Friðlandið Grótta
Að gefnu tilefni vill umhverfisnefnd Seltjarnarness ítreka að ferðabann um friðlandið við Gróttu stendur frá 1. maí – 15. júlí ár hvert en utan þess tíma er svæðið öllum opið. Landverðir frá Umhverfisstofnun gæta friðlandsins í sumar en í gegnum tíðina hefur ferðabannið ítrekað verið virt að vettugi með neikvæðum áhrifum á fuglalífið. Notkun fjarstýrðra loftfara (dróna) á varptíma er ekki æskileg. Lausaganga hunda er bönnuð á Seltjarnarnesi og gildir hundabann í Gróttu allt árið. Óheimilt er að vera með hunda á vestursvæðunum á varptíma og eru kattaeigendur hvattir til að setja á ketti sína bjöllu og halda þeim innandyra þar til varptími er yfirstaðinn. Vert er að vekja athygli Seltirninga á því að gefa ekki fuglum við Bakkatjörn brauð á sumrin þegar ungar eru að komast á legg þar sem það getur orðið þeim að aldurtila vegna afráns. Við hvetjum jafnframt bæjarbúa til að huga að umhverfinu og tína upp rusl í bæjarlandinu. Göngum vel um friðlandið og forðumst eftir fremsta megni að trufla fuglalífið.
Hannes Tryggvi Hafstein
Formaður umhverfisnefndar