Miklar breytingar fyrirhugaðar í hverfiskjörnunum

Umhverfi eins og gert er ráð fyrir við Arnarbakkann að lokinni uppbyggingu.

Miklar breytingar munu verða í hverfiskjörnunum í Breiðholti á næstu árum. Í nýju skipulagi Breiðholts er gert ráð fyrir svo miklum umsvifum að svæðin munu verða nánast óþekkjanleg frá því sem nú er. Ekki þarf að fara mörgum orðum um þá niðurníðslu sem margra ára stöðnum hefur haft í för með sér. Atvinnustarfsemi dróst saman og hvarf sumstaðar að mestu og atvinnuhúsnæði sem ekki var alltaf vandað nægilega vel til í upphafi tók að grotna niður. Þjónustukjarninn við Arnarbakka hefur farið einna verst út úr þeirri hugmyndafræði afskiptaleysis sem lengi ríkti um Breiðholtið.

Hildur Gunnarsdóttir arkitekt og verkefnastjóri hjá umhverfis og skipulagssviði Reykjavíkurborgar kynnti nýlega tillögu að deiliskipulagsbreytingum á Arnarbakka á upplýsingafundi um Hverfiskipulag í Breiðholti. Þar kom m.a. fram að að svæðið við Arnarbakka mun áfram verða að mestu grænt. Hún nefndi dæmi um möguleika þess í heild sinni og hvernig staðsetja mætti nýbyggingarnar í framhaldi af stefnu, hæð og umfangi U-blokkanna á svæðinu og mynda þannig með þeim kjarna fyrir miðju hverfi ásamt því að afmarka græn svæði og mynda nýtt torg.

Nýbyggingarnar þriggja til fjögurra hæða  

Í hinu nýja skipulagi Arnarbakkans er meðal annars kveðið á um að verslun og þjónusta verði í hverfiskjarnanum. Þar er gert ráð fyrir stórri matvöru-verslun og fjölbreyttri verslun og þjónustu sem geti þjónað heilu hverfi. Veitingastaðir verða heimilir og íbúðir verða á efri hæðum bygginga. Í skipulaginu kemur fram að byggingar munu taka mið af núverandi byggð og fléttast áreynslulaust inn í byggðamynstrið. Græn svæði verða betur skilgreind með skýr hlutverk. Bjart og skjólríkt torg mun verða við verslanir til að auka aðdráttarafl. Bent er á að verslun og þjónusta, gróðurhús, matjurtagarðar og íbúðir á stúdentagörðum, sem og aðrar íbúðir, muni verða vinsæl innan og utan hverfis. Skipulagði gengur út á vistvænar ferðavenjur þar sem stutt verður í hágæða almennings-samgöngur og samnýting verður á bílastæðum. Í hönnun er horft til þess að bæta lýðheilsu, hljóðvist og loftgæði. Gert er ráð fyrir að nýbyggingarnar verði þriggja til fjögurra hæða og taki mið af núverandi byggð. Græn svæði verða betur skilgreind með reiti fyrir matjurtaræktun auk þess sem gróðurhúsi til almennra nota verður komið fyrir inn á svæðinu. Íbúðir við Arnarbakka verða alls 65 og skiptast jafnt á milli einstaklings og þriggja herbergja íbúða. Á fyrstu hæð eru verslunar- og þjónusturými auk sameiginlegra rýma námsmannaíbúðanna, sem gert er ráð fyrir að verða að hluta til líka opið almenningi. Fjölbýlið næst Hjaltabakka verður með 25 íbúðum af ólíkum stærðum.

Nýr leikskóli í Fellunum

Fellahverfið mun einnig taka miklum breytingum. Breytingarnar verða við Völvufell, Drafnarfell, Eddufell og Yrsufell. Heimilað verður að rífa leikskólana Litla Holt og Stóra Holt. Í stað þeirra verður byggður nýr leikskóli með aðkomu frá göngugötu við Drafnarfell. Auk leikskóla verða byggðar upp námsmannaíbúðir og sérbýli á grænum þróunarlóðum. Þegar eru fyrir hendi byggingaheimildir á lóð Drafnarfells 2 til 18 og á lóð Eddufells 2 til 4 ofan á hverfiskjarna og eru þær endurskoðaðar samkvæmt uppdrætti KRADS arkitekta.

Íbúðabyggð í Fellunum

Aðalskipulagið gerir ráð fyrir verslun og þjónustu í Fellakjarnanum. Þar verður gert ráð fyrir matvöruverslun auk fjölbreyttrar verslunar og þjónustu fyrir heilt hverfi. Veitingastaðir verða heimilir sem og íbúðir á efri hæðum bygginga.

Íbúðasvæðið í Fellum verður stækkar til suðurs. Byggingar eiga að taka mið af núverandi byggð og fléttast inn í byggðamynstrið. Samtals er nú heimild til að byggja 37 íbúðir á efri hæðum Fellagarða. Gert er ráð fyrir nýjum 10 deilda leikskóla við Fellagarða auk fjölskyldumiðstöðvar eða fjölnotahúsi í Völvufelli 45 sem verður hluti af sameiginlegum rýmum námsmannagarða. Við Völvufell 37 og 43 er heimild til að byggja tveggja til fimm hæða fjölbýlishús með 90 einstaklings og fjölskylduíbúðum fyrir námsmenn. Einnig er heimild til að byggja tímabundin leikskóla á lóðinni, sem víkur fyrir námsmannaíbúðum þegar nýr sameinaður leikskóli verður byggður. Syðst á svæðinu er gert ráð fyrir fjórum lóðum þar sem heimilt verður að byggja sex raðhús með einni eða tveimur íbúðum í hverju húsi. Raðhúsin eru hluti af grænum þróunarlóðum borgarinnar.Matjurtarækt muni verða á borgarlandi á milli lóða og sameiginlegt leiksvæði fyrir miðju.

Sumarstemning eins og hönnuðir sjá Fellagarða fyrir sér í framtíðinni.

You may also like...