Nemendafélag Való fékk tvo þráðlausa hljóðnema
— fáum tækifæri til að gera flottari hluti, segir Jenný Guðmundsdóttir —
Foreldrafélag grunnskóla Seltjarnarness færði nemendafélagi Valhúsaskóla á dögunum tvo þráðlausa hljóðnema og móttakara að gjöf. Gjöfin var vel þegin enda hafa nemendur skólans verið iðnir við að setja upp leikrit, söngleiki og aðra viðburði og munu þráðlausir hljóðnemar koma að góðum notum. Gjöfin kom á góðum tíma þar sem nemendur Valhúsaskóla frumsýndu árshátíðarleikrit sitt og söngleik, Rauðu mylluna, þann 10. apríl sl.
Jenný Guðmundsdóttir, formaður nemendafélagsins, tók við gjöfinni: ,,Það hefur verið draumur okkar í langan tíma að kaupa þráðlausa hljóðnema og við vorum ekkert smá ánægð þegar foreldrafélagið hafði samband við okkur og bauðst til að styrkja okkur. Hljóðnemarnir verða mjög mikið notaðir t.d. í söngvakeppnir, leikrit, ræðukeppnir, skemmtiatriði á böllunum og fleira. Með þessari gjöf fáum við tækifæri til að gera enn flottari hluti en við gerum nú þegar. Við getum útfært leik-, söng- og dansatriði á þá vegu sem við gátum aldrei með snúrur hangandi niður í gólf. Ég tala fyrir allt nemendafélagið þegar ég segi að við erum virkilega þakklát fyrir þessa gjöf og hlökkum til að sýna ykkur afrek okkar í framtíðinni”.
Foreldrafélagið óskar Valhýsingum til hamingju með þessa viðbót í félagsstarfið og hlakkar til að fylgjast með sköpun þeirra og framtakssemi.