Ég hef átt gott líf
Flestir Seltirningar kannast við Sæma Rokk. Hann starfaði sem lögreglumaður á Nesinu um þriggja áratuga skeið við vinsældir bæjarbúa. Þótt Sæmi gengi vaktir á Seltjarnarnesi þar af sem lögreglufulltrúi síðasta áratuginn hefur hann komið víðar við á lífsleiðinni og sinnt fjölmörgum öðrum störfum. Sæmi er lærður húsasmíðameistari og starfaði við byggingar framan af og einnig nokkuð með fram lögreglustörfum. Hann gat sér einnig snemma orð sem listamaður – einkum á sviði danslistarinnar. Síðari árin hefur hann búið að hluta á Spáni ásamt Ásgerði Ásgeirsdóttur eiginkonu sinni og þar vaknaði gamli byggingameistarinn í honum að nýju. Sæmi fékk fyrir skemmstu nafni sínu breytt í Sæmi og fékk Rokk samþykkt sem millinafn. Hann kveðst snemma hafa orðið þekktur undir því nafni og margir aldrei hugsað til síns fyrra nafns. “Ég sótti um að fá nafni mínu breytt og þegar ég sótti um að fá Rokk sem millinafn gekk breytingin í geng. Ég er mjög ánægður með það.” Nesfréttir tylltu sér niður með Sæma á dögunum þótt vitað væri að litríkri ævi hans yrði ekki gerð skil í stuttu viðtali.
“Ég hef átt gott líf,” segir Sæmi þegar við höfðum sest niður með kaffimál í Bókasafninu á Eiðstorginu. Steinsnar frá þeim stað sem Sæmi starfaði í þrjá áratugi á lögreglustöðinni á Seltjarnarnesi sem var í Mýrahúsaskóla en síðar við Eiðistorgið. “Ég var áratug í lögreglunni í Reykjavík og síðan í 30 ár á Nesinu. Hætti ekki þar fyrr en ég varð sjötugur. Við vorum oftast tveir og skiptust á vöktum.” Þegar Sæmi er inntur eftir hvernig hafi verið að hætta fyrir jafn starfsaman mann verður hann fljótur til svars. “Ég var fljótur að finna mér eitt og annað að gera. Ég hafði alltaf unnið að fleiri viðfangsefnum með lögreglustarfinu. Ég er lærður húsasmiður og byggingameistari og fékkst alltaf eitthvað við störf tengdum byggingum. Ég var meistari við margar byggingar á höfuðborgarsvæðinu. Þótt ég stæði ekki alltaf sjálfur með hamarinn í hendinni þá fylgdu því ýmsir snúningar. Meistarinn var sá sem bar ábyrgð á verkinu og varð því að fylgjast vel með og gæta þess að rétt væri að öllu staðið. Ég tók að mér að vera byggingameistari fyrir félaga mína í lögreglunni og ég var meistari fyrir Árna Johnsen þegar hann var að byggja í Efra Breiðholtinu svo dæmi séu tekin.”
Sæmi starfaði um tíma við Búrfellsvirkjun. Segir það hafa komið meðal annars til af því að hann hafi lært ensku. “Ég vann fyrstu þrjú árin í náminu við smíðar á Keflavíkurflugvelli en síðasta árið í bænum. Erlendir menn voru að störfum við Búrfell og það hefur eflaust mælt með mér að geta talað við þá. En svo var mér boðið að vera meistari við byggingu Kópavogsbrúnna – þeirra sem liggja yfir gjána í gegnum Kópavogshálsinn og Reykjanesbrautin fer eftir. Kópavogsbær byggði brýrnar og ég sá um þá framkvæmd sem byggingameistari.“
Hálfur bjór vegna misskilnings
En af hverju fór Sæmi í lögregluna. Hann segir þegar brúarsmíðinni í Kópavogi lauk hafi hann verið búinn að segja starfi sínu hjá Landsvirkjun lausu og hafi þurft að huga að fá sér eitthvað að gera. “Mér hafði verið lofað að starfa sem byggingameistari við byggingu tveggja átta hæða blokka við Engjahjalla í Kópavogi en byggingu þeirra var frestað um eitt ár. Það var of langt fyrir mig að hafa ekkert að gera í svo langan tíma. Þá var auglýst eftir mönnum í lögregluna og ég var einn af 113 sem sótum um og átta voru teknir inn. Ég hafði þó ekki hugsað um að gerast lögreglumaður en alltaf borið virðingu fyrir lögreglunni og störfum hennar. Ég vildi þó fremur fara í lögregluna en þurfa að flýja land í atvinnuleit og ég fékk góð meðmæli bæði fyrir prúðmennsku og annað. Ég hef heldur aldrei drukkið áfengi. Eini bjórinn eða öllu heldur hálfi bjórinn sem ég hef drukkið fór ofan í mig þegar ég var að nálgast sjötugt. Það varð vegna misskilnings. Þetta var í Kaupmannahöfn. Ég ætlaði að kaupa áfengislausan bjór eða pilsner en var misskilinn og fékk drykk með prósentum. Danir eru ekki vanir að fólk drekki bjór án áfengis. Ég lét mig hafa þetta. Áhrifin urðu engin og ég hef ekki áformað að endurtaka þessa drykkju.”
Þar fór jólasteikin
Sæmi varð fljótt þekktur fyrir störf sín í lögreglunni. Einkum vegna glaðværðar, ljúfmennsku og lagni að fást við fólk sem átti í einhverjum erfiðleikum eða útistöðum. “Ég vissi ekki alveg hvernig lögreglustarfið myndi eiga við mig þegar ég byrjaði. En það átti betur við en ég hafði gert ráð fyrir. Þarna var maður oft að vinna í návígi við fólk í ýmsu ástandi og miklu gat skipt hvernig tekið var á málum. Stundum lenti ég í því að fást við heimilisofbeldi. Ég man eftir einu dæmi á Seltjarnarnesi þar sem húsbóndinn gat verið erfiður þegar hann smakkaði áfengi. Ég var eitt sinn kallaður að heimili þeirra hjóna þar sem eitthvað hafði skorist í odda með þeim. Líklega vegna drykkju hans og afleiðingum hennar. Ég fann fljótt að innst inni þótti hjónunum vænt hvoru um annað en höfðu ekki náð að leysa úr vanda sínum. Ég ræddi við þau og ég man að ég skammaði bóndann og sagði honum að hann yrði að taka á sínum málum. Ég hvarf síðan á braut en um jólin eftir fékk ég send blóm frá þessum hjónum með þeim orðum að ég hefði bjargað hjónabandi þeirra. Það er alltaf gaman ef maður getur látið gott af sér leiða. Ég var heldur aldrei sektarglaður og gætti þess jafnan að gera ekkert sem komið gæti óorði á lögregluna. Ýmsir kollegar mínir gátu verið fljótir að taka sektarblokkina upp en mér fannst meiru skipta að fá fólk til þess að láta af vafasamri hegðum eða því sem ekki samrýmdist lögum. Þegar ég var á Miðbæjarstöðinni í Reykjavík þá fannst mér stundum eins og félagar mínir væru í keppni um hver gæti sektað mest. Ég vildi ekki ganga of langt í að sekta fólk. Stundum var hægt að koma skilaboðum fram með öðrum hætti. Ég minnist þess að einhverju sinni þegar ég var á eftirlitsferð kom ég auga á ökutæki þar sem mér fannst að aksturslagið mætti vera betra. Ég ákvað að stöðva bílinn og ræða við ökumanninn. Þetta reyndist vera eldri maður. Hann var á leið í jarðarför vinar síns en eiginkonan var veik heima og gat ekki farið með honum. Hann baðst afsökunar ef hann hafi farið ógætilega eða valdið hættu. Ég minntist á að þetta gæti leitt til sektar en þá vöknaði honum um augum og sagði “þar fór jólasteikin”. Ég skynjaði að þetta fólk hafði lítið á milli handa og sagði við hann að þetta leystum við bara með föðurlegri áminningu. Við skildum sáttir og ég vona að gömlu hjónin hafi borðað jólasteikina sína með bestu lyst.”
Margir söknuðu lögreglustöðvarinnar
Samskipti Sæma við ungu kynslóðina á Seltjarnarnesi vöktu oft athygli. Hann hafði lag á að ná til kakkanna. “Þegar ég var á Nesinu var ég oft að skutla krökkum heim um leið og maður var að rúlla um bæinn. Einkum á kvöldin. Stundum gaf ég þeim föðurlegar ábendingar og yfirlestur ef mér þótti ástæða til. Ég man varla til þess að því væri illa tekið. Foreldrar voru líka stundum að hringja í mig og láta í ljós ánægju með hvernig ég nálgaðist ungmennin og Sigurgeir Sigurðsson sem var bæjarstjóri á Nesinu um hálfan mannsaldur bauð mér eitt sin í kaffi og ræddi meðal annars um hversu þolinmóður ég væri við unglingana.” Sæmi segir að margir hafi saknað þess þegar lögreglustöðin á Seltjarnarnesi var lög niður í tengslum við að lögregluumdæmi voru sameinuð. “Þetta var hluti af stærri breytingu en margir höfðu efasemdir um hana.”
Kraftaverk eftir slys
Sæmi segir að fá alvarleg atvik hafi komið komið á sitt borð þá áratugi sem hann sinnti löggæslu á Seltjarnarnesi. Ég man að ég átti stundum í nokkru stríði við stráka sem söfnuðust saman við Nesval. Þeir voru í stríðnisstuði og áttu stundum til að hnupla vörum úr búðinni. Þeir gátu verið með allskyns brellur sem ekki voru litnar hýru auga. Ég bendi verslunareigendum á að reyna heldur að gera strákana að vinum sinum en að vera í stöðugi stríði við þá. Það espaði þá bara enn frekar upp. Ég slasaðist þó eitt sinn þegar ég var að elta strák sem hafði verið að stela úr búðinni. Ég rann undir hann á hlaupunum. Hann varð að styðja mig inn sjálfur búðarþjófurinn og ég varð að fara upp á Slysó og láta líta á mig. En þetta var ekki það eina sem kom fyrir mig. Ég slasaðist eitt sinn alvarlega í störfum mínum á Seltjarnarnesi. Ég var þó ekki í átökum við búðarþjófa eða aðra lögbrjóta heldur einfaldlega mikið rok sem reið yfir í febrúar 1982. Það var hringt í mig af Selbrautinni þar sem þakplata sem fokið hafði af húsi hafði bortið nokkra glugga. Ég fór á staðinn. Þurfti þó ekki að fara upp á þak því platan hafði skorðast við stein. Þetta var stór krossviðarplata – líklega 2,40 x 1,22 og hálftomma að þykkt. Ég var að fást við plötuna og reyna að skorða hana þegar sterk vindhviða koma og reif hana af stað. Ég stökk á plötuna og ætlaði að reyna að stöðva að hún fyki af stað á ný en við það tókst ég á loft með henni og fauk allt að 12 til 14 m hæð yfir jörð. Ég sá vel ofan á þökin á húsunum meðan ég var á lofti. En þessi flugferð endaði illa. Ég fell 12 metra niður í frjálsu falli. Ég slasaðist illa. Það skemmdust þrír þófar í bakinu og í fyrstu var vafi um hvort ég myndi geta gengið að nýju. Rögnvaldur Þorleifsson sá ágæti læknir tók á móti mér þegar ég kom á Slysó eftir fallið og síðar gerði síðan aðgerð á bakinu á mér sem heppnaðist svo vel að ég tel að um kraftaverk hafi verið að ræða.”
Of villtur fyrir ballet
Sæmi kom víðar við á lífsleiðinni. Um tíma rak hann nuddstofu á Hótel Loftleiðum og nuddað þá meðal annars íþróttamenn. “Ég var með stofuna í sjö ár og það komu margir til mín. Ætli sá þekktast hafi ekki verið breski knattspyrnumaðurinn George Best.” Sæmi var þó öllu þekktari fyrir annað en nuddið. Hann var þekktur dansari um áratuga skeið. Kom víða fram og sýndi dansatriði við hin ýmsu tækifæri. En hvað varð til þess að hann fór að dansa og gerði dansíþróttina að aukastarfi. “Það má rekja til þess að ég sótti fimleikatíma í Íþróttahúsi Jóns Þorsteinssonar. Þetta var rétt hjá Þjóðleikhúsinu og ég var stundum að fara þangað yfir. Þar kynntist ég Helga Tómassyni dansara og ballettmeistara. Við erum á líkum aldri og vorum þarna þegar við vorum unglingar. Ég hafði alltaf haft gaman af dansi en fann þó fljótt að ballettinn átt ekki alveg við mig. Ég hef trúlega verið of villtur og ekki átt hægt með að lúta ströngum kröfum og reglum ballettsins. En ég hélt áfram að dansa þótt ég fyndi mér annan stíl. Ég var rokkmeistari Reykjavíkur og átti nokkra dansfélaga sem sýndu með mér á þeim tíma sem ég stundaði danssýningar. Sumir þeirra störfuðu lengi með mér. Jónína Karlsdóttir sem var þekkt undir nafninu Didda og Elínborg Snorradóttir eða Lóa störfuðu lengst með mér. Halldóra Filippusdóttir, kona Árna Johnsen var í þessu um tíma og fleiri hlupu í skörðin.”
Hélt mig alltaf innandyra “í þeim skilningi”
En var ekki erfitt fyrir glaðværan mann sem stundaði margskonar störf og þar á meðal að sýna dans að halda sig heima ef svo má komast að orði. “Nei – ég hét mig alltaf innandyra í þeim skilningi. Við hjónin kynntumst fyrst þegar konan var 16 ára og ég 21. Hún var of ung til að giftast en þegar hún var 17 ára fékk hún sérstakt leyfi því konur máttu giftast 18 ára og karlar 21 á þeim tíma. Við höfum átt gott hjónaband. Ég hef þekkt menn sem áttu sér ýmsar konur. Voru með hjákonur sem þeir fóru með í sumarbústaði eða á hótel utan borgarinnar. Flugmenn gátu verið nokkuð drjúgir í þessu og ýmsir fleiri.”
Fenginn til að passa Bobby Fischer
Sæmi kynntist Bobby Fischer betur en flestir ef nokkur Íslendingur. Hann var hreinlega fenginn til þess að passa hann meðan á skákeinvígi hans og Boris Spasski stóð sumarið 1972. Hvað koma til. “Ég var beðinn um þetta. Fischer var mjög sérstakur og gat verið uppátækjasamur. Menn vissu aldrei hvar menn höfðu hann. Forysta Skáksambandsins var á nálum um hvernig málin myndu þróast. Hvort hann stæði einn daginn upp og segðist hættur eða eitthvað óvænt myndi gerast. Ég fylgdi honum eftir dag og nótt þennan tíma og ég held að við höfum náð nokkuð vel saman. Alla vega tókst þetta og hann vann einvígið eins og marga rekur minni til. Saga hans er þekkt og hann kom aftur hingað til lands þegar fokið var í flest skjól fyrir honum og átti hér sína síðustu daga.”
Fékk ástúð á Spáni
Komum aðeins að Spáni af hverju valdir þú Spán til dvalar á síðara aldursskeiðinu ef svo má að orði komast. ”Ég var búinn að skemmta Íslendingum þar ytra í meira en 20 ár. Bæði á vegum Guðna í Sunnu og Ingólfs í Útsýn. Var að stundum með Hljómsveit Ingimars Eydal og Helenu sem kom út til þess að spila fyrir landann. Ég fékk smám saman ástúð á Spáni en var alltaf í svo mikilli vinnu að ég hafði engan tíma til að sinna þessu áhugamáli, Svo var það árið 1992 að ég fór út gagngert til þess að skoða húsnæði og festi þá kaup á 80 fermetra húsi með sundlaug. Þarna var upphafið og ég er nú búinn að eiga þetta hús í 27 ár. Fyrir 12 árum kom gamli byggingameistarinn upp í mér og ég réðst í að stækka húsið um 100 fermetra í 180 fermetra hús. Algengt er að hlaða hús og múra á Spáni en ég er sjálfur trésmiður þannig að ég fékk tilboð í bygginguna. Ég gerði þó margt sjálfur einkum við tréverkið. Mér finnst þetta orðin algjör höll alla vega miðað við það sem maður ólst upp við. Ég kann mjög vel við mig þar og börnin og barnabörnin njóta þess með mér.”