Keilufellið er eins og kardemommubær

— segir Pétur Eggerz leikari og leiðsögumaður —

Pétur Eggerz í hlutverki Jóns Steingrímssonar eldklerks. Hann segir að tildrög þeirrar sýningar Möguleikhússins séu að hann hafi verið sveit í Meðallandinu á söguslóðum klerksins í æsku.

Pétur Eggerz leiklistarfrömuður, leikari, leiðsögumaður og fararstjóri spjallar við Breiðholtsblaðið að þessu sinni. Hann hefur búið í sænska timburhúsahverfinu milli Gerðubergs og Fella- og Hólakirkju í Efra Breiðholti um langt skeið. En húsakaupin þar eru ekki fyrstu kynni hans af Breiðholti. Hann er alinn þar upp að mestu leyti, fyrst í Bökkunum en síðar í Seljahverfi og hlaut skólagöngu í Breiðholtsskóla, Hólabrekkuskóla og FB.

“Ég er Breiðhyltingur en hef þó ekki búið samfellt í Breiðholtinu. Ég var átta ára þegar fjölskyldan flutti í Ferjubakka sem var fyrsta blokkin sem var byggð í Bakkahverfinu. Þetta var eins og að fara upp í sveit. Engin byggð var komin utan nokkur einbýlishús sem voru í byggingu í Stekkunum fyrir neðan Bakkana. Fyrsta veturinn sem við bjuggum þarna var enginn skóli í Breiðholti en við krakkarnir vorum send með skólabíl niður í Austurbæjarskóla. Árið eftir kom svo Breiðholtsskóli. Þetta var allt öðruvísi en síðar varð. Fyrstu árunum var eytt í náttúruskoðun því ekki þurfti að fara langt til þess að vera kominn út í ósnerta náttúru. En breytingarnar urðu hraðar. Breiðholtið byggðist upp af miklum hraða. Efri hlutinn byggðist fljótt á eftir þeim neðri og svo kom Seljahverfið þangað sem við fluttum tíu árum síðar. Margt barnafólk flutti í Bakkana og umhverfið var um flest mjög fjölskylduvænt. Hverfið er skemmtilega hannað og við krakkarnir þurftum ekki að fara yfir götu til þess að fara í skólann. En þótt byggðin stækkaði og fleiri hverfi og hverfishlutar byggðust upp þá vorum við krakkar og unglingar í Breiðholtinu ekki að fara mikið á milli þeirra. Byggðin skiptist í tvennt sitt hvoru megin við dalinn. Mér finnst villandi að tala um Breiðholti sem eitt hverfi. Þetta er mikið fremur byggð með nokkrum mismunandi hverfum. Seljahverfið er að nokkru leyti tvískipt og einnig Fella- og Hólabyggðin. Sem heild er þetta fjölmennari byggð en flest sveitarfélög í landinu. Kemur næst á eftir Kópavogi og Hafnarfirði. Er þriðja fjölmennasta byggðarlagið hér á landi.”   

Byrjaði að leika í Hólabrekkuskóla

Pétur átti sína hefðbundnu skólagöngu í Breiðholtinu. Hann var í Breiðholtsskóla fram að landsprófsbekk. “Þá var landsprófið enn í gangi en ég held að það hafi verið síðasta árið sem það var viðhaft. Ég tók landspróf í Hólabekkuskóla og hélt síðan í FB. Þegar kom fram á framhaldsskólárin komu ákveðnir ókostir fram. Breiðholt er það langt frá Miðborginni að erfitt var að sækja Miðborgarlífið og fara á djammið. Alla vega var dýrt að taka leigubíl heim seint á kvöldin eða á nóttunni. Maður lét sig þó hafa það og lauk náminu í FB.” Pétur fór snemma að fást við leiklist. “Ég byrjaði að sinna leiklistinni í Hólabrekkuskóla. Sigurður Líndal var leiklistarkennari þar og sinnti okkur krökkunum vel. Ég hélt áfram í FB og séra Guðmundur Sveinsson sem var fyrsti skólameistari þar var hliðhollur leiklistinni. Ég tók líka mikinn þátt í félagsstarfinu þar. Var þátttakandi í því að búa til ýmsa klúbba. Sumt af því var frumstætt en ég held að ég hafi lært mikið af þessu félagsstarfi. Reynslan frá þessum tíma hefur nýst mér meira við þau störf og verkefni sem ég hef tekið mér fyrir hendur síðar á lífsleiðinni en margt af því sem ég hef lært í hefðbundnu námi. Nei – ég fór ekki beint í nám í leiklist að þessu loknu. Ég fór í bókmenntafræði í Háskóla Íslands. Ég var þar í þrjá vetur en sannast sagna lauk ég náminu aldrei. Ég átti eftir að ganga frá lokaritgerð til BA prófs. Ég hef aldrei tekið hana fram aftur. Geri það kannski þegar ég verð komin á efri ár. Ástæða þess að ég útskrifaðist ekki var einkum sú að ég var farinn að sinna leiklistarlífinu það mikið að ég rann út á tíma. Ég var við nám í leiklistarskóla Helga Skúlasonar sem var ákveðin uppeldisstöð fyrir leikara á þessum árum og í gegnum það gat maður fengið lítil hlutverk eða sem statisti í sýningum í Þjóðleikhúsinu.”

Leiklistarnám í London

Þaðan lá leiðin síðan til Bretlands. “Já – ég fékk inni í skóla í Bretlandi fyrr en ég hafði búist við og var þar við nám í tvö og hálft ár. Ég fór ekki beint úr statistahlutverkum hér heima í Shakespeare en hann kom þó fljótlega við sögu í náminu ytra. Bretar vinna mikið með verk hans í leikhúsi. Hann er þeirra stærsta nafn í leiklistarsögunni. Þegar maður er að læra í öðru landi þarf að hafa meira fyrir tungumálinu. Ég var í London sem er mikil menningar- og leiklistarborg. Maður gat verið endalaust í leikhúsum og á leiksýningum og oft lærði ég meira á að sækja sýningar í hinum og þessum leikhúsum en í sjálfum skólanum. Ég kom heim frá London 1984 fór að svipast um eftir verkefnum. Það háði mér nokkuð að hafa lært erlendis vegna þess að færri þekktu til manns. Ég fékk þó ýmis verkefni. Til dæmis lenti ég í að starfa með Stuðmönnum við tökur myndar sem heitir Hvítir Mávar og var gerð eftir myndina Með allt á hreinu. Síðan fékk ég starf hjá Leikfélagi Akureyrar í fjóra vetur.”

Úr sýningu Möguleikhússins um Sæmund fróða.

Á ættir úr Svarfaðardal

Hvernig var að vera allt í einum komin þangað eftir veru í stórborginni ytra. “Ég kynntist Akureyri nokkuð á þeim tíma en þar sem ég var einn og ekki með fjölskyldu þá togaði heimabyggðin hér syðra alltaf í mann. Ég var á talsverðu flakki fram og til baka ekki síst þegar leið á leikárið, æfingar búnar og starfið snerist að mestu um sýningar sem voru um helgar. Ég kynntist ýmsu góðu fólki hjá Leikfélaginu. Þráni Karlssyni, Sunnu Borg og Gesti Einari Jónassyni síðar útvarpsmanni svo nokkurra sé getið. Theodór Júlíusson var að leika þar og var einnig formaður Leikfélagsins á þeim tíma. Þegar ég kom norður stýrði Signý Pálsdóttir leikhúsinu en svo urðu skipti. Pétur Einarsson var leikhússtjóri um tíma og fleiri komu þar við sögu. Ég tók líka eftir því hversu öflugt leiklistarlíf er við Eyjafjörðinn. Ekki aðeins á Akureyri heldur beggja vegna við fjörðinn. Leikfélögin á Dalvík, Grenivík, Freyvangsleikhúsið í Eyjafirði og leikfélagið í Hörgárdal eða Melaleikhúsið vöru öll kraftmikil leikfélög. Ég leikstýrði á Melum á þessum tíma. Það var líka gaman fyrir mig að kynnast þessum byggðum því ég á ákveðnar rætur við Eyjafjörð. Séra Stefán Kristinsson sem var prestur á Völlum í Svarfaðardal og kona hans Sólveig Eggerz Pétursdóttir voru langafi minn og langamma. Eggerts nafnið er ættað vestan af Skarðströnd. Það er komið frá Friðriki Eggerz sem var prestur á Skarði á Skarðsströnd 1859 til 1872. Á þessum tíma voru menn að taka sér ættarnöfn – einkum embættismenn og prestar. Ég er nú kominn nokkuð langt frá honum þótt ég beri þetta nafn. Hann var langalangalangafi minn. Hjá mér er um skírnarnafn að ræða vegna þess að ættarnöfn áttu aðeins að erfast í karllegg. Þetta hefur verið að breytast af og til og verið vandamál hjá fólki sem vill halda í gömul nöfn af þessum toga því þegar sonur minn var skýrður árið 1994 mátti ekki nota Eggerz sem skírnarnafn.”

Keilufellið er eins og kardemommubær

“Nei – þótt ég eigi ættartengsl í Eyjafjörðinn var aldrei ætlunin að setjast að nyrðra. Þótt margt gott megi segja um Akureyri og Eyjafjörð var aldrei ætlunin að eyða lífinu þar. Ég kom aftur suður, stofnaði heimili og það lenti með að við – ég og konan mín Alda Arnardóttir festum kaup á húsi við Keilufell í Breiðholti árið 2002. Við höfum verið þar síðan eða í 16 ár og kunnað vel við okkur. Þetta er eitt af sænsku húsunum sem voru keypt hingað eftir gosið í Heimaey 1973. Þessi húsaþyrping ofarlega í Fellahverfinu myndar lítið hverfi í hverfinu. Þau eins og Kardemommubær á milli annarra bygginga. Þetta eru vel heppnuð timburhús og ef maður hugsar til baka. Til gossins og afleiðinga þess þegar þurfti að flytja nær alla íbúa Vestmannaeyja upp á land á einni nóttu má sjá hvað hægt er að gera á stuttum tíma. Gosið hófst í janúar og strax var farið í að finna Vestmanneyingum húsnæði. Þessi hús voru hluti af því stóra verkefni og ef ég man rétt flutti fólk inn í húsin fyrir áramótin 1973 til 1974 þegar ekki var liðið ár frá því að gosið hófst. Margir Vestmanneyingar voru fluttir burt þegar við keyptum okkar hús nær þremur áratugum eftir að þau voru reist. Sumir fóru aftur heim til Eyja. Ég veit ekki nákvæmlega hvort einhverjir frumbýlingar úr Eyjum búa þar enn en það getur þó verið. Nú eru við öll systkinin í Breiðholti. Ég er í Fellunum og móðir mín og systur í Seljahverfinu.”

Pétur Eggerz ásamt eiginkonu sinni Öldu Arnardóttur.

Eins og snjóbolti sem byrjaði að rúlla

Eitt af því sem Pétur hefur gert er að stofna sitt eigið leikhús – Möguleikhúsið sem hefur starfað talsvert sem ferðaleikhús og sýningar haldnar víðs vegar um landið. “Við vorum þrír sem stofnuðum Möguleikhúsið 1990. Ég, Bjarni Ingvarsson og Grétar Skúlason. Konan mín Alda Arnardóttir sem einnig er leikari kom líka að þessu. Grétar hvarf síðan til annarra viðfangsefna. Hann fór að starfa við kennslu en við héldum áfram og komum okkur upp húsnæði við Hlemm 1994.” Pétur segir þetta hafa verið eins og snjóbolti sem byrjað hafi að rúlla. “Við gerðum leikþætti fyrir krakka sem sýndir voru á þjóðhátíðardaginn 17. júní og unnum líka ferðaleiksýningar fyrir leik- og grunnskóla. Við vorum oftast með stuttar syningar – svona klukkustundar þætti og fórum með þær um allt land. Ég held að við höfum náð allt að 200 sýningum á ári þegar best lét. Þetta var nokkuð stíft framhald en maður var ungur og kraftmikill á þessum tíma. Hápunktur Möguleikhússins var á aldamótaárinu 2000 og á fórum við með sýningar til útlanda. Við vorum líka með jólasýningar og ég get nefnt sýninguna Smiður jólasveinanna sem við sýndum allt að 52 sinnum frá því í nóvember til jóla. Við sjáum líka um jólasveinana í Þjóðminjasafninu á jólaföstunni. Ég held að ég sé búinn að leika alla gömlu jólasveinana nema Stúf því hann get ég ekki leikið. Er allt of langur til þess.” Pétur segir að á undanförnum árum hafi starfsemi hægt á sér og Möguleikhúsið hefur ekki verið með sýningu síðustu tvö árin. “Það er talsvert mál að halda utan um þetta og erfitt að láta starfsemina standa undir sér. Við erum ekki áskrifendur að styrkjum og verið háð því að skólar kaupi sýningar. Eftir hrunið dró mikið úr kaupum á sýningum og Þjóðleikhúsið var einnig farið að bjóða upp á ókeypis barnaleiksýningar. Eftir nær þriggja áratuga starf er spurning hvort maður nennir að ströggla í þessu.” Pétur telur þó ekki rétt að útiloka að Möguleikhúsið eigi eftir að setja upp sýningu. “Ég á eitthvað af leikmyndunum ennþá. Meðal annars úr sýningunni en eldklerkinn séra Jón Steingrímsson. Það er aldrei að vita nema að maður dusti rykið af henni einhvern tíma.”

Leiðsögustarfið hentar mér vel

Pétur hefur snúið sér að öðru viðfangsefni. Ef til vill ekki svo langt frá leiklistinni. Hann hefur starfað sem fararstjóri og leiðsögumaður. En hvernig kom það til. “Ég hef alltaf haft gaman af að ferðast. Ég ferðaðist mikið með náttúrufræðifélaginu og ef til vill á eitthvað af þessum ferðaáhuga rætur úr uppvextinum í Breiðholtinu. Það voru ekki nema nokkur skref út í náttúruna úr Bökkunum á þeim tíma og mikið um fuglalíf. Ég fékk mikinn áhuga á fuglum. Eiginlega fugladellu. Að starfa við ferðaþjónustu byrjaði með að ég fór í leiðsöguskólann 2006 og eftir það fór ég að taka að mér leiðsögn einkum á sumrin. Eftir því sem ferðaþjónustan hefur vaxið hef ég lent meira í að performera fyrir ferðamenn.” Pétur segir margt fólk úr leiklistargeiranum starfa við leiðsögn. Þetta er ekki að öllu leyti óskyld vinna. Maður stendur fyrir framan fólk og segir frá. Túlkar viðfangsefnið fyrir áheyrendum. Þetta hentar líka vel fyrir sjálfstætt starfandi fólk eins og mig. Að geta farið á milli margvíslegra verkefna. Verið hér í dag og þar á morgun. Maður er bara það sem maður er að gera þá stundina.”

You may also like...