„Þess vegna er sendiherraverkefnið svo mikilvægt“
– segir Karim Askari einn sendiherra þjónustumiðstöðvar –
Sendiherraverkefnið er nýtt og spennandi verkefni á vegum Þjónustumiðstöðvar Breiðholts. Markmiðið með því er að skapa betra upplýsingaflæði milli fólks af hérlendum og erlendum uppruna og tryggja að þeir síðarnefndu fái tækifæri og vettvang til að koma skoðunum sínum og hugmyndum á framfæri. Blaðamaður Breiðholtsblaðsins hafði samband við einn nýju sendiherranna, Karim Askari, og bað hann um að segja okkur meira um verkefnið og svolítið um sjálfan sig í leiðinni.
Karim er fæddur og uppalinn í Mohammedia, hafnarborg á vesturströnd Marokkó. Þar stundaði hann nám í íslömskum fræðum en lagði síðar land undir fót og bjó á Ítalíu áður en hann flutti til Íslands árið 2005. Hann er sendiherra arabískumælandi fólks hérlendis, lærður í viðskipta- og markaðsfræði og talar arabísku, ensku, frönsku, ítölsku og loks talsverða íslensku. Ásamt því að sinna sendiherrastarfinu er Karim framkvæmdastjóri og einn af stofnendum samtakanna Stofnun múslima á Íslandi. Karim fór upphaflega til Ítalíu sem ferðamaður en réði sig svo þar sem þjón „Að hafa búið í öðru Evrópulandi hjálpaði mér mikil þegar ég flutti til Íslands og auðveldaði mér að aðlagast. Þegar ég fór til Íslands sem ferðamaður, varð ég ástfanginn af landinu og ákvað að búa mér líf hér. „Ég hef búið á Íslandi í sextán ár og í Breiðholti síðan árið 2011,“ upplýsir Karim.
„Draumurinn minn hefur alltaf verið að hjálpa öðrum“
Spurður út í áhuga sinn á að taka þátt í sendiherraverkefninu segir Karim: „Draumurinn minn hefur alltaf verið að hjálpa öðrum.“ Með því að taka þátt í þessu verkefni geti hann verið tengiliður fyrir fólk af erlendum uppruna sem er nýkomið til landsins, miðlað upplýsingum til þeirra og komið þeirra skoðunum og hugsunum á framfæri svo þau geti átt gott líf hér. Hlutverk hans sem sendiherra sé að byggja brú á milli þjónustumiðstöðvarinnar og fólks af erlendum uppruna í Breiðholti.
Blaðamaður spyr hvernig sé svo að vera orðinn sendiherra. „Það er frábært. Ég og hinir sendiherrarnir erum búnir að læra mjög mikið af hvor öðrum og enn meira um aðra menningarhópa,“ svarar Karim. Hann segir að það sem veki með honum mestan áhuga sé að byggja brýr, auðvelda nýjum íbúum lífið, deila með þeim af sinni reynslu og læra af þeirra reynslu. „Og miðla því sem við lærum,“ bætir hann við. „Við getum deilt því sem við höfum lært til stjórnvalda og gert lífið betra fyrir allt fólk í þessu fallega landi. Við viljum að Breiðholt verði gott líkan fyrir önnur hverfi og önnur sveitarfélög á Íslandi.“
Vanþekking leiðir til árekstra og brostinna vona
Aðspurður um hvaða árangur hann voni að verði af verkefninu svarar Karim að það sé að nýir íbúar muni ekki eiga við jafnmikla erfiðleika að etja. „Við þurfum að koma öllum mikilvægum upplýsingum til þeirra strax svo þeir lendi ekki í alls konar erfiðleikum sem hefði verið hægt að koma í veg fyrir. Ég vona að hægt sé að leysa málin og færa þeim allar upplýsingar sem þeir þurfa á að halda.“ Þess má geta að sendiherraverkefnið hefur það sem meginmarkmið, að efla aðgang erlendra íbúa að upplýsingum og þar með þjónustu og samfélagsþróun innan hverfisins.
En hverjar eru stærstu hindranirnar á þessari vegferð? spyr blaðamaður.
„Auðvitað er alltaf erfitt að flytja til nýs lands“, segir Karim. Hann bætir við að van-þekkingin á reglum og siðum geti svo oft leitt til brostinna vona og jafnvel árekstra. Karim segir að reynsla hans af Ítalíu hafi hjálpað honum að lenda ekki í sama vanda og margt annað fólk. Þau eru svo mörg sem koma hingað beint frá landinu sem þau ólust upp í og auðvitað verður margt erfitt. Hugsunin er ólík, menningin, veðrið, reglurnar, allt er þetta ólíkt. Hann vonar að hægt verði að vernda þetta fólk, að verja geðheilsu þess og hjálpa því að upplifa að Ísland sé heimili þess. Hann bendir á að sumt fólk flytur frá heimsálfum sem eru mjög ólíkar Evrópu, eins og frá Afríku. Eða jafnvel úr stríðsátökum. „Vanþekking þeirra og annarra sem flytja hingað til lands getur valdið miklum vanda,“ segir Karim. „Fólk þekkir ekki lögin. En ef þau fá upplýsingar um löggjöfina geta þau kynnt sér lögin betur og átt auðveldara með að aðlagast nýrri menningu.“
Í ljósi þess að menning og lagaumhverfi hér er ólíkt sumum löndum sem fólk flyst frá, myndirðu þá segja að starf þitt felist ekki hvað síst í að tryggja gott aðgengi að upplýsingum?, spyr blaðamaður.
„Já og þess vegna er sendiherraverkefnið svo mikilvægt,“ segir Karim. „Það hjálpar okkur að ná þessu takmarki, að koma öllum upplýsingum áleiðis til erlendra íbúa. Tryggja að allt þetta fólk viti það sem það þarf að vita.“
Framvinda og þróun sendiherraverkefnisins
Sendiherraverkefnið er augljóslega mikilvægt en hvað þarf til að renna stoðum undir það og þróa það áfram? spyr blaðamaður.
„Öll verkefni í heiminum byrja smátt og sum vaxa og verða stærri og stærri,“ segir Karim. „Núna á fyrstu skrefunum þurfum við meiri stuðning frá öðrum og að vera sameinuð í að ná markmiðum okkar. Þegar við höfum komist þangað mun verkefnið stækka og breiðast út, og fleiri verkefni af sama toga líta dagsins ljós.“ Karim bætir við að í þessu þróunarferli felist að tala við margt og mismunandi fólk sem leiði til fleiri hugmynda og um leið til þess að fleiri verkefni koma upp á yfirborðið sem þarfnast úrlausna. Þetta leiði til æ stærra verkefnis. Hann vonast til að vinnan í Breiðholti verði að góðu líkani sem fleiri geti nýtt sér. „Við viljum draga úr fáfræði nýrra íbúa“, segir hann að lokum. „Við viljum að þetta sem við erum að gera berist til allra og þá getum við hafist handa við að ná markmiði okkar með þessu verkefni: Fókusinn okkar er að allar upplýsingar nái til allra.“