Urðum ástfangin af Seljahverfinu

– segir Elínrós Benediktsdóttir skólastjóri í Ölduselsskóla –

Elínrós ásamt fjölskyldu sinni á ferðalagi á Írlandi. 
Á myndinni: Sandra Júlía Matthíasdóttir, Elínrós Benediktsdóttir, Hákon Dagur Matthíasson og Matthías Pétur Einarsson.

“Við urðum ástfangin af Seljahverfinu. Vorum að safna fyrir stærri íbúð í öðru hverfi en enduðum á að kaupa okkur blokkaríbúð í Dalseli,” segir Elínrós Benediktsdóttir skólastjóri í Ölduselsskóla í spjalli við Breiðholtablaðið. Elínrós tók við stjórn Ölduselsskóla á liðnu sumri en hafði þá verið aðstoðarskólastjóri í einn vetur en viðloðandi kennslu í Breiðholti í 17 ár. Hún hóf kennslustörf í Ölduselsskóla haustið 2002 og hefur unnið þar síðan en þó með einhverjum hléum vegna barneigna og náms. Breiðholtsblaðið settist niður með Elínrós einn dimman desembermorgun og talið barst fyrst að nafninu hennar sem er nokkuð óvenjulegt. Samsett úr Elínu og Rós.

“Ég er fædd og uppalin í Keflavík og heiti eftir afasystur minni sem hét Elínrós Benediktsdóttir og var ljósmóðir þar í bæ. Ég er því alnafna hennar. Ég ólst upp með móður minni og tveimur systkinum. Tónlist átti huga minn sem barn og unglingur. Ég lærði á ýmis hljóðfæri en endaði svo á að læra sjálf á gítar. Ég hef alltaf haft gaman af að grípa í hann og spila og syngja og nú er dóttir mín sem er fædd árið 2001 komin í sama farið.” Elínrós elti ástina til Reykjavíkur eins og hún kemst að orði. “Ég átti kærasta sem síðar varð maðurinn minn og hann bjó á þeim tíma í Reykjavík. Við giftum okkur og hófum að búa. Maðurinn minn heitir Matthías Pétur Einarsson og er viðskiptafræðingur. Við bjuggum fyrst í 108 – í Smáíbúðahverfinu eins og það var kallað. Afi og amma Matta áttu hús þar og við leigðum risíbúðina þeirra. Við höfðum þó fljótt huga á að komast í stærra og rúmbetra húsnæði. Við leigðum stærri íbúð í sama hverfi í eitt ár en vorum ákveðin í að eignast okkar eigið húsnæði. Við byrjuðum að leita fyrir okkur í sama hverfi. Okkur fannst gott að búa þar. En við urðum þess fljótt áskynja að þetta var dýrt hverfi. Í Breiðholtinu gat maður fundið stærri íbúðir og nýrri en á betra verði en í öðrum hverfum. Við ákváðum því að skoða íbúðir þar. Þessi leit okkar endaði með því að við festum kaup á íbúð í Dalseli, sem hentaði okkur ágætlega og kostaði einungis 7,5 milljónir. Þetta var góð um 90 fermetra, þriggja herbergja íbúð með mjög góðu útsýni vestur og norður um Reykjavík. Það var gaman að halda gamlárskvöld hjá okkur og fylgjast með flugeldunum. Við eignuðumst annað barn 2005 sem fljótlega fór að kalla eftir rýmra húsnæði sem endaði með því að við hófum leit að nýju. Upphaflega planið okkar var að búa í Breiðholtinu í fimm ár á meðan við værum að safna fyrir öðru húsnæði en eftir að hafa búið hér í þessi ár þá viljum við hvergi annarsstaðar vera. Við keyptum því parhús í Kleifarseli.”    

Seljahverfið minnir á umhverfið þar sem ég ólst upp

„Okkur fannst gott að búa í Seljahverfinu og vorum orðin ástfangin af því eftir veruna í Dalselinu. Hér var og er allt til alls. Seljahverfið minnir mig líka á umhverfið þar sem ég ólst upp. Ég var vön því í Keflavík að þekkja fólkið sem bjó í nágrenninu. Maður kynntist nágrönnum sínum og þetta er eins hér í Seljahverfinu. Við höfum kynnst fólki bæði í gegnum börnin okkar og einnig eftir öðrum leiðum. Strákurinn okkar er til dæmis í fótbolta hjá ÍR og dóttirin var í handbolta hjá ÍR. Einnig finnst okkur mikilvægt að taka þátt í sjálfboðastarfi bæði hjá íþróttafélaginu og skólanum. Með því að gera það kynnist maður fólki og tekur þátt í uppbyggilegu starfi fyrir börnin í hverfinu. Ég veit ekki hvort ég á að kalla þetta smábæjarbrag. Það verða kannski ekki allir sáttir við það en hin félagslegu samskipti sem eiga sér stað minna oft á samfélög þar sem íbúar eru færri. Dæmi um þetta er sumardagurinn fyrsti. Þá safnaðist fólk saman við hverfa búðina og þaðan gengu allir í skrúðgöngu niður að tjörninni fyrir neðan Seljahlíð þar sem skátarnir sáu um ýmis gamanatriði. Þorrablót ÍR er líka annað ágætt dæmi. Ég hugsa að megi kalla það „þorrablót ársins“. Þorrablótið byrjar með að fólk hittist í heimahúsum og labbar síðan niður að ÍR þar sem allir koma saman, borða góðan mat, skemmtir sér og dansar. Ég þekki þessi samskipti líka úr götunni þar sem ég bý í Kleifarselinu. Konurnar í götunni eru búnar að stofna saumaklúbb og það er dásamlegt. Við þekkjumst allar, komum saman, spjöllum, skiptumst á sögum og hlæjum. Í mínum huga er mikilvægt að við sem búum í hverfinu vitum af hvort öðru. Samskiptin í hverfinu gefa lífinu lit.”

Foreldrastarfið er mikilvægt

„Ég er líka búin að vera tengd Ölduselsskóla, þó með hléum, frá því að ég kom í Breiðholtið. Eitt af því sem mér finnst mikilvægt í skólamálunum er foreldrastarfið. Skólarnir og foreldrafélögin í Breiðholti eru í sameiningu að huga að því að byggja samfélagið upp. Verkefnið um „skjátíma“ barna er nýjasta dæmið um árangur af þessu starfi. Foreldraröltið er annað dæmi sem búið er að vera í nokkur ár. Við erum nú að horfa á læsi og nauðsyn þess að hvert barn nái góðum tökum á lestri og öðlaðist nægjanlegan lesskilning. Við erum líka heppin að því leyti að starfa í skólum þar sem fjölbreytni er mikil. Í Breiðholti búa fjölskyldur af ýmsum uppruna. Ættaðar úr mismunandi menningarsamfélögum og talandi mörg og mismunandi tungumál. Við búum við fjölmenningu. Við þurfum að taka vel á móti börnum sem eru að flytja til landsins eða nýlega flutt hingað og tala bara sitt móðurmál. Það skiptir engu hvert það tungumál er. Við þurfum að vera vel undirbúin. Við þurfum að gera áætlun um hvernig við ætlum að gera þetta sem best. Þetta eru áskoranir. Hér fjölgar fólki stöðugt sem er tvítyngt eða jafnvel með þrjú tungumál því flest börn komast í kynni við ensku auk móðurmálsins og íslenskunnar. Það þarf að auka orðaforða barna og þjálfa þau í að nota tungumálið á sem fjölbreyttastan hátt. Bæði þau börn sem eru að læra íslensku sem annað móðurmál og einnig þau sem hafa íslenskuna að móðurmáli. Skólarnir í Breiðholti eru með mikið samstarf sín á milli og þetta er eitt af þeim sviðum sem mikið er rætt um og reynum við að læra hvert  af öðru. Það þurfa ekki allir að finna upp hjólið. En ég þreytist ekki á því að hrósa foreldrafélögunum hér í Breiðholti. Þau leggja svo sannarlega sitt af mörkum til skólasamfélagsins. Virkir bekkjarfulltrúar eru í hverjum árgangi sem leitast við að þjappa hópnum saman og efla vináttu og virðingu. Þau skipuleggja ýmsa viðburði þar sem bæði nemendur og foreldrar taka þátt og sjá um stefnumótun. Gott dæmi um það er “símalaus skóli”. Ölduselsskóli var fyrsti skólinn í Reykjavík til að verða símalaus. Starfsfólk, nemendur og foreldrar komu að þessu verkefni. Markmið með verkefninu var til dæmis að minnka skjátíma barna og auka samskipti á milli nemenda og þar með félagsfærni þeirra. Stuðningur og hvatning foreldra í þessari stefnubreytingu var ómetanleg.“

Amma gerðist Bahá’íi

Elínrós hefur ekki farið að öllu leyti troðnar slóðir. Hún er bahá’í trúar. Trúarbrögð sem eiga uppruna í Íran en hafa breiðst út um allan heim. En hver er ástæðan að hún fór þessa leið í lífinu. „Amma mín í Keflavík var ákaflega leitandi manneskja. Hún íhugaði margt og hafði mikinn áhuga á andlegum málefnum. Hún fór að kynna sér bahá’í trú og gerðist bahá’í. Móðir mín fór síðan þessa leið á eftir henni. Ég er því alin upp við bahá’í trú en gerist bahá’í sjálf 15 ára gömul. Bahá’í trú kennir það að öll trúarbrögð séu komin frá einni og sömu uppsprettunni og að kjarni þeirra sé sá sami. Trúarbrögðin koma fram á mismunandi tíma og kenna okkur mannfólkinu eitthvað nýtt í hvert skipti. Helsta kenning bahá’í trúar er eining. Bahá’u’lláh opinberandi trúarinnar sagði: “Jörðin er aðeins eitt land og mannkynið íbúar þess”. Þetta er falleg tilvitnun sem virkilega fær mann til að hugsa um hversu mikilvægt það er að við horfum á mannkynið sem eina heild og að við vinnum saman að uppbyggingu en ekki niðurrifi. Jörðin verður alltaf minni og minni í okkar huga á tækniöld þar sem hægt er að ferðast á milli landa og fylgjast með fréttum. Einstaklingar rísa upp gegn óréttlæti vegna þess að þeir læra af reynslu annarra þjóða. Eins erum við sem mannkyn í miðri umræðu um umhverfismál og hvernig við förum með jörðina og þá reynir á hvernig við vinnum úr þeim málum. En trúarbrögð kenna okkur einnig að maðurinn er bæði sál og líkami. Við virðumst vera meðvituð um að við þurfum að huga að heilsu líkamans en oft á tíðum gleymum við að huga að sálinni. Það er hægt að kalla bænir og hugleiðslu fæðu sálarinnar en einnig er mikilvægt að rækta með sér góðar dyggðir eða gildi sem búa í öllum til dæmis kærleika, umburðarlyndi, heiðarleika og réttlæti. Allir eiga þessar dyggðir en það er mikilvægt að þeir fái tækifæri, hvatningu og aðstoð til að rækta þær með sér. Foreldrar gegna mikilvægu hlutverki í þessum efnum en skólinn og samfélagið allt getur lagt sitt af mörkum.” 

You may also like...