Fjárhagsvandræðin eru sjálfskaparvíti
– segir Skafti Harðarson –
„Ég er Vesturbæingur og KR-ingur í húð og hár. Ég er alinn upp vestast í Vesturbænum og lengi haft sterk tengsl við Seltjarnarnes. Foreldrar mínir byggðu sér hús við Sævargarða árið 1974. Eftir það bjó ég á Seltjarnarnesi um árabil eða þangað til ég stofnaði sjálfur fjölskyldu. Þá fluttum við í Vesturbæinn og bjuggum í nánd við KR-heimilið þar til fyrir sex árum að við hjónin festum kaup á húseign á Nesinu. Á Nesinu var meira og minna öll fjölskyldan fyrir. Foreldrar mínir og systkini og dóttir okkar voru flutt á Nesið. Þetta lá því beint við. Svo má ekki gleyma golfinu sem ég hef stundað í 22 ár á Nesvellinum. Aðstaðan þar er góð þótt golfvellinum verið ekki komið upp í 18 holur. Til þess er ekki rými og spurning um hvort hægt yrði að láta hann standa undir eigin rekstri. Ég hef alltaf verið mikill frjálshyggju- og sjálfstæðismaður og gekk fljótt í sjálfstæðisfélagið á Nesinu en hef þó líka farið eigin leiðir. Ég tel að Seltjarnarnesbær hafi eytt fjármunum sem til hafi verið til þjónustu við Seltirninga í þjónustu við aðra íbúa höfuðborgarsvæðisins. Ég tel mig búa í bæjarfélagi sem hafði allt til brunns að bera til að veita þá bestu grunnþjónustu sem hægt er að veita á landinu. Ég vona að okkur beri gæfa til þess að komast í gegnum þá erfiðleika sem steðja að fjármálum sveitarfélagsins. Þeir eru sjálfskaparvíti bæjarstjórnarmeirihlutans,“ segir Skafti Harðarson í spjalli við Nesfréttir.
Skafti er þekktur fyrir afdráttarlausar skoðanir hvort sem er á þjóðmálum eða málefnum Seltjarnarnesbæjar. Hann, ásamt fleirum, stóð að framboði F-lista fyrir síðustu bæjarstjórnarkosningar og vantaði aðeins 14 atkvæði frá Sjálfstæðisflokknum til þess að meirihluti flokksins félli. Hann segir að hefði honum tekist að fella meirihlutann hefði hann reynt að mynda meirihluta í bæjarstjórninni með fyrrverandi meirihluta. Hann segir Seltjarnarnes það fámennt samfélag að mun auðveldara sé fyrir fólk með sterkar skoðanir að hafa áhrif en í meira fjölmenni. Ef samstilltur hópur fólks taki sig saman geti það haft veruleg áhrif. „Ef ég hefði verið kosinn í bæjarstjórnina hefði ég gert kröfur. Einkum kröfur sem snúa að rekstri bæjarfélagsins sem gæti að mínu viti gæti verið mun betri. Ég hef látið heyra í mér bæði á fundum í Sjálfstæðisfélaginu og víðar. Ég hef gaman af að rifja upp að fyrir fimm eða sex árum hittumst við nokkrir með svipaðar skoðanir og ræddum meðal annars að líklega væri bæði hægt að gera Seltjarnarnesbæ skuldlausan og nánast fella niður fasteignaskattinn. Allt annað en hjá Reykjavíkurborg sem heldur fasteignaverði og þar með fasteignaskatti eins og hann er reiknaður út í dag uppi með því að takmarka lóðaframboð nema á dýrustu byggingasvæðum borgarinnar. En nú hefur meirihlutinn komið því þannig fyrir að skattahækkanir virðast óhjákvæmilegar til að fjármagna þessi gæluverkefni þeirra. F-listinn bauð fram undir slagorðinu „Grunnþjónusta í stað gæluverkefna“, en nú mun sýna sig að bærinn hefur ekki efni á að sinna grunnþjónustunni sem skyldi.“
Sveitarfélögin of háð ríkinu
Skafti segir að ekki þurfi að vera samræmi á milli stærðar sveitarfélaga og rekstrarhagkvæmni þeirra. „Ég tel að Reykjavíkurborg sé of stór eining. Betra væri að skipta henni upp. Að borgarhverfin fái meiri eða jafnvel algera sjálfsstjórn. Skipulagsmálin verða þó að vera á sameiginlegri hendi eða lúta samstarfi en aðrir þættir eru að mínu viti betur komnir innan minni rekstrareininga. Ég veit að eftir því sem sveitarfélög verða fjölmennari vex yfirbygging þeirra og þar með rekstrarkostnaðurinn. Þetta sjáum við allt í kringum okkur. Sveitarfélögin eru líka of háð ríkinu. Ríkisvaldið hefur of mikil afskipti af málefnum þeirra. Og það sem verst er að sveitarfélögin hafa verið að sækjast eftir að taka yfir verkefni frá ríkinu án þess að nægjanlegt rekstrarfé fylgi. Skýrasta dæmið um það eru hjúkrunarheimilin. Nú hefur verið byggt hjúkrunarheimili hér á Seltjarnarnesi. Ég tel að bæjaryfirvöld hafi gert rétt í að segja sig frá rekstri þess, og áttu auðvitað aldrei að standa fyrir byggingu þess. Bæjarfélagið hefur ekki bolmagn til að standa undir þessum rekstri auk þess sem það myndi ekki hafa nein áhrif á hvort einhverjir Seltirningar fengju þar inni eða ekki. Allt slíkt er ákveðið af færninefnd sem tekur ekkert tillit til hvaðan fólk kemur sem fær inni áhjúkrunarheimilunum, enda eðlilegt að þeir sem verst standi gangi fyrir. Annað sem ég tel skipta miklu máli þegar um rekstur sveitarfélaga er að ræða eru byggingar íþróttamannvirkja. Sveitarfélögin hafa lagt í yfirgengilegan kostnað við þær. Stundum hafa þessar byggingar og kostnaður vegna íþróttafélaganna gengið svo langt að spyrja má hvort íþróttafélagið sé til fyrir sveitarfélagið eða sveitarfélagið fyrir íþróttafélagið.“
Ekki heilagt að hafa leikskólann við Suðurströnd
Skafti víkur að Seltjarnanesbæ. Ef arfleifð núverandi bæjarstjóra og bæjarstjórnarmeirihluta verður sú sem mér sýnist stefna að fæ ég ekki séð hvernig bæjarfélagið ætlar að sinna þeirri grunnþjónustu sem það þarf að veita. Þar á ég við rekstur leik- og grunnskóla og annarra fastra verkefna sveitarfélaga. Ég fæ ekki séð hvernig Seltjarnarnesbær ætlar að byggja sambýli fyrir fatlað fólk. Hvað þá nýjan leikskóla eins og stefnt er að. Ef byggja á eftir þeim hugmyndum sem komu úr hugmyndasamkeppninni sem efnt var til fer bæjarfélagið á hausinn.“ Skafti segir ekkert heilagt við að byggja á núverandi leikskólasvæði við Suðurströnd. „Ég hefði viljað skoða flutning leikskólans að hliðinni á hinum skólunum á Seltjarnarnesi. Þá væri hægt að nota Bakkagerðistúnið sem er ónotað sem leiksvæði. Einnig vil ég spyrja hvernig menn hugsa sér að leysa úr starfsemi leikskólans á meðan þetta stórhýsi sem verðlaunað var verður í byggingu. Verður hann rekinn í lausum kennslustofum um árabil því varla verður sá leikskóli sem fyrirhugað er að byggja með bílakjallara byggður á einu ári. Leikskóli við Bakkagerðistúnið yrði mun nær nýrri byggð sem áformað er að reisa við Bygggarða en austan við Suðurströndina. Þar er fyrirhugað að byggja íbúðir sem geta hentað fyrir yngra fólk með börn á leikskólaaldri. Þá mætti einnig nýta söluandvirði núverandi leiksólaóðar til þess að fjármagna nýjan leikskóla.“ En hvernig vill Skafti nýta leikskólalóðina. „Þar mætti byggja lágreista íbúðabyggð á svæðinu.
Eldheitur KR-ingur en fagnar velgengni Gróttu
Skafti er eldheitur KR-ingur. Fæddur inn í félagið. Hann segir föður sinn hafa verið mikinn KR-ing og þetta sé sér svo í blóð borið að ekkert geti breytt því. Hann horfir þó ekki fram hjá Gróttu, heimafélagsins á Seltjarnarnesi. „Þótt ég sé KR-ingur kemst ég ekki hjá því að hæla Gróttu. Grótta hefur staðið sig mjög vel. Ekki síst í fótboltanum en það var blóðtaka að missa Óskar Hrafn frá félaginu. En það er ekki auðvelt að keppa við sterkt félag eins og Breiðablik. En maður kemur í manns stað. Það verður gaman að sjá KR og Gróttu eigast við í efstu deild næsta sumar.“
Stór grjóthrúga og ljótt áhaldahús
Vestursvæðin á Seltjarnarnesi berast í tal. Skafti segir að ýmislegt þurfi að gera og margt á svæðinu skapi enga prýði. „Þarna er stór grjóthrúga og síðan ljótasta áhaldahús landsins. Seltjarnarnesbær hefur ekkert með áhaldahús að gera. Bæjarfélagið á ekki að vera að reka traktora og gröfur fyrir eign reikning. Verkin eiga bara að fara í útboð á frjálsan markað. Ég tel nauðsynlegt að rífa áhaldahúsið, sem byggt var í leyfisleysi. Á sama hátt þarf að selja húsið sem ætlað var Lækningaminjasafni. Það stendur hálf byggt og er farið að grotna niður. Ég held það gæti nýst einhverjum ágætlega og mikilvægt að það hýsi ekki enn einn baggann á skattgreiðendum eins og safn eða stofnun. Svo er það Ráðagerði. Mér fannst hreint glapræði af bæjaryfirvöldum að kaupa Ráðagerði fyrir 100 milljónir án þess að nokkuð lægi fyrir hvað ætti að gera við húsið. Ég veit ekki til þess að nokkuð hafi verið ákveðið í þeim efnum enn sem komið er. Ekki heldur bærinn vel á spöðunum í viðhaldi fasteigna almennt svo það það er innantómt hjal að segja að það hafi verið gert til að varðveita húsið. Og svo er það ruslið sem enn er við Bygggarðanna og seint ætlar að takast að losa.“
Verðum að standa fast á að geta komist leiðar okkar
Skafti segir að ekki sé aðeins fallegt umhverfi á Seltjarnarnesi heldur líka skemmtileg byggð og samfélag. „Fólk sækist eftir að búa á Nesinu. Það sést best á fasteignaverðinu. Svo er aðeins um fimm til tíu mínútna ferð inn í miðborg Reykjavíkur. En Reykjavíkurborg er alltaf að þrengja að Seltirningum hvað varðar aðkomu að Nesinu. Mér finnst ekki tekið nægilega fast á þessu af bæjaryfirvöldum. Seltirningar gætu átt eftir að þurfa að greiða vegaskatt til þess að komast af bæ. Það er ekki hægt að útiloka heilt bæjarfélag frá eðlilegum samgöngum. Kannski á eftir að koma sér vel að hafa höfnina í Bakkavörinni ef við þurfum að fara sjóleiðina inn til Reykjavíkur. Ég veit ekki alveg hvert er að stefna í þessum málum en að mínum dómi verðum við að standa fast á réttinum til að komast leiðar okkar út úr bæjarfélaginu. Mikil mistök voru gerð þegar fallist var á breytingu á aðalskipulagi og fallið frá fyrir ætlunum um gögn undir Geirsgötu.“
Heillaðist af John Stuart Mill
Skafti kveðst alltaf hafa verið hægri maður og maður frelsisins eins og hann kýs að orða það. „Ég var á sextánda ári þegar þessi lífsskoðun mín mótaðist og hún hefur lítið breyst síðan. Ég las bókina Frelsið eftir John Stuart Mill oftar en einu sinni á ungdómsárunum og smitaðist af frelsishugsjón hans. Ég sannfærðist um að einstaklingar gætu leyst flest betur en það opinbera. Ég veit að ég hef ákveðnar skoðanir. Kannski jaðarskoðanir að sumra mati. En ég hef aldrei látið pólitík standa í veginum fyrir samskiptum við fólk, kunningsskap eða vináttu. Ég á kunningja og vini sem eru allt annarrar skoðunar. Þetta er eins í íþróttunum. Þótt ég sé grjótharður KR-ingur þá er ég ekki að ónotast við fólk í öðrum félögum. Fjarri því. Maður verður að læra að greina á milli pólitískra skoðana og mannlegra samskipta.“
Ættum að skipta grunnskólanum
Skafti segir að rekstrarvandi hins opinbera komi fram í mörgu. „Við erum til dæmis stöðugt að verja meiri fjármunum til grunnskólans án þess að bæta menntun barnanna. Þá er ég að tala um það almennt en ekki bara á Seltjarnarnesi. Ef ég sný mér að Nesinu þá tel ég að við ættum að skipta grunnskólanum og taka annan þeirra undir einkarekstur. Þá myndi myndast samkeppni og menn færu að gera betur. Ég er að tala um hugmynd eins og unnið er eftir í Garðabæ að fé fylgi barni. Ég er ekki að segja að foreldrar eigi að greiða fyrir skólagönguna.“
Eiðistorgið er vel staðsett og ætti að nýtast betur
Skafti snýr sér að Eiðistorginu. Miðbæ Seltirninga. Hann kveðst sakna þess að ekki virðist hægt að reka meiri verslun og þjónustu á torginu. „Ef til vill er of stutt í Miðborgina og svo hefur verslun og þjónusta verið að eflast í Örfirisey. En Eiðistorgi er vel staðsett og ætti að geta nýst fyrir þjónustustarfsemi.
Þurfum ekki bæjarstjóra í fullu starfi
„Við settum okkar það markmið að hafa gott útsýni þegar við leituðum okkar að stað til þess að búa á Seltjarnarnesi. Við erum á Vesturströndinni og sjáum beint upp í Esjuna og yfir sundin. Konan labbar mikið um nágrennið og sjálfur fer ég einstaka sinnum í göngutúra. Getum kallað þá pólitíska göngutúra. Ég skoða þessi ósköp sem eru áhaldahúsið og lækningaminjasafnshúsið og velti því fyrir mér hvar megi spara í rekstri bæjarins. Ég tel til dæmis að sveitarfélag af þeirri stærð sem Seltjarnarnenesbær er þurfi ekki að vera með pólitískan bæjarstjóra á fullum launum. Við þurfum góðan framkvæmdastjóra, sem jafnframt sinnir fjármálum, og gætum sparað yfir 100 milljónir í stjórnunarkostnað á einu kjörtímabili. Ég er ekki að beina þessu til núverandi bæjarstjóra persónulega þó ég telji hana ekki hafa haldið vel á spilunum. Heldur almennt um hvernig megi lækka kostnað. Pólitísk sjónarmið mín beinast ekki að persónum heldur verkum þeirra og skoðunum. Við eigum öll aðra hlið, og oft mýkri, en þá sem snýr að pólitíkinni. “