Skólar í Breiðholti hlutu hvatningarverðlaun

Frá afhendingu hvatningarverðlaunanna í Hörpu.

Hvatningarverðlaunin til grunnskóla voru afhent á Öskudagsráðstefnu grunnskólakennara í Hörpu á dögunum en hátt í sex hundruð kennarar voru þar mættir til að fræðast um og ræða loftslagsvandann, sjálfbærni, útinám og leiðir til að vinna með loftslagskvíða.  

Seljaskóli hlaut hvatningaverðluna fyrir verkefnið Bangsagistipartý og Bókaskjóður á skólabókasafninu. Dröfn Vilhjálmsdóttir bókasafnsfræðingur á heiðurinn af því skemmtilega verkefni en hún hefur farið óhefðbundnar leiðir að því að efla yndislestur. Yngri nemendum var boðið að koma með bangsana sína í gistipartý á skólasafninu þar sem bangsarnir upplifðu ýmislegt sem var skráð og myndað. Dröfn hefur einnig útbúið 40 veglegar bókaskjóður með bókum og fylgihlutum með það að markmiði að efla lestraráhuga og orðaforða nemenda.

Ölduselsskóli fékk hvatningarverðlaun fyrir verkefnið Símalaus skóli, en hann er fyrsti skólinn í borginni sem náði því markmiði. Í umsögn dómnefndar segir m.a. að allt skólasamfélagið hafi sameinast um að gera Ölduselsskóla að símalausum skóla og hafi nemendur verið virkjaðir í að finna áhugaverð og skemmtileg viðfangsefni í staðinn fyrir að vera í símunum í frímínútum.

Fjórir aðrir hlutu verðlaun

Fjórir aðrir grunnskólar fengu sérstaka viðurkenningu; Ártúnsskóli fyrir verkefnið Útinám og umhverfisfræðsla og Breiðholtsskóli, Fellaskóli og Hólabrekkuskóli fyrir samstarfsverkefnið Allir brosa á sama tungumáli. 

Að þessu sinni bárust 20 tilnefningar til hvatningarverðlauna skóla- og frístundaráðs og þykir fjöldi þeirra bera merki um þá miklu grósku sem er í skólastarfi í borginni. 

You may also like...