Þróunarverkefnið Föruneytið
– Leið til að efla félagslegt taumhald barna og ungmenna –
Frístundamiðstöðin Tjörnin vinnur þessi misserin að innleiðingu nýrrar menntastefnu Reykjavíkurborgar inn í frístundastarfið í hverfinu. Þróunarverkefnið Föruneytið er ein þeirra leiða og hefur verkefnið það að markmiði að efla félagslegt taumhald barna og ungmenna hverfisins. Ísland hefur verið í fararbroddi þegar kemur að forvörnum og höfum við oftar en ekki komið í fréttum erlendis þar sem íslenska forvarnamódelið er tekið til fyrirmyndar.
Ótrúlegur árangur hefur náðst síðustu ár með módelinu, meðal annars með því að efla þátttöku barna og unglinga í skipulögðum tómstundum og þar af leiðandi minnka neyslu áfengis og annarra vímuefna. Einn lykilþátturinn í forvarnarmódelinu er samvinna allra aðila sem koma að uppeldi barna og unglinga og þar er foreldraröltið afar mikilvægt. Foreldraröltið og eftirfylgni lögboðins útivistartíma eflir öryggi hverfisins og býr til samfélag þar sem foreldrar og forsjáraðilar taka höndum saman og eru samstilltir. Frístundamiðstöðin Tjörnin hefur því nú gefið út handbók fyrir foreldra um foreldrarölt. Þar er farið yfir hvers vegna foreldrarölt skiptir svona miklu máli, tillögur að skipulagi röltsins og upplýsingar um tengiliði. Markmiðið með þessari handbók er að foreldrar og forsjáraðilar verði öruggari í skipulagi og framkvæmd foreldraröltsins hafi aðgang að leiðarvísi fyrir þetta mikilvæga starf. Foreldraröltið tengir saman foreldra, styrkir þau í hlutverkinu sínu og býr til öruggara hverfi fyrir börnin og unglingana til að alast upp í. Forstöðumenn félagsmiðstöðva Tjarnarinnar eru búin að senda út handbókina til bekkjarfulltrúa og foreldrafélaga skólanna í hverfinu sem hafa það hlutverk að vera ábyrgðaraðilar röltisins. Starfsfólk Tjarnarinnar er afskaplega spennt að eiga í góðu samstarfi við foreldra og forsjáraðila hverfisins í vetur.