Aumasta skólahald allra tíma

– afurð Móðuharðinda, Suðurlandsskjálfta, siðaskipta, embættismannahroka, danskra yfirráða og drykkjuskapar –

Hólavallaskóli var hrákasmíði og hélt hvorki vatni né vindum.

Hólavallaskóla var komið á fót á Hólavöllum ofan núverandi Suðurgötu í Vesturbæ Reykjavíkur eftir að skólahald í Skálholti var lagt niður. Sögu skólahalds má rekja til þess að hálfri öld eftir kristnitöku á Íslandi eða árið 1056 varð Skálholt biskupssetur. Var þá stofnaður þar skóli til þess að mennta presta til að sinna trúarlífi nýkristina landsmanna. Með konungsboði að loknum siðaskiptum 1550 var biskupsstólunum íslensku gert skylt að reka skóla til að mennta menn til að gegna prestsembættum og einnig gat skólavist verið undirbúningur undir framhaldsnám erlendis.  

Saga skólahalds í Skáholti endaði sumarið 1784. Þá hrundu öll hús á staðnum nema dómkirkjan í suðurlandjarðskjálfta. Á sama tíma gengu móðuharðindin í lok Skaftárelda yfir og næstum allt búfé staðarins féll vegna gróðurbrests og fóðurskorts. Skólinn var ekki endurreistur í Skálholti. Með konungsúrskurði 15. apríl 1785 var ákveðið að flytja biskupssetrið og skólann til Reykjavíkur. Allar eignir Skálholtsstóls skyldu seldar og andvirðið renna í konungssjóð. Eignirnar voru virtar á 62.500 ríkisdali. Átti sú upphæð að gefa af sér 2.500 ríkisdali árlega með 4% vöxtum sem átti að nægja til þess að standa straum af skólahaldi í Reykjavík, launagreiðslum til biskups og kennara skólans auk námsstyrks handa nemendum. Með þessum úrskurði voru eignir sem talist höfðu íslenskar færðar undir danakonung og urðu þar með danskar.  

Fjárhæðir dugðu ekki til

Í upphafi var hugmynd um að reisa nýja skólann á Austurvelli en þegar til kom þótti völlurinn of blautur til þess að reisa skólahús þar. Var þá ákveðið að að reisa skólahús á Melshúsalóð en kennarabústaði á Hólakotslóð þar við hliðina sem er á svæðinu á milli Suðurgötu og Garðastrætis. 1600 ríkisdölum var veitti til að koma upp skólahúsi úr timbri en það fé dugði hvergi til og var húsið því minnkað og breytt til að fella að fjárskortinum. Þrátt fyrir að mikið væri dregið saman í byggingaframkvæmdum varð húsið tvöfalt dýrara en áætlað hafði verið. Kennarabústaðurinn var ekki reistur vegna fjárskorts og þurftu kennarar að búa í kennslustofum í skólahúsinu af þeim sökum. Ekkert varð heldur af byggingu greiðasölustaðar þar sem skólapiltar áttu að geta komist í fæði. Kennsla hófst í Hólavallaskóla haustið 1786 tveimur árum eftir að skólahald lagðist af í Skálholti.  

Málverk Jóns Helgasonar biskups sýnir Hólakot og Hólavallamyllu um 1840.

Framkvæmdafé á Álftanes

Bygging og rekstur Hólavallaskóla gekk ekki áfallalaust fyrir sig. Í yfirgripsmikilli grein eftir Árna Óla blaðamann og rithöfund sem birtist í Lesbók Morgunblaðsins 1951 fór hann yfir sögu skólans. Í grein Árna kemur fram að ekkert af þeim húsum sem reisa átti hafi komist upp nema skólahúsið og þá mun minna í sniðum en upphaflega var áætlað. Þar segir að biskup og kennarar hafi ekki treyst sér til þess að koma sér upp bústöðum fyrir þann styrk sem þeim var ætlaður. Rektor fékk fyrst ábúð á nokkrum hluta Skildinganess og konrektor var fyrsta árið í Hlíðarhúsum sem stóðu þar sem Vesturgata 26 til 28 stendur nú. Tveir danskir byggingamenn voru sendir hingað til þess að standa fyrir byggingaframkvæmdum. Múrmeistari og trésmiður. Aðalskólahúsið varð ekki nema rúmar 40 x 10 álnir en átti upphaflega að vera 60 x 30 álnir. Síðan var byggð álma austur frá suðurenda þess og niður í brekkuna, rúmlega 28 x 6 álnir að stærð. Þessi bygging var í heild sinni aldrei annað en hrákasmíð. En þrátt fyrir að skólahúsið hafi bæði verið illa byggt og miklu minni en upphaflega var ráð fyrir gert mun það hafa orðið um helmingi dýrara en ráðgert var og kostað alls 3.238 ríkisdali í stað 1.600. Levetsow stiftamtmaður á að hafa blygðaðist sín fyrir að segja hver kostnaðurinn hafði orðið. Sannleikurinn er þó sá að afskipti hans af byggingunni munu ekki hafa orðið til þess að draga úr kostnaðinum. Hann kallaði alla smiði er að því unnu oftar en einu sinni suður að Bessastöðum til þess að láta þá gera við stiftamtmanns íbúðina þar. Munu þeir alls hafa unnið þar vikum saman auk þess að ekki mun hafa verið farið frómlega með efnivið sem ætlaður var til byggingar skólans. Hluti framkvæmdafjárins virðist hafa runnið suður á Álftanes.

Þrír piltar í hverju rúmi

Í norðurenda skólahússins varð rektor að láta gera íbúð fyrir sig þegar sýnt var að hann gat ekki byggt yfir sig. Voru þar afþiljuð þrjú herbergi, eldhús og búr. Konrektor varð að leggja undir sig herbergi í álmunni þar sem voru geymslur og lítið herbergi fyrir bókasafn. Á loftinu var svefnskáli pilta. Hann var einn geimur 18 til 20 álnir lengd og átta álnir á breidd. Þar var enginn ofn og engin þægindi nema níu rúm sem ætluð voru 30 skólapiltum. Þrír skyldu hvíla í hverju rúmi.

Vígður í viðurvist heldri manna

Smíði Hólavallaskóla var lokið sumarið 1786 sama ár og Reykjavík fékk kaupstaðarréttindi sem áttu að efla hana til að gerast höfuðbær svo vitnað sé til orða Jóns Espólín. Var skólinn vígður haustið 1786 í viðurvist ýmissa heldri manna þess tíma. Þar á meðal voru Hans Christopher Diderich Victor von Levetzow stiftamtmaður, Hannes Finnsson biskup, Ólafur Stefánsson amtmaður, Guðmundur Þorgríms-son dómkirkjuprestur og Jón Sveinsson landlæknir viðstaddir athöfnina.

Séð yfir Tjörnina frá Hólavöllum um 1900. Torfbærinn Hólakot er í forgrunni. Á þessum tíma þótti Hólakot hálfgert hreysi nýtt af undirmálsfólki þess tíma. Drykkjuskapur loddi við marga íbúa torfbæjanna. Um aldamótin 1900 var rætt um óeirðarmenn eins og Óla í Hólakoti, Jón sinnep og Stjána bláa sem sagðir voru konungar götunnar í krafti ölæðis og ofstopa.

Lifðu á skrínukosti

Þegar skólinn var fluttur frá Skálholti var ákveðið að kennarar fengju laun sín greidd ársfjórðungslega í peningum og þeir nemendur sem nytu skólastyrks skyldu einnig fá hanna greiddan í peningum en sjá sér sjálfir fyrir mat. Áður hafði skólastyrkur verið í formi fæðis. Ekkert varð af þessum áformum en fjórum árum síðar fékk kona að nafni frú Angel leyfi til veitingahalds. Það var ekki í neinu sambandi við skólann og kom skólapiltum ekki að neinu gagni. Þeir urðu því að lifa á skrínukosti eða koma sér sjálfir í fæði í einhverjum af kotunum í kring. Sagt er að sumir þeirra hafi komið sér í eitthvert fæði í Melhúsum. Séra Árni Helgason sagði seinna um dvölina í Hólavallaskóla. „Fátækt þekkti ég aðheiman en sultinum kynntist ég fyrst í skóla.“

Snjóaði inn og piltar stirðir af kulda

Guttormur Pálsson sem var nemandi og síðar kennari við skólann lýsti skólalífinu með þessum hætti „Á svefnlofti pilta snjóaði inn á gólf, þegar hríð var úti og hvassviðri, svo að piltar áttu fullt í fangi með að halda á sér hita í rúmunum. Veturinn 1791, þegar ég var þar í skóla gerði 18 stiga frost nokkra daga í desember og eftir fyrstu nóttina vorum við piltar svo stirðir af kulda er við áttum að fara á fætur um morguninn að við naumast gátum hreyft okkur. Næstu næturnar gripum við til þeirra ráða að leggjast undir efri undirsængina og stinga skónum okkar, sem voru votir eftir útiveru okkar undir höfðalagið til þess að geta komist í þá næsta morgun.“ Bjarni Þorsteinsson amtmaður, sem kom í skólann 1795 segir að nálega allir skólapiltar nema hinir hraustustu hafi orðið sjúkir af kláða og öðrum kvillum, sem stafaði af kulda og illu mataræði. Sveinn Pálsson getur þess að af 32 piltum sem voru í skólanum 1803 hafi 24 veikst af skyrbjúg að vísu ekki allir á jafn háu stigi en þó svo að níu urðu að liggja rúmfastir vikum saman. Ekki var gert ráð fyrir því þegar skólinn var reistur að piltar gætu veikst eða þurft á hjúkrun að halda því þar var engin sjúkrastofa. Hefði þó verið full ástæða til þess. Þótt skólahúsið hefði verið vel byggt í stað þess hreysis sem það var hefði verið nauðsyn á sjúkrastofu til vonar og vara því ekkert sjúkraskýli var til í bænum Reykjavík.

Sífullur skólameistari

Skólameistari Hólavallaskóla var Gísli Þórðarson Thorlacius. Hann var sonur Þórðar Brynjólfssonar Thorlacius. Hafði stundað nám í Skálholtsskóla um tvo vetur en síðan farið til Kaupmannahafnar, lokið þar stúdentsprófi og tekið embættispróf í guðfræði 1768. Hann hafði þótt drykkfelldur í skóla og er hann var kominn til Reykjavíkur á ný magnaðist drykkjuástríðan um allan helming. Kom hann stundum ekki til kennslu tímunum saman. Þegar frá leið hætti hann alveg að mæta. Páll Jakobsson hafði verið konrektor og settur skólameistari í Skálholti var áfram konrektor Hólavallaskóla. Hann var einnig drykkfelldur auk þess að vera kominn á efri ár. Að því kom að hann flutti burt úr bænum að Esjubergi en hélt þó starfi sínu að nafninu til. Skólastjórn og kennsla við Hólavallaskóla var að mestu í höndum settra kennara, fyrst Jakobs Árnasonar, systursonar Páls, sem síðar varð prestur í Gaulverjabæ og síðar Guttorms Pálssonar sem eftir það varð prestur í Vallanesi á Fljótsdalshéraði og tengdafaðir Einars Ásmundssonar í Nesi í Höfðahverfi. Einnig kenndu við skólann um lengri eða skemmri tíma þeir Brynjólfur Sigurðsson, Arnór Jónsson og Jóhann Árnason. Þegar þeim Gísla og Páli var veitt lausn frá embætti 1804 hafði hvorugur þeirra sést í skólanum í nokkur ár.

Herranótt og saga leiklistar

Að einhverju leyti má rekja sögu íslenskrar leiklistar til Hólavallaskóla. Herranótt á rætur sínar þangað þar sem skólapiltar settu upp leikverkin Hrólf 1796 og Narfa 1799 eftir Sigurð Pétursson, sem nefndur hefur verið faðir íslenskrar leikritunar. Telja menn að ein fyrirmynd Narfa hafi verið Jón nokkur Sori sem átti að hafa verið slúðurberi Jakobs Árnasonar sem var settur skólameistari á þeirri tíð. Jón Sori var hýddur af skólafélögum sínum á tjarnarbakkanum fyrir söguburð og hrökklaðist eftir það úr skóla.

Kona situr við Hólavallamyllu. Ljósmyndin er sögð tekin um 1860 og því með elstu íslensku ljósmyndum.  

Skólinn fluttur til Bessastaða

Í Hólavallaskóla var kennd latína, gríska, Nýjatestamentisfræði og svolítið í sögu, landafræði og reikningi. Engin kennsla var í íslensku eða dönsku en piltunum þó sagt að þeir ættu að læra þetta. Bókakostur var svo lítill að stundum voru átta skólasveinar um eina bók. Verst mun ástandið hafa verið fyrstu árin þegar Gísli og Páll áttu að heita að vera við kennslu en skánaði þegar settu kennararnir tóku við.

Af öllu þessu kennsluháttum og ekki síður aðbúnaði var skólinn illa þokkaður og margir voru tregir til að senda syni sína þangað. Þegar konungsboð kom haustið 1801 um að leggja skyldi skólann á biskupsetrinu Hólum í Hjaltadal niður varð Hólavallaskóli eini skóli landsins. Af því varð svo mikil óánægja að farið var að leita annarra úrræða. Á endanum varð úr að flytja skólann á Bessastaði sem var gert árið 1805. Veturinn 1804 til 1805 var enginn opinber skóli á Íslandi. Margt fleira mætti taka fram um þá ótrúlegu starfshætti sem tíðkuðust í Hólavallaskóla og það skelfilega ástand sem ríkti í skólamálum á þessum tíma. Engu að síður er Hólavallaskóli forveri menntaskólahalds hér á landi sem var í raun aðeins fáum ætlað allt fram á sjöunda áratug liðinnar aldar. Alþingi hélt síðustu fundi sína 1799 og 1800  í húsi Hólavallaskóla áður en það var lagt niður tímabundið. Landsyfirréttur var um tíma í húsinu en hrökklaðist þaðan í febrúarmánuði 1807 vegna kulda og trekks. Skólahúsið var rifið skömmu síðar.

You may also like...