Ég er alltaf til í að leggja menningunni á Seltjarnarnesi lið
Sólveig Pálsdóttir rithöfundur er bæjarlistamaður Seltjarnarness 2019. Þetta er í 23. sinn sem bæjarlistamaður Seltjarnarness er útnefndur en í fyrsta skipti sem að rithöfundur hlýtur þennan heiður. Sólveig er fjölhæf á sviði lista, skapandi greina og miðlunar. Hún er menntuð leikkona og starfaði sem slík auk þess að vera dagskrárgerðarmaður hjá RÚV á árunum 1982 til 1990. Á árinu 1996 lauk Sólveig námi í almennri bókmenntafræði og námi til kennsluréttinda frá Háskóla Íslands. Hún hefur starfað sem íslenskutjáningar- og leiklistarkennari auk þess sem hún hefur haldið fjölda námskeiða fyrir einstaklinga og stjórnendur. Frá árinu 2013 hefur Sólveig starfað sem rithöfundur. Þegar hafa komið út eftir hana fjórar glæpasögur sem allar hafa hlotið góða dóma og hefur Sólveig nú nýlokið við sína fimmtu bók, Fjötrar, sem kemur út seinni hluta október. Fyrsta skáldsagan hennar, Leikarinn kom út árið 2012, Hinir réttlátu kom út árið 2013, Flekklaus árið 2015 og Refurinn árið 2017. Nesfréttir spjölluðu við Sólveigu á dögunum.
Beint lá við að spyrja hana af hverju hún hafi ákveðið að snúa sér alfarið að ritstörfum fimmtug að aldri. “Það er von að spurt sé. Ég var í góðu starfi sem kennari og lifði innihaldsríku og góðu lífi. Börnin voru orðin eldri og þá gafst meiri tími til að líta eftir nýjum viðfangsefnum. Ég hef alltaf haft ríka sköpunarþörf og fann að ég hafði vannært hana um tíma.” Sólveig kveðst alltaf hafa haft ánægju af að skrifa texta og lesið mikið. “Ég var ein af þessum sem hafði gaman af að skrifa ritgerðir í skóla. Ég er líka menntaður leikari. Hef lesið mikið upp og þessi leiklistargrunnur hefur orðið til þess að ég er góð í spuna. Hluti af ritstörfunum er að impróvísera. Byggja utan um þær hugmyndir sem verið er að fjalla um. Ég fór á sínum tíma á námskeið í skapandi skrifum hjá Þorvaldi Þorsteinssyni. Þar skrifaði ég uppkast að kafla og lagði drög að fyrstu bókinni minni.”
Bý spennuna til innra með mér
En af hverju valdi Sólveig spennusöguna sem viðfangsefni. “Í fyrstu var ég ekki með spennusögu í huga. Þegar persónurnar voru að mótast í huga mínum var ég fremur að vinna með vandræðaleg samskipti fólks á fertugsaldri og leika mér með margræða undirtexta. Ég lagði þessi skrif síðan til hliðar og leit ekki á þau fyrr en mörgum mánuðum seinna. Þá sá ég að ég hafði þarna drög að einhverju sem gæti orðið barn í brók og ákvað að byggja utan um þessi skrif. Prufa mig áfram og sjá hvernig þetta þróaðist. Og þá tók spennusagan að verða til.” Sólveig kveðst hafa fundið fljótt að spennan ætti vel við sig. “Ég hef, að ég held, alltaf verið frekar varkár manneskja. Ég er ekki sú sem vil klífa hæstu tinda eða henda mér úr flugvél í fallhlíf. Ég hef aldrei haft þörf fyrir spennu af því tagi. Ég bý til spennuna þegar ég skrifa textann. Það kemur adrenalíninu af stað hjá mér. Þannig fæ ég mitt adrenaínkikk. Ég get tekið andlega áhættu en sú líkamlega hentar mér síður.”
Persónurnar koma til mín þegar ég fer að vinna
Sólveig segir að viðtökurnar við fyrstu bókinni hafi hvatt sig til þess að halda áfram. “Ég hef alltaf haft mikinn áhuga á mannlegu eðli. Ég geri mér far um að kynnast fólki – kynnast ólíkum persónum með mismunandi bakgrunn. Reyni að skilja þær. Ég les viðtöl við fólk og ævisögur og hlusta mikið á viðtalsþætti og podcöst. Ég held að ef ég hefði ekki valið mér þau störf sem ég hef sinnt hefði ég valið sálfræðina og ég les oft faggreinar á því sviði. Í glæpasögunni gefast góð tækifæri að vinna með venjulegt fólk sem vegna einhverra aðstæðna hefur verið ýtt að bjargbrúninni. Það er að segja, í óeiginlegri merkingu, og þá verða tilfinningarnar stærri. Þannig má kafa í margbreytileika hins mannlega.“ Sólveig segist skrifa um venjulegt fólk, manninn eða konuna sem gæti þess vegna búið í næsta húsi við lesandann. „Mínar sögur gerast ekki í heimi glæpahringja eða alþjóðlegu glæpaumhverfi. Sögupersónurnar koma til mín þegar ég fer að vinna með efnið. Þær koma fyrst og ég sé þær ljóslifandi fyrir mér og átta mig á helstu persónueinkennum þeirra. Síðan fer ég að byggja fléttuna upp og þá plottið.“
Glæpasagan tók yfir
Sólveig var beðin um að nefna dæmi um persónur sem komið hafa til hennar við sagnagerðina. Ólíkar persónur úr mismunandi umhverfi sem síðan blandast saman á síðum bókanna. „Í Refnum, síðustu bókinni minni var það ung kona, Sajee ættuð frá Siri Lanka, sem kom fyrst til mín og það gerðist þegar ég var stödd við Eystrahorn í Lóni í Hornafirði sem varð að helsta sögusviði bókarinnar og kallast þar Bröttuskriður. Í nýju bókinni minni Fjötrar voru það tvær persónur sem yfirtóku huga minn í byrjun. Annars vegar var það myndlistarkonan Kristín Kjarr, sem kom fyrir á hálfri blaðsíðu í Refnum og hins vegar samfélagsmiðlastjarnan Andrea Eyþórsdóttir. Ég lagðist í mikla rannsónarvinnu til að skoða þennan nýja heim sem samfélagsmiðlar eru. Í sögunni tengist hann mannshvarfi frá aldamótaárinu 2000 – þjóðhátíðardeginum það ár þegar Suðurlandsskjálftinn reið yfir.“ Sólveig segist vinna rannsóknarvinnu fyrir allar sínar bækur og leggja mikið upp úr að leita ráða hjá fagaðilum. „Ég leita ráða hjá fagfólki og ræði líka við fólk á öllum aldri. Jafnt yngra fólk sem eldra til þess að fá breiðan bakgrunn. En þó ég reyni að hafa hlutina rétta þá geta orðið árekstrar á milli staðreynda og skáldskapar. Ef það gerist á skáldskapurinn alltaf vinninginn því ég skrifa skáldskap ekki skýrslur. Áður en ég hóf að skrifa Fjötra, nýju bókina mína, hafði ég hugsað mér að skrifa öðruvísi bók en glæpasögu. Ég var komin með ýmsar hugmyndir sem ég ætlaði að þróa áfram en það sem gerðist var að glæpasagan tók yfir. Ég hellti mér í hana og það var mjög gaman að skrifa hana.“
Nýjar hugmyndir enda trúlega í bók
En hvað er í pennanum hjá Sólveigu núna. „Ég er að fylgja þessari bók úr hlaði. Núna er verið að vinna bókarkápuna og það er alltaf skemmtilegt ferli. Þegar ný bók kemur út skiptir kápan miklu máli. Hún er andlitið sem fyrst snýr að væntanlegum lesanda og er ætlað að vekja áhuga hans á innihaldinu. Allskyns hlutir verða að falla saman. En ég er með ýmsar hugmyndir um nýtt efni og hvað verður ofan á fer algjörlega eftir innsæinu. Ég hef með árunum lært að það borgar sig að treysta því. Ég hef lítið verið í fortíðinni í bókum mínum en dvalið meira við nútíðina og framtíðina sem ég hef mikinn áhuga á. En mig langar til að vinna efni úr eða í tengslum við 150 ára gamla sögu sem tengist mér meira að segja persónulega og svo eru fyrstu hugmyndir að spennusögu að byrja að skjóta rótum í huga mér. Ég er ekki komin svo langt að geta sagt til um hvar þessar hugmyndir sem ég er að þróa enda. En trúlega enda þær í bók.“
Gott að vinna í bókasafninu
Sólveig segir að fjölbreytt starfsreynsla auk þess að hafa lagt sig fram um að kynnast ólíkum kimum samfélagsins hafi hjálpað sér við skrifin. „Hver einasta mannsekja hefur eitthvað áhugavert fram að færa og oftast eitthvað sem læra má af. Þessi fjölbreytileiki hjálpar manni að skilja mannlífið betur. Ég er ekki einrænn rithöfundur að þessu leyti. Það væri skrítið ef jafn félagslynd manneskja og ég er gæti lokað sig af við skriftir án sambands við mann og annan. Mér finnst ég hafa náð þessu jafnvægi. Ég er félagslega virk með opin augu en get líka auðveldlega lokað mig af ef og þegar ég þarf á því að halda. Stundum er gott að vinna alveg í einrúmi með enga utanaðkomandi truflun og stundum er líka gott að vinna innan um fólk. Til dæmis hér á Bókasafni Seltjarnarness. Ég skrifaði talsverðan hluta Refsins hérna á safninu. Hér er hæfileg umgengni og ákaflega gott andrúmsloft. Eftir að hafa verið þar tíma og tíma vildi ég sjá fleiri Seltirninga nýta sér þessa aðstöðu.“
Einar dyr lokast en aðrar opnast
Sólveig snýr sér að lesendunum. Hún segir fátt gleðja sig meira en ánægðir lesendur. „Mér finnst þessi tími frá því að ég byrjaði að skrifa hafa verið ævintýralegur. Það hefur svo margt gerst sem mig óraði ekki fyrir að yrði að veruleika. Hefði einhver sagt mér þegar ég var um tvítugt að þetta ætti eftir að gerast hefði ég sagt það vera hreint bull. Bókaskrifin hafa gefið mér margt. Ég hef kynnst fjölda fólks bæði hér heima og erlendis sem ég hefði trúlega aldrei hitt hefði ég ekki farið út í að gerast rithöfundur. Fólk sem hefur opnað fyrir mér nýja heima. Ég hef líka lært það í gegnum lífið að þegar dyr lokast þá opnast aðrar dyr og stundum bæði áhugaverðari og betri. Maður getur bæði lokað dyrum sjálfur eða þær lokast af öðrum ástæðum. Aðalatriðið er að standa með sjálfum sér.“
Fer til allra staða sem koma við sögu
Sólveig kveðst hafa ferðast mikið í tengslum við ritstörfin. „Ég hef farið til nær allra staða sem koma við sögu í bókunum. Mér finnst ég þurfa að koma á staðina. Skynja þá. Finna andrúmsloftið. Það veitir manni sýn og gefur mér innblástur. Eins er með persónurnar þegar ég er að skapa þær. Ég bý stundum til eina persónu úr mörgum. Tek eitthvað frá smávegis frá mörgum, bæti í og set saman í eina. Þarna kemur leiklistin líka til sögunnar. Hún hjálpar mér. Ég verð að geta sett mig inn í sálarlíf þeirra rétt eins og þegar maður túlkar persónu á leiksviði. Á meðan ég er að skrifa verð ég að geta farið inn i hugarheim fólksins sem ég er að skapa. Hvernig svo sem hann er. Þótt ritverk sé á vissan hátt óaðskiljanlegur hluti af höfundinum þá lít ég á þetta eins og hlutverk í leikhúsi og held mínu prívatlífi fyrir utan. Ég er eðlilega ekki alltaf sátt við gjörðir þeirra persóna sem ég skapa í bókunum mínum og stundum er mér alls ekki vel við þær. En ég verð að geta skilið hugarheim þeirra á meðan ég er að skrifa.“
Lestur er undirstaða
Sólveig hefur alltaf verið bókaunnandi og lestrarhestur. Kveðst gjarnan vilja koma því að að hún hafi lesið mikið allt frá æsku. „Svo kenndi ég líka íslensku í 17 ár. Hún segir lestur undirstöðu alls náms. „Hann er líka undirstaða lýðræðisins. Sá sem les aðeins fyrirsagnir en getur ekki lesið texta sér til gagns eða kynnt sér málin með heilbrigðri gagnrýnni hugsun á erfitt með að mynda sér skoðun á upplýstum forsendum. Ef fólk hættir að lesa og hættir að fylgjast með er leiðin greið fyrir popúlista að ná völdum.“ Sólveig segir margar aðferðir til þess að fá börn og ungmenni til að lesa og að ná þannig góðum tökum á lestri. „Það er mikilvægt að rétta að þeim bækur sem þau hafa gaman af að lesa. Bjóða þeim áhugaverðar bækur og helst eitthvað sem þau tengja við. Ræða efni bókanna á lifandi og hugmyndaríkan hátt. Nota tækifærið til að auka þekkingu og skilning nemendanna á heiminum sem við lifum í en ekki skylda nemendur til að hraðlesa til þess eins að svara andlausum staðreyndaspurningum á prófum. Þegar ég var að skrifa Refinn fléttaði ég saman ólíkum menningarheimum, þannig að bókin gefur tilefni til að ræða t.d. menningarlæsi og innflytjendamál. Þau brenna á mörgum. Í nýju bókinni er ég að fjalla um samfélagsmiðlana og þöggun. Þöggun er sterkt þema í glæpasögunni. Það eru ekki bara persónurnar sem brenna á mér heldur málefnin. Ég hef alltaf eitthvað fram að færa í hverri bók. En ég vil leyfa fólki – lesendunum sjálfum að draga sínar ályktanir. Ekki klína einhverju á fólk. Því á að vera í sjálfsvald sett hvort eða hvernig það les úr því sem ég skrifa. Ég flutti ræðu þegar ég var útnefndur bæjarlistamaður. Þar talaði ég um hæfileikann að lesa og að við megum ekki glata honum. Mér finnst yndislegt að fá pósta frá ungu fólki sem hefur lesið bækurnar mínar og kveðst hafa gleymt sér í textanum. Þá tekur kennarinn og rithöfundurinn í huga mínum hástökk af gleði.”
Ég er alltaf til í að leggja menningunni á Seltjarnarnes lið
“Þú spyrð hvað ég ætla að gera á árinu mínu sem bæjarlistamaður. Ég hef síðan ég flutti á Nesið 1995 reynt að leggja mitt af mörkum í bæjarfélaginu. En núna í ár hef ég heimsótt flest félagasamtökin hér og svo var ég fjallkona á 17. júní. Reyndar í annað skiptið á Nesinu en hitt var 1996. Alls hef ég verið fjallkona í þrjú skipti en hið fyrsta var í Reykjavík 1985. Þá var ég ung leikkona. Og ég hef alltaf klæðst sama búningnum, skautbúningi Dóru Þórhallsdóttur ömmu minnar. Svo verð ég á rithöfundakvöldi á bókasafninu 5. nóvember og svo sjáum við bara til. Ég er alltaf til í að leggja menningunni á Seltjarnarnesi lið.“