Við erum hreinræktuð ÍR fjölskylda

— viðtal við Sigurkarl Jóhannesson körfuboltamann úr ÍR —

Sigurkarl ásamt foreldrum sínum á útskriftardegi úr FB.

Ég er Breiðhyltingur í húð og hár. Ég er næstelstur af fjórum systkinum. Börnum Jóhannesar K. Sveinssonar lögmanns og Kristjönu Þórdísar Jónsdóttur þýskukennara. Við bjuggum fyrst í Bökkunum en fluttum í Jóruselið þegar ég var smákrakki og hef verið þar síðan,” segir Sigurkarl Jóhannesson körfuboltamaður úr ÍR.” Þeir bræður Sigurkarl og Hafliði hafa báðir gert það gott í körfunni. Þeir eiga ekki langt að sækja áhugann því faðir þeirra stundaði körfubolta á yngri árum. “Þetta hefur farið svona í karllegginn því systur okkar hafa ekki lagt þetta fyrir sig. Sigurkarl stundar nú nám í hagfræði eftir að hafa farið hina hefðbundnu skólaleið í Breiðholtinu. Frá leikskóla í Seljhverfi í gegnum Seljaskóla og síðan FB þar sem hann stundaði nám á félagsfræðibraut.

“Segja má að ég hafi fyrst farið út fyrir Breiðholtið þegar ég hóf háskólanám. Allt sem til þurfti var að hafa Þar. Skólarnir og síðan íþróttirnar. Ég hef alltaf verið í ÍR enda fjölskyldan tengd félaginu. Ég er að hluta til alinn upp í Íþróttahúsi Seljaskóla því ÍR er með aðstöðu þar og stutt var að fara eftir skólann yfir í íþróttahúsið. Mér leið ákaflega vel hvort sem var heima í hverfinu eða í skólanum og íþróttahúsinu. Við þurftum ekki að fara neitt annað. Þetta var hálfgerð miðbæjarstemning fyrir okkur krakkana.” Sigurkarl segir líka verið stutt að fara út fyrir byggðina – út í náttúruna. “Móinn var á rétt hjá og þangað fóru krakkarnir mikið. Þetta var róleg byggð. Ef til vill vantaði meiri þjónustu fyrir hverfið en við krakkarnir fundum ekki mikið fyrir því. Við búum beint á móti Ólafi Dýrmundssyni ráðunaut en hann hefur verið með sauðkindur í garðinum hjá sér frá því ég man eftir mér og er með þær enn. Maður skrapp stundum yfir götuna og kíkti á kindurnar. Fékk svona smá sveitatilfinningu að nálægðinni við þessa ferfættu íbúa.”

Byrjaði í íþróttum sex ára

Sigurkarl var ekki hár í loftinu þegar hann hóf að stunda íþróttir enda honum í blóð bornar. “Ég var sex til sjö ara þegar ég byrjaði að æfa körfubolta og var líka í fótbolta fyrstu árin. Ég hætti þó í fótboltanum um 12 ára aldurinn og snéri mér eingöngu að körfunni. Síðar eða fyrir um tveimur árum fór ég að æfa ólympískar lyftingar sem ég stunda og eru í uppáhaldi hjá mér í dag.” Sigurkarl segir þær vera íþrótt fyrir alla og á öllum aldri. Dæmi séu um eldri menn hafi stundað þær og stundi. “Það er aldrei að vita hvort á eftir að fréttast af mér af þeim vettvangi.”

Hreinræktuð ÍR fjölskylda

Sigurkarl segir fjölskyldu sína vera hreinræktaða ÍR fjölskyldu. “Við erum það þótt við höfum ekki öll verið í körfunni. Við bræðurnir fórum í fótspor föður okkar en systurnar hafa ekki lagt boltann fyrir sig. Þetta virðist liggja í karlleggnum í ættinni. Við lifðum fyrir þetta. Eyddum nánast deginum eftir skóla í íþrótta-húsinu. Faðir okkar hefur verið mikill ÍR-ingur einkum síðustu árin og við tökum öll þátt í þessu. Ég myndi segja að ÍR hafi ekki aðeins byggt upp öflugt íþróttalíf heldur einnig fjölskyldur sem hafa sameinast um að starfa fyrir eða styðja við félagið með einhverju móti.”

Hagfræðiáhuginn kom í námspásu

Sigurkarl segir skólalífið hafa verið gott í Breiðholtinu. “Ég var í Seljaskóla og átti síðan þrjú og hálft mjög góð ár í FB. Ég var á félagsfræðibraut og tók stúdentsprófið fyrir jólin 2017. Ég tók ekki mikinn þátt í félagslífinu innan skólans sem kom eingöngu til af því að ég hafði ekki tíma fyrir íþróttunum. Félagslífið var alltaf í ÍR.” Sigurkarl stundar nú nám í hagfræði. Var það alltaf ætlunin hjá honum. “Nei – alls ekki. Ég hafði ekki hugsað mikið um hvað ég tæki mér fyrir hendur að stúdentsprófinu loknu. Ég fór fyrst að íhuga það fyrri hluta árs 2018 þegar ég var í pásu frá námi hvert ég myndi stefna um haustið. Þá kom áhuginn eiginlega til mín og ég fann fljótt eftir að ég hóf hagfræðinámið árið að það átti ágætlega við mig. Ég hef alltaf haft áhuga á stærðfræði og þetta byggist umtalsvert á henni alla vega til að byrja með. Ég var líka svo heppinn að fá vinnu í sumar hjá Íslenskum fjárfestum. Þar get ég strax farið að láta reyna á það sem ég hef lært. Mér finnst ég læra meira af að vinna við þetta en í skólanum. Ef til vill stafar það af tilfinningunni fyrir því að vera fast við raunveruleg verkefni. Ég er þó ekki búinn að ákveða hvaða grein ég kem til með að stefna í hagfræðinni. Til þess er ég kominn of skammt á veg. En það hjálpar mér örugglega að finna mér leið með því að vinna við fræðin með náminu.”

Finn meira fyrir vegalengdinni nú en áður

Sigurkarl býr enn í foreldrahúsum í Jóruselinu. Finnst honum í dag hann vera langt í burtu í efri byggðunum. “Sem strák fannst mér enginn þörf á að leita neitt úr fyrir Breiðholtið. Ég fann aldrei sjálfur fyrir vegalengdum. Ég bjó líka í Bandaríkjunum í hálft ár og þar setur fólk ekkert fyrir sig að þurfa um lengri veg til skóla og vinnu. Ég get þó ekki neitað því að mér finnst svolítið langt vestur í Háskóla eða í vinnuna hjá Íslenskum fjárfestum þar sem ég starfa með náminu. Ég pældi aldrei í þessu þegar ég var yngri en finn fyrir þessu nú. Við erum svo heppin systkinin – ég og systir mín að geta orðið samferða niður í bæ á morgnana og notum því oftast bara einn bíl,” segir Sigurkarl Jóhannesson.

You may also like...