Vesturbugt fullbyggð innan fjögurra ára
Vonir standa til að hafist verði handa við byggingu íbúða við Mýrargötu 26 eða Vesturbugt á svæði Vesturhafnarinnar í Reykjavík. Er það félagið Kaldalón byggingar hf. sem standa mun að verkinu sem gert er ráð fyrir að kosta muni um 10 milljarða króna.
Kaldalón var stofnað á síðasta ári en í lok október var 1,8 milljarða króna hlutafé lagt í félagið. Gert er ráð fyrr að félagið muni eignast um 80% hlut í verkefninu. Félagið Sundaborg ehf., sem stofnaði Vesturbugt eignarhaldsfélag mun eiga 20% í verkefninu.
Framkvæmdir áttu að hefjast í Vesturbugt um mitt síðasta ár en fjármögnun vegna verkefnisins gekk ekki eftir því viðskiptabanki félagsins Vesturbugtar dró vilyrði fyrir fjármögunum til baka. Reykjavíkurborg veitti þá félaginu sex mánaða frest til viðbótar því sem kveðið var á um í samningum. Á liðnu hausti var gengið til samninga við Kviku banka og ákveðið að bankinn myndi afla framkvæmdafjár til verksins. Gert er ráð fyrir að framkvæmdir taki þrjú til fjögur ár. Verslanir er fyrirhugaðar á jarðhæð ásamt veitinga- og kaffihúsum. Þá er gert ráð fyrir torgi á svæðinu.