Nýir boltavellir við Vesturbæjarskóla
Nýir boltavellir og leiksvæði með trampólínum og pókóvöllum koma við Vesturbæjarskóla í sumar. Borgarráð hefur heimilað umhverfis- og skipulagssviði að bjóða út framkvæmdir við annan áfanga vegna endurgerðar og stækkunar lóðar við Vesturbæjarskóla.
Áður hafa farið fram gagngerar endurbætur á skólalóðinni þegar áfangi eitt var framkvæmdur í fyrrasumar. Í þeim áfanga var gengið frá lóð við nýja viðbyggingu skólans, ný leiktæki og rólur sett upp, auk yfirbyggðs hjólaskýlis og vistlegra útivistarpalla úr tré. Þá var hellulögn endurnýjuð í kringum skólann. Í öðrum áfanga verður lóðin stækkuð í samræmi við samþykkt deiliskipulag og komið fyrir nýrri gönguleið á milli Hringbrautar og Ásvallagötu. Gerðir verða nýir boltavellir og leiksvæði á gervigrasi, ný hvíldar- og útikennslusvæði ásamt pókó- og trampólíngörðum. Einnig verður komið fyrir setbekkjum, leikpöllum og nýjum gróðurbeðum á lóðinni. Þess má geta að enginn fótboltavöllur með gervigrasi er í þessum hluta Vesturbæjar. Framkvæmdir eru áætlaðar sumarið 2020 og kostnaður er áætlaður 90 milljónir króna.