Mikilvægt að teppa ekki umferðarflæði

Borgarstjórn vill lækka hámarkshraða á Hringbraut. 

Bæjarstjórn Seltjarnarness harmar að ekkert samráð hafi verið haft við bæinn vegna lækkunar hámarkshraða á Hringbraut úr 50 km/klst. í 40 km/klst. Einnig hafi hámarkshraði verið lækkaður á Hofsvallagötu, Ægissíðu og Nesvegi við sama tækifæri. Bent er á að Hringbraut sé stofnbraut í umsjón Vegagerðarinnar og til að lækka hámarkshraða þurfi Lögreglan í Reykjavík að samþykkja lækkun. Bent er á að Hringbraut sé ein af tveimur meginsamgönguásum sem íbúar nota til og frá vinnu frá Seltjarnarnesi og Vesturbæ. 

Í bókun Sjálfstæðismanna í bæjarstjórn Seltjarnarness segir að þann 5. febrúar síðastliðinn hafi borgarstjórn Reykjavíkur ákveðið að lækka hámarkshraða á Hringbraut. Bæjarstjórn Seltjarnarness hafi um nokkurt skeið lýst áhyggjum sínum um þróun samgöngumála m.a. í vesturhluta höfuðborgarsvæðisins og lagt áherslu á að tryggð verði greið og örugg umferð bifreiða um borgarhlutana, ekki síst í hugsanlegum neyðartilvikum. Nýverið hafi hámarkshraði í Geirsgötu verið lækkaður í 30 km/klst. Þá segir að á Seltjarnarnesi búi liðlega 4600 manns og áformað að að þeim fjölgi í 5000 á næstu árum. Vestan Hringbrautar er einnig umfangsmikil íbúðauppbygging á Keilugranda. Afar mikilvægt sé því að umferðarflæði verði ekki teppt frekar en nú er orðið.

You may also like...