Reisugilli hjá ÍR

Eins og sjá má er bæði hátt til lofts og vítt til veggja í hinu nýja íþróttamannvirki.

Stórum áfanga en náð í byggingu nýs íþróttamannvirkis ÍR við Skógarsel. Allar stálsperrur eru nú komnar á sinn stað og því var tilefni til að halda reisugilli í húsinu 23. júní sl. Viðstaddir voru fulltrúar frá aðalstjórn ÍR ásamt byggingaraðilum og fulltrúum frá Reykjavíkurborg. Uppsteypa er langt komin og hafin er vinna við ytra, og innra byrði hússins. Framkvæmdir hafa gengið vel hingað til og er allt enn samkvæmt áætlun. Áætluð verklok eru næsta vor 2022. 

 Framkvæmdir á ÍR-svæðinu hafa staðið yfir í nokkur ár. Þegar Suður-Mjódd var deiliskipulögð í heild sinni var afnotasvæði ÍR afmarkað sérstaklega og jafnframt gengið frá fyrirkomulagi svæðisins í heild sinni er tekur til stíga, gróðurs, bílastæða og mannvirkja sem gert er ráð fyrir að rísi á næstu árum. Verkefnið hófst með undirritun samnings Reykjavíkurborgar og ÍR um uppbyggingu og rekstur íþróttamannvirkja í Breiðholti þann 30. janúar 2017. Þegar hefur þjónustuhús risið við frjálsíþróttavöllinn. Reykjavíkurborg hefur reist knatthús sem ÍR mun reka samkvæmt sérstökum rekstrarsamning. Þá má nefna íþróttahús með löglegum handknattleiks- og körfuboltavelli fyrir æfingar og keppnir á vegum ÍR ásamt viðbyggingum vegna búningsklefa og bættrar félagsaðstöðu fyrir félagið, auk endurbóta á núverandi félagsheimili. Að endingu má nefna fimleikahús ásamt aðstöðu fyrir bardaga- og dansíþróttir.

You may also like...