Gamli Vesturbærinn er draumastaður

— segir Viktoría Hermannsdóttir blaða- og dagskrárgerðarkona —

Viktoría heima í eldhúsinu á Hringbraut með Hólmfríði Rósu dóttur sína sem er fimm mánaða.

Hringbrautin hefur verið til umræðu í Vesturbænum og víðar. Hringbrautin er þjóðvegur í þéttbýli og því á forsjá Vegagerðarinnar. Hringbrautin er þung umferðaræð sem liggur í gegnum Vesturbæinn miðjan. Auk þess að flytja umferð til og frá Vesturbænum er hún nær eina tenging Seltjarnarnesbæjar, sveitarfélags vestan Reykjavíkur sem telur hálft fimmta þúsund íbúa til annarra byggða. Ökuhraði á Hringbrautinni var til skamms tíma 60 kílómetrar og klukkustund en var lækkaður fyrr á þessu ári í kjölfar þess að ekið var á börn á gatnamótum. Viktoría Hermannsdóttir blaða- og dagskrárgerðarkona hefur búið við Hringbrautina ásamt manni sínum Sólmundi Hólm og börnum um tveggja ára skeið. Hún er ekki Vesturbæingur, er uppalin í Breiðholti og hefur einnig búið í Miðborginni og Hlíðunum. Viktoría spjallar við Vesturbæjarblaðið að þessu sinni og talið berst fyrst að einu af áhugamálum hennar sem snerta marga aðra Vesturbæinga. Götuna sem hún býr við. Hringbrautina en þau búa í einu af parhúsunum sem lengi hafa verið  kölluð Samvinnuhúsin sem voru byggð af byggingafélagi Samvinnumanna á fjórða áratug síðustu aldar.  

„Við fluttum hingað í maí 2017, það var eiginlega tilviljun að við fundum þetta hús. Tengdaforeldrar vinkonu minnar bjuggu hérna og við sáum að það var komið á sölu. Við vorum frekar nýbyrjuð saman og ætluðum kannski ekkert að fara kaupa okkur hús strax. En svo komum við hingað að skoða og það var ekki aftur snúið, okkur fannst svo góður andi hérna inni. Við fundum strax að hér vildum við vera og höfum við ekki séð eftir því. Þetta er yndislegt hús sem við erum búin að vera gera upp í rólegheitum enda var hér margt komið til ára sinna,“ segir Viktoría en nú er verið að skipta um glugga í húsinu og klæða það að utan. „Við erum sex í fjölskyldu og því kannski ekki hlaupið að því að finna hús sem rúmar alla hér í Vesturbænum. Við eigum bæði börn úr fyrri samböndum og hinir foreldrarnir búa líka í Vesturbænum þannig þetta hentar allt mjög vel og auðvelt fyrir þau að fara á milli.“ 

Draumastaður í mínum huga

„Þetta er algjör draumastaður í mínum huga og mikil forréttindi felast í að búa hér. Flest er í göngufæri. Maður getur nánast lagt bílnum. Svo er bara svo gaman að ganga hér um. Gamli vesturbærinn er svo fallegur, húsin eru falleg og mikil saga alls staðar. Þó ég sé alin upp í Breiðholti og aldrei haft nein tengsl við Vesturbæinn þá finnst mér ég einhvern veginn vera komin heim núna,“ segir hún. 

„Það er mikil og góð orka í gamla Vesturbænum. Hér er sagan allt í kringum okkur. Við Sóli göngum mikið um bæinn og höfum áhuga á gömlum húsum. Hér er maður alltaf að uppgötva ný hús í götum sem maður hefur oft gengið áður. Það er svo merkilegt, í hverjum göngutúr sé ég eitthvað nýtt,“ segir hún og kann vel við stemninguna í hverfinu.  

Ákveðinn þorpsbragur

„Það er svona ákveðinn þorpsbragur hérna. Maður er alltaf að hitta eitthvað fólk sem maður þekkir og fólk stoppar og spjallar saman. Það var svolítið krúttlegt þegar við fórum í fyrsta göngutúrinn með litlu stelpuna okkar þá var fólk að koma út í glugga og kalla til okkar og óska okkur til hamingju. Það er skemmtileg stemning hérna,“ segir Viktoría og talið berst að Hringbrautinni. Umferðargötunni sem skiptir Vesturbænum. Viktoría segir umferð allt of hraða við Hringbrautina. 

Þessi mynd er tekin á horninu á Bræðraborgarstíg og Hringbraut skammt frá húsi Viktoríu og Sólmundar. 30 kílómetra hámarkshraði er á Bræðraborgarstíg en 40 á Hringbraut eftir hann var lækkaður. Hraðakstur er þó enn stundaður og á meðan myndatökumaður stóð á eyjunni á Hringbraut þutu bílar framhjá á mikilli ferð.

Hraðamyndavélar við hver ljós

„Þetta er íbúðahverfi og það hefur sýnt sig hversu hættulegt það er að bílar keyri svo hratt eftir götunni. Ég gerði mér auðvitað alltaf grein fyrir því að ég væri að flytja við umferðargötu en ég áttaði mig ekki á því hvað margir ökumenn keyra ógætilega eftir Hringbrautinni. Það er skóli við götuna og maður er alltaf hræddur um börnin sín við götuna. Ekki af því að þau kunni ekki að umgangast hana heldur vegna þess að hér gerist það ítrekað að bílstjórar keyri of hratt og fari yfir á rauðu ljósi. Gatan er hamlandi fyrir börn og sýnir sig í því að börn sem búa norðan megin við Hringbraut sækja minna til dæmis í frístundastarf sem er allt sunnan við Hringbraut. Þetta er gömul saga og ný en það er löngu kominn tími til að fá einhverjar almennilegar lausnir hérna. Á íbúafundi sem haldinn var hér í vetur kom fram að verið væri að vinna í lausnum en þar kom skýrt fram að íbúar eru orðnir langþreyttir á þessu ástandi og við viljum lausnir strax. Umferðarhraðinn var lækkaður niður í 40 en það er ekki nóg, það er enn keyrt allt of hratt hérna og að mínu mati væri best að hafa hraðamyndavélar á hverju ljósi þangað til unnið er að alvöru lausnum. Það væri fljótt að borga sig upp með sektunum frá þeim sem keyra of hratt og langtíma áhrifin væru vonandi þau að umferðarmenning hér á Hringbrautinni myndi batna.”

Úr Breiðholti í Miðborg í Hlíðar og Vesturbæ

Næst berst talið að upprunanum. „Ég er ættuð héðan og þaðan. Við Sólmundur erum bæði ættuð að hluta úr Ölfusinu en ég er alin upp í Seljahverfinu í Breiðholti og bjó þar þangað til ég fór að heiman þegar ég var svona sautján ára en flutti svo aftur heim til mömmu og pabba í smá tíma. Þótt ég hafi yfirgefið Breiðholtið þá á það alltaf ákveðinn stað í hjarta mínu. Maður tengist æskustöðvunum með ýmsu móti. Seljahverfið er yndislegt hverfi og það var gott að alast þar upp. Mér finnst samt vanta meiri þjónustu í hverfið í dag. Það væri gaman ef það væri kaffihús og bakarí inn í hverfinu. Einhverjir staðir þar sem fólk getur komið til að hitta aðra og spjalla saman. En eftir því sem ég best veit er þetta aðeins að glæðast og stefnir til betri vegar. Ég bjó síðan um tíma í 101-um og síðan í Hlíðunum áður en ég flutti hingað í vesturbæinn.

Er alltaf að fá hugmyndir 

Viktoría á að baki fjölbreyttan feril í fjölmiðlum. Undanfarin ár hefur hún starfað á RÚV við dagskrárgerð í útvarpi og sjónvarpi en núna er hún í fæðingarorlofi en hún eignaðist dótturina Hólmfríði Rósu, í enda mars. „Ég er í orlofi núna en býst við að fara aftur í dagskrárgerð að því loknu. Ég vinn mikið og er alltaf að fá einhverjar hugmyndir. Það er áskorun hjá mér að reyna vera róleg í orlofinu. Þegar maður er í fjölmiðlabransanum held ég að þetta verði ákveðinn lífsstíll. Maður er alltaf með hugann við einhver verkefni. Ég byrjaði í þessu þegar ég gekk með eldri stelpuna mína. Þá fór ég að vinna hjá DV. Ég var þar í nokkur ár en fór svo yfir til Fréttablaðsins og ritstýrði meðal annars helgarblaðinu þar. Ég var líka aðeins á hjá Stöð 2 sem þá var í eigu 365 eins og Fréttablaðið en starfa núna hjá RÚV. Ég byrjaði á fréttastofunni en fór svo yfir í dagskrárgerð bæði í útvarpi og sjónvarpi. Það hentar mér betur. Ég hef mikinn áhuga á fólki en minna á einhverju þrasi. Mér finnst áhugaverðara að segja sögur. Ég er alltaf að hitta fólk sem hefur áhugaverðar sögur að segja og ég þefa þær líka uppi. Sögurnar eru allt í kringum okkur og það er gaman að gera þeim skil.” 

Vesturbærinn fullur af efnisuppsprettum 

“Ég býst við að halda áfram í þessu þegar litla stækkar aðeins. Í haust er að koma sjónvarpsþáttaröð sem heitir Fyrir alla muni sem ég gerði með Sigurði Helga Pálmasyni á síðastliðnu sumri. Siggi er vel að sér í safnaraheiminum sem er stórmerkilegur heimur og hefur í gegnum tíðina komist í kynni við marga safnara. Í þessu brasi sínu í gegnum tíðina hefur hann rekist á marga muni sem sagðir eru tengjast sögufrægum persónum eða atburðum í Íslandssögunni. Í þáttaröðinni skoðum við nokkra af þessum hlutum segjum söguna bak við það sem þeir eru sagðir tengjast og reynum að komast til botns í því hvort það sé rétt. Það var mjög skemmtilegt að vinna þessa þáttaröð og vonandi líkar fólki hún,“ segir Viktoría en á síðasta ári voru sýndir þættirnir Sítengd sem hún og Ragnhildur Steinunn Jónsdóttir gerðu og fjölluðu um samfélagsmiðla. Hún hefur líka verið með vikulega þætti á Rás 1 sem heita Málið er og gert útvarpsþáttaraðirnar Kverkatak ásamt Þórhildi Ólafsdóttir og Ástandsbörn. „Svo gerði ég útvarpsþátt sem heitir Á ég bróður á Íslandi sem fjallar um leit bandarísks manns að hálfbróður sínum á Íslandi. Faðir hans sagði honum frá því á dánarbeðinum að hann hefði eignast son á hér á landi þegar hann sinnti hér herskyldu í seinni heimsstyrjöldinni. Við fundum íslenska bróðurinn og þátturinn vakti mikla athygli enda saga bróðurins mjög óvenjuleg að mörgu leyti. Móðir hans var 47 ára þegar hún átti þetta barn með ungum bandarískum hermanni og hann vissi aldrei hver faðir sinn var. Nú er ég að vinna að heimildarmynd um þessa sögu. Sagan á sér meðal annars stað hér í Vesturbænum eins og svo margar sögur. Ég er sko ekki hætt að grafa eftir sögum og Vesturbærinn er fullur af efnisuppsprettum.”

You may also like...