Hekla ekki í Suður Mjódd
Nú er ljóst orðið að fyrirtækið Hekla hf. mun ekki flytja höfuðstöðvar sínar af Laugavegi í Suður Mjódd í Breiðholti. Viðræður hafa staðið yfir á milli forráðamanna fyrirtækisins og borgaryfirvalda um nokkurn tíma en þær leiddu ekki til niðurstöðu. Ekki liggur fyrir hvort þær kunni að verða teknar upp að nýju.
Borgarráð samþykkti á sínum tíma að skrifstofa eigna- og atvinnuþróunarsviðs og umhverfis- og skipulagssvið Reykjavíkurborgar yrði falið að hefja viðræður við Heklu um skipulagsmál og mögulega úthlutun lóðar til fyrirtækisins í Mjódd og einnig þróun Heklureitsins við Laugaveg í ljósi þess að starfsemi Hekla flytti á brott. Hugmynd Heklumanna gerði ráð fyrir 7.900 fermetra byggingu í fyrsta áfanga, með stækkunarmöguleika upp í allt að 12 þúsund fermetra. Óskaði fyrirtækið eftir viðræðum um kaup á byggingarrétti á lóðinni þar sem unnt yrði að koma fyrir um 450 bílastæðum auk bygginganna. Hekla hefur allt frá stofnun árið 1933 haft starfsemi í Reykjavík og frá árinu 1958 hefur meginstarfsemi þess verið við Laugaveg. Athuganir á möguleikum til frekari þróunar sem gerðar hafi verið fyrir Heklu hafi leitt í ljós takmarkanir til að mæta kröfum erlendra samstarfsaðila og þörfum viðskiptavina félagsins svo best verði á kosið. Ekki liggur heldur fyrir hver framtíð Heklureitsins við Laugaveg verður en í ljósi viðræðuslita um Suður Mjódd er ljóst að lengri tíma mun taka að breyta honum í íbúðahverfi eins og gert var ráð fyrir.