Stanslaust stuð á Safnanótt bókasafnsins
– fólk skemmti sér konunglega –
Margt var um manninn á Safnanótt Bókasafns Seltjarnarness föstudaginn 7. febrúar. Á bilinu 200 til 300 manns tóku þátti í viðburðinum. Fólk virtist skemmta sér hið besta og staldraði lengi við enda afar metnaðarfull og þétt dagskrá í boði.
Gleðin skein úr hverju andliti þegar að söngleikhópurinn Tónafljóð söng og lék þekktustu Disney-lögin og krakkarnir. Spennan magnaðist svo bara þegar að Jón Víðis sýndi stórkostleg töfrasýningu og hreif börnin með sér um töfraheima. Margir krakkar voru snöggir að bjóða Jóni fram aðstoð sína við töfrabrögðin sem skapaði bæði mikla undrun og kátínu hjá þeim og áhorfendum. Í framhaldi af töfrasýningunni bauð Jón upp á töfrasmiðju og kenndi þeim sem vildu alls kyns töfrabrögð.
Unga fólkið tók svo völdin á sviðinu og heillaði gesti með fallegum söng og hljóðfæraleik. Fyrst var það Þór Ari Grétarsson sem tók tvö falleg lög en síðan hljómsveitin Skelin Dion sem var líka alveg frábær. Einstakt tríó tróð svo upp þegar að líða tók á Safnanótt en það var skipað tveimur fyrrverandi bæjarlistamönnum þeim Ara Braga Kárasyni og Friðriki Karlssyni ásamt Þorbergi Skagfjörð. Þeir spiluðu mjög svo hressandi Latin og Bossanóva tónlist.
Allt kvöldið var boðið upp á fjölbreytt Disney-fjör í barnadeildinni og horfa á Mikka mús teiknimyndir. Sýningar voru í gangi í barnadeildinni og í Gallerí Gróttu. Um kvöldið var ennfremur hægt að taka þátt í ratleik, getraun og spila bingó við miklar vinsældir gesta enda fjöldi vinninga í hverri umferð. Enginn þurfti að verða svangur á Safnanótt því boðið var upp á pylsur, ávexti og drykki.
Safnanóttin þetta árið var virkilega vel heppnuð og skemmtileg en um er að ræða árlegan viðburð og hluti af Vetrarhátíð á höfuðborgarsvæðinu sem er sífellt að festa sig betur í sessi.