Stelpur rokka komnar í Völvufellið
Stelpur rokka hafa fengið húsnæði við Völvufell í Breiðholti. Stelpur rokka er hópur tónelskra femínista. Hópurinn hefur að undanförnu staðið í ströngu við að innrétta tónleikasal, æfingahúsnæði og aðstöðu. Um er að ræða sjálfboðaliðarekin samtök sem starfa með femíníska hugsjón að leiðarljósi.
Opnunarpartý var haldið í Völvufellinu föstudaginn 17. janúar. Þetta er í fyrsta sinn sem farið er af stað með fjölbreytta heilsársdagskrá fyrir ungmenni á vegum Stelpur rokka. Starfsemin er hugsuð sem hálfgerð félagsmiðstöð þar sem krakkar geta komið, hangið og gripið í hljóðfæri. Staður til til að hangsa, hugsa, tengjast og tjútta. Á vordagskránni verða fjölbreyttar smiðjur, hljómsveitaræfingar, námskeið og félagsmiðstöð – allt ókeypis fyrir ungmenni í hverfinu. Sérstök áherslu verður lögð á kynningu á starfinu fyrir ungmenni sem hafa færri tækifæri til tómstundastarfs en önnur. Það er ein ástæða þess að hópurinn kýs að vera í Breiðholti því rannsóknir sýna að ungmenni þar eru sá hópur sem nýtir sér frístundakortið minnst. Því er lögð áhersla á fjölbreytt en ókeypis tómstundastarf. Hjá Stelpur rokka starfa sjálfboðaliðar með fjölbreyttan bakgrunn sem tala ýmis tungumál.