðu öll á félagslegum grundvelli. Þótt nú séu aðrir tímar er rétt að hugleiða hve veigamikil þau voru og mætti trúlega læra sitthvað af sögu þeirra.
Sem dæmi mætti taka umsvif Byggingarsamvinnufélags atvinnubifreiðarstjóra (BSAB) en það félag var á meðal hinna stórtækustu í Breiðholtinu vel á annan áratug, var reyndar á meðal þeirra stærstu í landinu á þeim tíma. Félagið byggði mest fjölbýlishús af ýmsum stærðum. Það hafði verið stofnað árið 1947 og var einn stofnfélaganna, Guðmundur Óskar Jónsson, stjórnarformaður BSAB frá 1955-1972 og framkvæmdastjóri félagsins frá 1965-1980. Sem bifreiðarstjóri ók hann lengst af leigubíl hjá Hreyfli. Óskar, eins og hann var alltaf kallaður, var því einn af brautryðjendum þess tíma í Reykjavík, mikill hugsjóna- og félagshyggjumaður, og skipaði sér í sveit þeirra sem helst börðust fyrir bættum hag hinna verst stöddu í þjóðfélaginu. Má geta þess að heiti BSAB breyttist í Aðalból árið 1977 og árið 1981 stofnuðu Óskar og nokkrir félaga hans nýtt byggingafélag, Skjól, sem byggði bæði fjölbýlishús og raðhús um nokkurra ára skeið.
Lægri byggingarkostnaður
Áður en BSAB fór að byggja í Breiðholtinu hafði félagið byggt Eskihlíð 13-15 á árunum 1948-1949, Álfheima 44, fyrstu blokkina í þeirri götu, á árunum 1957-1958, og rétt áður en starfsemi þess hófst í Breiðholtinu byggði það fjölbýlishús við Fellsmúla 14-22. Til marks um hina umfangsmiklu starfsemi BSAB í Breiðholtinu byggði það fjölbýlishúsin Kóngsbakka 1-15 og 2-16 á árunum 1967-1969, Asparfell 2-12 á árunum 1970-1977, Engjasel 70-86 á árunum 1974-1977 og fyrsta fjölbýlishúsið í Mjóddinni, við Þangbakka, um 1980. Og enn var byggt, síðast í Háaleitishverfi og í Grafarvogi næstu árin.
Það sem einkenndi þessar byggingar var lægri byggingarkostnaður en almennt tíðkaðist á frjálsum markaði. Sem dæmi má nefna að byggingarkostnaður íbúðanna við Kóngsbakka var 20% lægri og Asparfellsíbúðanna 13% lægri en sambærileg vísitöluhús en við þá útreikninga miðaði BSAB við meðaltal byggingarvísitölu á byggingartímanum. Engjaselsíbúðirnar reyndust einnig kaupendum mjög hagkvæmar en þar var t.d. byggingarkostnaður fullgerðra 4ra herbergja íbúða 6.2 miljónir króna á sama tíma og sams konar íbúðir í Seljahverfi, tilbúnar undir tréverk, voru seldar á rúmlega 7 milljónir króna. Var þetta talið vel af sér vikið á miklum verðbólgutímum. Ljóst er að með lágum útborgunum og hóflegum mánaðarlegum greiðslum um tveggja til þriggja ára skeið var fjölda efnalítils fólks gert kleift að eignast íbúðir, oft þær fyrstu.
Allir fyrir einn og einn fyrir alla
Í BSAB gilti hið félagslega mottó, svipað og í öðrum slíkum félögum, að allir væru fyrir einn og einn fyrir alla. Félagið var að byggja fyrir félagana, hina væntanlegu íbúðareigendur. Með samvinnu að leiðarljósi var fyllstu hagkvæmni gætt án þess að gera arðsemiskröfur, íbúðareigendur sjálfir nutu hagnaðarins. Ekkert var þó slegið af gæðakröfum og miklu máli skipti að fastur kjarni fagmanna og annars starfsfólks starfaði við þessa byggingarstarfsemi árum og áratugum saman. Þetta var vissulega raunin hjá BSAB sem alltaf hafði á að skipa góðu og samhentu starfsfólki, rak mötuneyti og skapaði sem besta vinnuaðstöðu við hverja byggingu. Nú, þegar mikið er rætt um skort á íbúðarhúsnæði, sem t.d. ungt fólk gæti eignast, er vert að huga að kostum og möguleikum samvinnufélaga á borð við BSAB sem veltu Grettistaki í húsbyggingum í Breiðholtinu og víðar á seinni hluta liðinnar aldar.
Höfundurinn, Svanfríður S. Óskarsdóttir, hefur búið í Seljahverfi í Breiðholti í rúmlega 40 ár. Hún er dóttir áðurnefnds Óskars hjá BSAB, en félagið byggði fyrstu íbúðina, sem hún og fjölskylda hennar eignaðist 1977. Til gamans má geta þess að sonur Svanfríðar, Óskar Dýrmundur Ólafsson, er hverfisstjóri Breiðholts.
Helstu ritaðar heimildir „BSAB afhendir 113 fermetra fullbúna íbúð fyrir 6.2 milljónir króna. Félagið verður 30 ára í þessum mánuði”. Alþýðublaðið, 1. febrúar 1977, bls. 14. „ Breiðholtið er 50 ára. Byggingarsaga þess er einstök”. Breiðholtsblaðið, júlí 2016, bls. 12. „Fjölbreytt byggð – en ýmis verk að vinna”. Breiðholtsblaðið, apríl 2018, bls. 2. Eggert Þór Bernharðson. 2013. Undir bárujárnsboga, Braggalíf í Reykjavík 1940-1970. Reykjavík, JPV útgáfa. Ingólfur Jónsson. 1988. Hreyfilsmenn. Saga og félagatal 1943 -1988. Fyrra bindi. Reykjavík, Samvinnufélagið Hreyfill, bls. 60 - 61. Ómar Valdimarsson. 1990. Guðmundur J. Guðmundsson. Baráttusaga. Reykjavík, Vaka-Helgafell, bls. 60 - 66. Þórunn Valdimarsdóttir. Sveitin við sundin. Búskapur í Reykjavík 1870 -1950. Reykjavík, Sögufélag, bls. 26.