Mikil stemning og fjölmenni á Safnanótt
Það er óhætt að segja að stemningin hafi verið frábær á Safnanótt í Bókasafni Seltjarnarness föstudaginn 8. febrúar sl. Vel á þriðja hundrað gestir mættu og tóku þátt í metnaðarfullri og dagskrá sem stóð yfir fram á kvöld. Safnanótt er hluti af Vetrarhátið höfuðborgarsvæðisins.
Af mörgu var að taka í þéttri og skemmtilegri dagskrá auk þess sem boðið var í pylsupartý svo enginn varð svangur. VÍSINDA-Villi hóf fjörið og gerði tilraunir úr bókunum sínum og spjallaði við krakkana um vísindi og mikilvægi þess að vera forvitinn. Hressir krakkar úr Való þau Arna Diljá, Auður Halla, Daníel, Jenný og Júlía sungu lög úr 1. Des söngleiknum þeirra „Með allt á hreinu“ auk þess sem Jenný Guðmundsdóttir söng aukalega tvö lög.
Hljómsveitin „Skelin Dion“ sem æfir í Skelinni, Ungmennahúsi Seltjarnarness heillaði áhorfendur með góðri spilamennsku og léttri framkomu. Lopabandið, skipuð 7 kennurum úr Tónlístarskólanum flutti nokkur eldhress dixie-lög við góðar undirtektir gesta. BINGÓ var spilað í þrígang um kvöldið þar sem spilað var um fjölda góðra vinninga í boði og var mikil spenna í loftinu í hverri umferð. Einnig var skemmtilegt föndur,VÍSINDA-bíó, VÍSINDA-ratleikur, VÍSINDA-getraun og VÍSINDA-bíó í boði allan tímann og dregið um góða vinninga.
Soffía Sæmundsdóttir tók á móti gestum á sýningu sína Órætt landslag í Gallerí Gróttu og myndlistarsýningar leikskólanna á Nesinu voru til sýnis á safninu. Óhætt er að segja að gestir skemmtu sér afar vel eins og glöggt má sjá á meðfylgjandi myndum.