Mikil ánægja með íþróttamiðstöðina
Mikil ánægja ríkir með endurbætur íþróttamiðstöðvarinnar á Seltjarnarnesi og nýja aðstöðu til fimleika sem er öll hin fullkomnasta sem og vel heppnað samstarfsverkefni Seltjarnarnesbæjar og Reykjavíkurborgar. Nýtt fimleikahús Gróttu og endurbætt íþróttamiðstöð Seltjarnarness var formlega opnuð 14. september sl. Húsið er samstarfsverkefni Seltjarnarnesbæjar og Reykjavíkurborgar.
Margt var um manninn á opnunarathöfninni í íþróttamiðstöðinni. Formleg dagskrá fór fram í fimleikasalnum þar sem að hápunkturinn var glæsileg sýning fimleikabarna í Gróttu á öllum aldri undir stjórn Berglindar Pétursdóttur og fleiri þjálfara. Fimleikasýningin sýndi svo ekki var um villst hvað þetta nýja, glæsilega og fullkomna fimleikahús hefur upp á að bjóða fyrir iðkendur. Dagur B. Eggertsson borgarstjóri flutti hátíðarávarp ásamt Ásgerði Halldórsdóttur, bæjarstjóra á Seltjarnarnesi og Guðjóni Rúnarssyni formanni fimleikadeildar Gróttu.
Í árslok 2016 undirrituðu þau Ásgerður Halldórsdóttir bæjarstjóri og Dagur B. Eggertsson borgarstjóri samstarfssamning á milli Seltjarnanesbæjar og Reykjavíkurborgar um að standa sameiginlega að stækkun íþróttaaðstöðu Gróttu til að bæta aðstöðu til fimleikaiðkunar. Samstarfssamningur Seltjarnarnesbæjar og Reykjavíkurborgar fól í sér að sveitarfélögin tvö myndu standa sameiginlega að rekstri fimleikadeildar Gróttu og mun Reykjavíkurborg greiða leigu á fimleikaaðstöðunni fyrir iðkendur sem búsettir eru í Reykjavík en um 80% iðkenda búa í Reykjavík. Leigusamningurinn er til 20 ára með ákvæði um framlengingu á fimm ára fresti.