Fjölmennasta íbúðarhús landsins tekið í notkun
Stærsti stúdentagarður á Íslandi og jafnframt fjölmennasta íbúðarhús á landinu á einu húsnúmeri hefur verið tekinn í notkun. Stúdentagarðurinn nefnist Mýrargarður er í eigu Félagsstofnunar stúdenta og er á svæði Vísindagarða Háskóla Íslands. Húsið stendur við Sæmundargötu 21 og er um 14.000 fermetrar að stærð á fimm hæðum. Þar eru 244 leigueiningar fyrir barnlaus pör og einstaklinga. Rými fyrir tæplega 300 manns.
Í stúdentagarðinum er boðið upp á nýtt íbúðarform sem stendur saman af átta til níu íbúðum í kjarna. Þar búa einstaklingar eða vinahópar saman í átta og níu herbergja íbúðum. Herbergin eru með sér baðherbergjum en fullbúnum eldhúsum og setustofum er deilt. Með byggingu hins nýja stúdentagarðs og öðrum aðgerðum hefur Félagsstofnun stúdenta tekist að vinna talsvert á löngum biðlistum eftir plássi. Frá árinu 2013 hefur leigueiningum fjölgað sem nemur um 645. Alls eru um 1.450 leigueiningar sem hýsa stúdenta og fjölskyldur þeirra. Félagsstofnun stúdenta hefur nú náð að byggja allt að helming þeirra leigueininga sem stefnt er á að byggja á næstu árum.
Dagur B. Eggertsson borgarstjóri segir að á fyrstu 100 árum frá stofnun háskólans eða fram til 2011 hafi verið um 700 stúdentaíbúðir. Á síðustu árum hafi tekist að tvöfalda þann fjölda og miklu meira sé framundan. Þarna hafi Félagsstofnun stúdenta tekist að skapa samfélag stúdenta þar sem allir eru með og Mýrargarður er frábært dæmi um það. Jón Atli Benediktsson, rektor Háskóla Íslands segir að Mýrargarður sé glæsilegur og mikil lyftistöng fyrir okkur öll .