Við vonumst eftir að sjá sem flest ungmenni í OKinu

– segir Guðrún Baldvinsdóttir verkefnastjóri hjá Borgarbókasafni –

Fullt af krökkum notfærðu sér aðstöðuna í OKinu á opnunardaginn.

Um 100 ungmenni komu saman í Gerðubergi þegar OKið var opnað. Okið er stórt og metnaðarfullt rými sem eingöngu er ætlað fyrir ungmenni. OKið er á vegum Borgarbókasafnsins sem hlaut 18 milljónir króna úr Barnamenningarsjóði til verksins sem unnið er að norræni fyrirmynd. Í OKinu er rými fyrir ungmenni til að eiga samveru. Þar er hægt að sinna ýmsum áhugamálum, læra, skapa og fikta svo dæma sé getið auk þess einfaldlega að hanga. Rýmið er eingöngu ætlað ungmennum og er lokað fullorðnum og yngri börnum. Mikið stuð var þegar OKið var opnað að sögn Guðrúnar Baldvinsdóttur verkefnastjóra bókmennta. Boðið var upp á fríar pizzur og hamborgara og GDRN kom og skemmti með söng.

Guðrún segir að þessi starfsemi sé einkum byggð á grunni stafrænnar skáldsögu sem heitir Norður og er komin út í íslenskri þýðingu. Sagan byggir á norrænni goðafræði og höfundar hennar eru Camilla Hübbe og Rasmus Maisler. Sagan fjallar um stúlkuna Norður og notfæra höfundarnir sér sameiginlegan menningararf Norðurlandanna. Guðrún segir að í sögunni sé tekist á við stórar spurningar og áskoranir sem blasa við ungmennum í dag, þar á meðal hlýnun af mannavöldum og áhrifin á lífríki jarðar og framtíð. Þá takist sögupersónan einnig á við sjálfa sig og og fari í gegnum þroskaferli sem sé mjög krefjandi um leið og henni er ætlað að bjarga heiminum. Í bókarkynningu sem lesa má á vef Borgarbókasafnsins segir að skáldsagan fjalli um unglingsstelpuna Norður sem elst upp í Danmörku ásamt móður sinni. Undarlegar breytingar eiga sér stað í umhverfinu og brátt er Norður lögð af stað í hættuför niður í Niflheim ásamt íkornanum Ratatoski með aðstoð örlaganornanna Urðar, Verðandi og Skuldar. Á meðan bruggar athafnamaðurinn Sigur launráð á hálendi Íslands og hyggst nýta sjaldgæfa steintegund til að komast út í geim. Á þann hátt nýtir höfundar bókarinnar norrænan menningararf til að fjalla um samskipti manns og náttúru og undir spennandi fantasíu liggja áleitnar spurningar um stöðu okkar gagnvart jörðinni.

Svo er einfaldlega hægt að hanga í Okinu.

Í góðum samskiptum við Fellaskóla

Guðrún segir að höfundar sögunnar þau Camilla og Rasmus hafi komið hingað til lands meðan á undirbúningi að OKinu stóð. Þau hafi meðal annars farið í heimsókn í Fellaskóla en Borgarbókasafnið er í góðum samskiptum við skólann. Fengin hafi verið bekkur í Fellaskóla í heimsókn þegar verkefnið var á byrjunarstigi og þau spurð um hvað þau vildu gera. ”Við erum í samstarfi við kennara og bíðum nú spennt eftir hvort þeir muni koma með bekkina sína í heimsókn.” Guðrún segir ástæðuna fyrir því að neðri aldursmörk hafi veri sett þau að yngri krakkar hafi tilhneigingu til þess að taka rými yfir. Guðrún segir einnig að margar bækur séu til staðar í OKinu. Engin skylda sé þó til lesturs en mörg ungmenni hafi verið að skoða þær á kynningardaginn. Guðrún segir nauðsynlegt að ef eigi að prufa nýjungar þá verði að þreifa sig áfram og finna út hvað henti.

Vonast eftir að sjá sem flest ungmenni 

Nú er byggt á norrænni fræði og bókin er danskrar ættar. Kemur danska eitthvað inn í myndina tungumál sem að því er virðist færri og færri ungmenni tileinka sér. “Við erum að vinna með dönskukennurum og vinnan fer mikið eftir kennurunum sjálfum. Við erum einnig í samstarfi við danska sendiráðið. Við verðum bara að sjá hvernig þetta starf þróast en fyrstu vonir lofa góðu. Þetta er líka mjög jákvætt fyrir Menningarhúsið. Hér er mikið starf á morgnanna og fyrir hádegi en dregur úr því þegar líður á daginn. Þá er tilvalið að fá ungmennin hingað til að notfæra sér þá aðstöðu sem OKið býður upp á. Ég vonast til að eiga eftir að sjá sem flest ungmenni koma hingað og notfæra sér það við höfum upp á að bjóða,” segir Guðrún Baldvinsdóttir verkefnastjóri.

You may also like...