Óðinstorg og nærliggjandi götur endurnýjaðar
Vinna er hafin við endurgerð Óðingtorgs, Óðinsgötu og Týsgötu. Framkvæmdir á Óðinstorgi felast í endurnýjun yfirborðs á torgsvæði og hluta götu. Komið verður fyrir setpöllum, stökum sætum, leikhólum, pollum og hjólagrindum. Framkvæmdir í Týsgötu fela í sér endurnýjun yfirborðs götu og göngusvæða auk gróðursetningar. Verkið er samstarfsverkefni með Veitum ohf. sem endurnýja fráveitulagnir, hitaveitu, kalt vatn og raflagnir. Til viðbótar framangreindum torgum hefur einnig verið unnið að lagfæringum og endurbótum á Káratorgi norðan Kárastígs.
Fyrir fjórum árum var efnt til hönnunarsamkeppni um endurgerð Óðinstorgsins þótt framkvæmdir hafi ekki orðið fyrr en nú. Helsta viðfangsefni hennar fyrir Óðinstorg var að stuðla að breyttri notkun á torginu frá því sem nú er, en svæðið er að mestu lagt undir bílastæði. Einnig að horfa á lausnir fyrir Óðinsgötu og Týsgötu sem tengir torgið við Skólavörðustíg á sem bestan hátt. Í innsendum tillögum mátti samkvæmt skilmálum keppninnar horfa fram hjá ákvæðum gildandi deiliskipulags hvað varðar torg og göturými. Höfundar vinningstillögu um endurgerð Óðinstorgs eru Anna María Bogadóttir, Einar Hlér Einarsson, Hrólfur Karl Cela og Sigríður Sigþórsdóttir, arkitektar hjá Basalt arkitektum. Í samstarfi við þau voru Auður Sveinsdóttir, landslagsarkitekt, Edda Ívarsdóttir, borgarhönnuður og Dario Gustavo Nunes Salazar, lýsingarhönnuður hjá Verkís.
Óðinstorg lifandi og í stöðugum vexti
Í greinargerð með vinningstillögunni segir meðal annara að stöðug umbreyting sé hluti af grunneðli sérhvers borgarrýmis. Óðinstorg, sem er í senn sögulegt og lifandi, er þar engin undantekning. Í byrjun 20. aldar í miklum vaxtarkipp Þingholtanna var staðsetning og nafn Óðinsgötu og Óðinstorgs ákveðið og landspilda keypt undir torgið. Á fyrstu áratugum 20. aldar risu húsin sem nú standa Óðinsgötumegin við torgið, sem mynda sterka og mikilvæga heild. Eftir því sem áratugirnir liðu risu fleiri hús við torgið austan og norðan megin auk þess sem ýmiss konar viðbyggingar bættust við húsin sem þegar voru risin.