Annía Stefánsdóttir sigraði í hæfileikakeppni
— Bullandi hæfileikar í Breiðholti —
Bekkurinn var þétt setinn í Breiðholtsskóla föstudaginn 8. febrúar þegar börn og unglingar af frístundaheimilunum og félagsmiðstöðvunum í Breiðholti öttu kappi í árlegri hæfileikakeppni sinni, Breiðholt got talent. Keppnin hefur fyrir löngu fest sig í sessi sem einn vinsælasti viðburðurinn á vegum Frístundamiðstöðvarinnar Miðbergs. Öll umgjörð er eins og best verður á kosið og mikil upplifun fyrir krakkana að fá að koma fram á sviði með alvöru hljóð- og ljósakerfi.
Hjá börnunum voru tólf atriði skráð til leiks og heildarfjöldi þátttakenda var 39. Sigurvegarar voru þær Eva Rós Halldórsdóttir, Katrín Ásta Jóhannsdóttir og Ragna Björnsdóttir frá frístundaheimilinu Regnboganum. Þær fluttu lagið Maístjörnuna eftir Jón Ásgeirsson við ljóð nóbelsskáldsins, Halldórs Kiljan Laxness. Allir þátttakendur fengu viðurkenningu að keppni lokinni. Kynnir var Sigyn Blöndal, sjónvarpskona á KrakkaRúv.
Unglingarnir kepptu um kvöldið. Annía Stefánsdóttir úr félagsmiðstöðinni Hólmaseli bar sigur úr býtum, en hún lék á píanó og söng lagið All the stars með Kendrick Lamar. Í öðru sæti varð Ísak Tómas, einnig úr Hólmaseli, en hann söng lagið In case með Demi Lovato. Í þriðja sæti urðu síðan þær Rúna Lind Cuizon og Sólbjörg Björnsdóttir úr félagsmiðstöðinni Hundrað&ellefu, en þær fluttu dansatriði.