Úr Vesturbæ í Suðurbæ
– Björn Jón Bragason ræðir um skipulagsmálin –
Fyrir skemmstu kom út bókin Lífið í lit sem eru endurminningar Helga Magnússonar fjárfestis. Bókin er heilmikill aldarspegill og hana prýða hátt í 500 myndir. Hér í Vesturbæjarblaðinu birtist á dögunum kaflabrot úr bókinni þar sem Helgi sagði frá uppvexti sínum á Melunum í Reykjavík. Í bókinni rekur hann sögu fjölskyldu sinnar, sem er saga af farsælum viðskiptum þriggja kynslóða í 117 ár. Helgi hefur á síðustu árum verið umfangsmikill þátttakandi í íslensku viðskiptalífi og meðal annars setið í stjórn Marels og Bláa Lónsins. Hann segir í bókinni söguna af átökunum um Íslandsbanka fyrir hrunið og uppgjörinu við Sjálfstæðisflokkinn, en Helgi er einn stofnenda Viðreisnar. Höfundur bókarinnar er Björn Jón Bragason, lögfræðingur og sagnfræðingur, en þetta er hans sjöunda bók. Eftir Björn Jón liggur líka fjöldi greina og nokkrar heimildarmyndir um skipulagsmál. Ein þeirra fjallar um mál sem tengist Vesturbænum heldur betur en það er möguleg brú yfir Skerjafjörð, sem Björn Jón kýs að kalla Skerjabraut, en myndina gerði hann í samstarfi við vini sína Elí Úlfarsson flugmann og Karl West bifvélavirkja. Vesturbæjarblaðið hiti Björn Jón að máli á dögunum og ræddi við hann um brúarhugmyndina og fleiri skipulagsmál.
Björn Jón segir að öllum megi vera ljóst að bæta þurfi verulega umferðarflæðið um borgina enda eru helstu stofnbrautir löngu sprungnar en mjög sé deilt um leiðir til úrbóta. “Sumir vilja alls ekkert gera til að liðka fyrir umferð bíla og nú er meira að segja verið að hægja á henni sums staðar. Enn aðrir leggja áherslu á ný mislæg gatnamót hvarvetna, sem vissulega liðka fyrir umferð en eru plássfrek. Sama hvað þessum deilum kjörinna fulltrúa líður þá hygg ég að flestir borgarbúar séu sammála um að bæta þarf verulega umferðarflæðið um helstu stofnbrautir því þar er allt löngu sprungið.“
Rándýrar „lausnir“
Þú hefur skoðað þetta út frá sögunni. „Já, ég er mikill áhugamaður um sögu borgarinnar og ýmsar ókláraðar vegtengingar hafa verið inni á skipulagi Reykjavíkur í áratugi. Eitt sinn var talað um Fossvogsbraut og líka Hlíðarfót sunnan Öskjuhlíðar, en auðvitað myndi varla nokkur í nútímanum sætta sig við hraðbraut um Nauthólsvík og nálæg útivistarsvæði. Þess vegna hefur um nokkurt skeið verið gert ráð fyrir göngum í gegnum Öskjuhlíðina, en þau hafa verið talin ófrávíkjanleg forsenda þess að framtíðaruppbygging Landsspítalans geti orðið við Hringbraut. Öskjuhlíðargöng er mjög dýr og flókin framkvæmd, en þrátt fyrir augljósa annmarka á henni er hún ennþá inni á skipulagi.”
Verslun og þjónusta færist sífellt fjær miðborginni
Björn Jón kveðst sammála núverandi borgaryfirvöldum um að stefna að því að efla þjónustu miðsvæðis. “Að mínu viti er eftirsóknarvert að eiga þess kost að búa í þéttbýlu miðbæjarumhverfi, eins og við þekkjum frá borgum á meginlandinu og geta sótt alla helstu þjónustu í næsta umhverfi. En þrátt fyrir skýr fyrirheit borgaryfirvalda í þessu efni um langt árabil er reyndin allt önnur. Verslun og þjónusta færist sífellt fjær miðbæ Reykjavíkur, lengra austur og suður í Kópavog, Garðabæ og Hafnarfjörð.“
Pósthúsið farið
„Ég get sagt af þessu litla sögu, en vinafólk mitt keypti gamalt timburhús neðarlega við Skólavörðustíginn fyrir rúmum aldarfjórðungi og gerði upp með myndarlegum hætti. Þau reka þar enn þann dag verslun sína, iðnað og gallerý og búa á efri hæðinni. Þegar þau fluttu í húsið snemma á tíunda áratugnum þurftu þau ekki að eiga bíl. Öll þjónusta var í göngufæri. Nú er þessu þveröfugt farið og meira að segja pósthúsið er horfið úr gamla bænum. Ég vil snúa þessari þróun við og efla miðbæinn á nýjan leik en að mínu viti verður það ekki gert nema horfa á höfuðborgarsvæðið í heild sinni.“
Landamæri sveitarfélaga hafa torveldað heildarsýn
Hvað áttu við með því. „Landamæri sveitarfélaga hafa fram til þessa torveldað heildarsýn í skipulagsmálum. Ef við horfum á kort af þessu svæði og fjarlægjum öll landamæri þá blasir við okkur að Skerjafjörðurinn er miðpunkturinn og Álftanesið þar fyrir sunnan. Landamærin milli Reykjavíkur, Kópavogs, Garðabæjar og Hafnarfjarðar liggja nokkurn veginn austur-vestur og þar af leiðandi hefur skipulagið ekki verið hugsað á hinn ásinn, þ.e. norður-suður, sem þó væri mun nærtækara. Á Álftanesinu er mikið ónýtt byggingarland en vegtengingar skortir. Úti fyrir nesinu og á Skerjafirði eru miklar grynningar og við landnám er talið að fjörðurinn hafi verið mun þrengri en nú er og stór eyja úti á firðinum, þar sem eru Löngusker. Inn eftir firðinum gengur djúpur áll, sem er innsiglingin í Kópavogshöfn, en áætlanir gera ráð fyrir að hafskip muni á næstu árum alfarið hætta siglingum í Kópavogshöfn, sem eftirleiðis verði eingöngu svokölluð yndishöfn. Siglingar eiga því ekki að koma í veg fyrir að við tengjum nesin saman og gerum Álftanesið að „Suðurbæ“ Reykjavíkur.
Í framhaldi af Suðurgötu
Hefurðu kannað mögulega legu brúar yfir Skerjafjörð. „Jú, ég ræddi þessi mál við sérfræðinga, þar með talda skipulagsfræðingana Trausta Valsson og Gest Ólafsson, sem hófu að kynna þessar hugmyndir á áttunda áratugnum. Þá hitti ég líka Þorstein Þorsteinsson verkfræðiprófessor, en Þorsteinn hefur látið nemendur sína kanna möguleg brúarstæði og svo virðist sem hagstæðasti kosturinn sé að leggja brautina á uppfyllingum í framhaldi af Suðurgötu og stystu leið út á Álftanes. Guðjón Erlendsson, arkitekt í Lundúnum, hefur gert skemmtilegar útlitsteikningar af brúnni sem hann leyfði okkur góðfúslega að nota í heimildarmyndinni, en annars er Skerjabrautin að langmestu leyti á uppfyllingum.
Ekki eins dýr og margt annað
En yrði þetta ekki óheyrilega dýr framkvæmd. „Nei, aldeilis ekki. Við höfum ráðist í mörg mun stærri umferðarmannvirki hér á landi. Brúin yfir Gilsfjörð er til dæmis næstum tvöfalt lengri en Skerjabrautin. Ég hef ekki lagst í kostnaðargreiningu, en benda má á að þær lausnir sem ræddar hafa verið í samgöngumálum Reykjavíkur eru allar óheyrilega dýrar. Nú er rætt um lesta- eða hraðvagnakerfi í borginni fyrir á annað hundrað milljarða króna og Sundabraut fyrir 50 til 60 milljarða. Við erum alla vega að tala um miklu lægri tölur. Þessi framkvæmd er líka þess eðlis að hún myndi henta vel sem einkaframkvæmd og gæti ef til vill verið álitlegur fjárfestingakostur fyrir lífeyrissjóði.“
Umferðin út fyrir byggð
En hver yrði ávinningurinn af þessari framkvæmd?
„Með vegtengingu yfir Skerjafjörð væri stór hluti umferðar tekin út fyrir byggð, en mikil mengun og ónæði hlýst af umferðarþunga í Hlíðunum. Garðbæingar og Hafnfirðingar yrðu mun skemur á leiðinni til Reykjavíkur, en brautin lendir í næsta nágrenni við stærstu vinnustaði landsins, Háskólana tvo, Landspítalann, stjórnsýsluna, flugvöllinn, auk margs konar verslunar og þjónustu. Þar með mætti styrkja þá miklu fjárfestingu sem liggur í mannvirkjum á miðsvæðis í borginni og hamla gegn þeirri þróun að þjónusta dreifist sífellt meira um höfuðborgarsvæðið, með þeim afleiðingum að reisa þarf sífellt ný umferðarmannvirki, vegalengdir lengjast, þar með mengun og rekstur almenningssamgangna verður ómögulegur.
Vesturbæingar og Seltirningar yrðu líka sneggri suður í Leifsstöð og fyrir íbúa hér í Vesturbænum er þetta mikið öryggisatriði, enda þekkja allir teppurnar sem myndast á Miklubraut og Hringbraut á hverjum degi.“
Of mikið skuggavarp
Þú hefur líka fjallað töluvert um skipulagsmál í miðbænum.
„Miðbærinn hefur tekið stakkaskiptum á síðustu misserum og mér finnst flest hafa tekist vel á því svæði hvað nýbyggingar snertir. Ég gæti nefnt svokallaðan Hljómalindarreit við Laugaveg sem dæmi. Annað hefur mislukkast, eins og Lindargatan sem er orðin ansi grá og drungaleg. Sólin er það lágt á lofti lungann úr árinu að við þurfum að gæta þess að ekki myndist of mikið skuggavarp. Þá skiptir máli að nýbyggingar falli að umhverfinu. Ég á ekki við að húsin séu reist í 19. aldar stíl heldur að þau séu í sama mælikvarða og byggðin sem fyrir er. Til dæmis þá mega forhliðar húsa ekki vera of breiðar. Ég get nefnt Laugaveg 66 og 77 sem dæmi um hús sem stinga í stúf við götumyndina að þessu leyti. Þarna hefði þurft að brjóta framhliðarnar upp.“
Út fyrir hafnarmynnið
En nú er miðbærinn langt frá því að vera miðsvæðis lengur.
„Það er rétt. Gamli bærinn er mjög vestarlega á nesinu og til þess að styrkja hann í sessi þurfum við að bæta tengingar inn á svæðið og efla það sem miðpunkt verslunar og þjónustu. Ég nefndi Skerjafjarðarbrúna hér að framan. Með því að ráðast í þá framkvæmd frekar en til dæmis Sundabraut þá værum við að styrkja byggðina vestar í bænum í stað þess að stuðla að því að hún dreifðist enn frekar í austurátt og suður á bóginn. Hinn möguleikinn er að byggja „norðan við“ gamla bæinn, í Örfirisey og Engey. Langstærstur hluti Örfiriseyjar eru uppfyllingar og hana mætti stækka enn frekar, alla leið út í Akurey. Sæbrautin er líka öll á uppfyllingu frá Laugarnesi og vestur úr og gaman að virða þetta svæði fyrir sér á sjókorti enda miklar grynningar úti fyrir landi, rétt eins og á Skerjafirði.“
Vindubrú við Örfirisey
Menn hljóta þá eðlilega að spyrja sig um umferðarkerfið, hvað það þoli.
„Sæbrautin var mjög dýrt mannvirki á sínum tíma en er vannýtt. Hún gæti annað talsvert meiri umferð. En til að hægt verði að byggja upp íbúðahverfi í Örfirisey, en þá þarf tvennt að koma til. Annars vegar þarf að finna olíutönkunum nýjan stað og hins vegar útbúa nýja vegtengingu. Við gætum þá hugsað okkur að Sæbrautin héldi áfram út fyrir mynni gömlu hafnarinnar, þar sem reist yrði vindubrú.
Rétt er að líta á umferðina eins og aðrar veitur, hitaveitu, rafmagnsveitu eða vatnsveitu. Við myndum líklega ekki sætta okkur við það að rafmagnið slægi út tvisvar á dag í tvær klukkustundir í senn. Umferðartafir eru ekki náttúrulögmál heldur afleiðing rangra ákvarðana stjórnmálamanna. Umferðarkerfið er grunnur hvers skipulags en það er eins og það gleymist alltof oft með gríðarlegum skaða fyrir þjóðfélagið allt.“