Frístundakort minnst nýtt í Efra-Breiðholti

— rýmka þarf reglur og huga að fjölbreytni segja borgarfulltrúar — 

Fjölmenning einkennir Fellaskóla í Efra Breiðholti en þar eru töluð yfir 20 tungumál. Á myndinni eru Dagur B. Eggertsson borgarstjóri og Lilja Alfreðsdóttir menntamálaráðherra í heimsókn í Fellaskóla en Lilja gekk sjálf í skólann á bernskuárum sínum.

Börn í Fella- og Hólahverfi nota frístundakortið minnst í öllum hverfum Reykjavíkur. Í Fella- og Hólahverfi hafa um 69% drengja nýtt sér kortið og um 66% stúlkna. Svo virðist sem nýting kortsins sé minnst í þeim hverfum þar sem hlutfall fólks af erlendum uppruna er hæst. Orsakir þess eru ekki að öllu leyti ljósar. Ein af þeim getur verið að foreldrar af erlendum uppruna þekki ekki til stuðnings barna við félagsstarf, um tungumálaerfileika geti verið að ræða og einnig getur verið spurning um hvers konar félagsstarf fólk er vant og eftir hverju það getur vænst. Lögð er áhersla á að þjálfarar og leiðbeinendur í frístundastarfi fái fjölmenningarfræðslu til að geta tekið betur á móti börnum af erlendum uppruna.

Um er að ræða styrk frá Reykjavíkurborg að upphæð 50 þúsund krónur til barna og ungmenna á aldrinum frá sex til átján ára aldurs. Kortið má nota til þess að greiða fyrir þátttöku í íþróttum, listum og tómstundastarfi og markmiðið með því er að gera sem flestum kleyft að taka þátt í skipulögðu frístundastarfi en notkunin er bunið við námskeið sem standa yfir í að lágmarki 10 vikur. Kolbrún Baldursdóttir borgarfulltrúi og sálfræðingur hefur bent á að of stífar reglur gildi um notkun kortsins. Hún hefur bent á að frístunakortið sé einskorðað við einn notanda en sjálfsagt væri að systkini gætu notað sama kortið. Ekki sé heldur hægt að nýta það í starfi félagsmiðstöðvanna og ekki í niðurgreidd sumarnámskeið á vegum borgarinnar eða félaga. Hún segir að kortið eigi ekki einungið að ná yfir frístundir heldur allt sem kalli á hreyfingu og útiveru. Því þurfi að rýmka þessar reglur það mikið að það verði fullnýtt. Pavel Bartoszek borgarfulltrúi segir að skoða þurfi hvort framboð af félagsstarfi sé nógu fjölbreytt til þess að koma til móts við ólíkan menningarbakgrunn fólks. Ekki megi ganga út frá því sem vísu að til dæmis handbolti höfði til fólks af öllum þjóðernum.

You may also like...