Þau flytja til Íslands til að eiga betra líf

Pidsinee Dísa Einarsdóttir.

Þjónustumiðstöð Breiðholts hefur nú ráðið sex sendiherra sem hafa það hlutverk að miðla upplýsingum til erlendra hópa í Breiðholti. Hver sendiherra er fulltrúi síns menningar- og málhóps, sér um upplýsingamiðlun til þeirra og að koma þeirra skoðunum á framfæri. Þetta verkefni hefur þroskun lýðræðis að leiðarljósi og sér um að tryggja að erlendar fjölskyldur og einstaklingar hafi rödd og geti tekið virkan þátt í samfélaginu. 

En hverjir eru sendiherrarnir og hvaðan koma þeir? Blaðamaður Breiðholts settist niður með einum nýju sendiherranna, Pidsinee Dísu Einarsdóttur.  

Sendiherra taílenskumælandi er Pidsinee Dísa Einarsdóttir. Hún fæddist í Taílandi og ólst upp í borg sem heitir Nong Bua Lum Phu. Hún flutti til Íslands þegar hún var ellefu ára gömul. Pidsinee er lærður viðskiptafræðingur, hefur unnið sem markaðs- og verkefnastjóri en sinnir nú starfi sem kynningarfulltrúi á Fjölskyldumiðstöðinni í Gerðubergi. Einnig hefur hún umsjón yfir hópi sem hún stofnaði, þar sem hún þýðir viðburði og fréttir yfir á taílensku í frítíma sínum, fyrir þau sem þurfa á því að halda.  

Pidsinee kom til Íslands sem barn og lagði strax áherslu á að læra íslensku í grunnskóla. Hún segir frá reynslu sinni af því að læra tungumál sem er gjörólíkt móðurmálinu. Hún tekur sem dæmi að þátíð er ekki notuð í taílensku. „Þegar ég byrjaði í grunnskóla var ég sú eina sem var af erlendum uppruna. Það hjálpaði mér mikið við að læra íslenskuna, því ég þurfti að tala við bekkjarfélaga mína og hafði enga aðra leið til þess að bjarga mér en að vera með þeim í hópnum,“ segir Pidsinee.

„Markmiðið er að heyra í fólkinu“ 

Aðspurð um markmið sendiherraverkefnisins segir Pidsinee frá mikilvægi þess að upplýsa fólk um réttindi sín og hvaða þjónusta er í boði fyrir þau: „Markmiðið er að heyra í fólkinu. Það er ekki bara íslenska töluð í samfélaginu, það eru fullt af öðrum málum, mismunandi bakgrunnur og menning. Við verðum líka að heyra í þeim og láta þau vita að þessi þjónusta er í boði fyrir þau.“ Hún segir að það sé margt fólk sem kann ekki tungumálið og veit ekki um reglurnar eða réttindi sín. Þau skorti þekkingu og tungumálið geti líka oft verið mikil hindrun hvað það varðar. „Einnig vil ég vera sýnileg svo að þau geti leitað til mín ef þau vantar aðstoð,“ bætir hún við. 

Þurfa að þekkja réttindi sín

Hvað var það við sendiherraverkefnið sem vakti áhuga? spyr blaðamaður.

„Ég get nýtt mér móðurmálið enn betur, ég kann taílensku og veit að það eru margir Taílendingar sem búa í Breiðholti, og í Reykjavík almennt. Talandi út frá minni eigin reynslu, þá hafa þau ekki næga þekkingu og vita ekki nóg um réttindi sín,“ svarar Pidsinee. Auk þess segir hún að í sendiherrahlutverkinu fái hún tækifæri til að nýta sinn bakgrunn til að hjálpa sínum samlöndum: „Og mér finnst að út frá mínum bakgrunni og með mína tungumálakunnáttu, geti ég dreift upplýsingum og einnig aflað upplýsinga frá þeim, sem ég kem síðan áleiðis til réttra aðila. Ég læt vita hvaða vandamál þau eru að takast á við og hvað vantar í samfélaginu fyrir þennan hóp,“ bætir Pidsinee við.

Blaðamaður spyr svo hvað felst í hlutverki sendiherra. „Það felst í þessu mikil ábyrgð,“ svarar Pidsinee. „Ég hjálpa fólki að þýða, þeim að kostnaðarlausu, og ef þig vantar hjálp er alltaf hægt að leita til mín. Mig langar líka, og hef verið að reyna, að hvetja Taílendinga til að sækja sér menntun.“ Samkvæmt Pidsinee eru mjög fáir Taílendingar sem útskrifast úr háskóla, eða færri en tíu manns. Og fólk af taílenskum uppruna kýs frekar að fara á atvinnumarkaðinn heldur en að fara í nám. „Það er það sem mig langar að gera, hvetja fólk til að fara í skóla, læra íslensku og betrumbæta sitt líf. Því þau flytja til Íslands til að eiga betra líf,“ upplýsir hún.

Áhersla á aðlögun og miðlun upplýsinga

Spurð út í hvernig sendiherraverkefnið hefur gagnast fólki af taílenskum uppruna segir Pidsinee frá auknum áhuga á því sem er í boði: „Þau svara könnunum sem ég sendi þeim og hafa samband við mig um hvort ég geti þýtt fyrir þau eða þau vantar eitthvað og ég get bent þeim á réttan stað eða aðila.“ Hún bætir við að nauðsynlegt sé að afla sér upplýsinga þegar fólk flytur í nýtt land og það sé einmitt einn tilgangur af mörgum í sendiherraverkefninu. „Fólk þarf meiri skilning á íslensku samfélagi og hvernig það virkar, en ekki stöðugt að bera það saman við Taíland. Það þarf að leggja meiri áherslu á aðlögun og miðla upplýsingum,“ segir Pidsinee. 

Hún tekur skemmtilegt dæmi um muninn á menningu Íslands og Taílands, og segir frá hvernig það var að koma hingað til lands og aðlagast: „Mamma mín hélt áfram að hugsa eins og Taílendingur þegar við fluttum til Íslands. Í Taílandi máttu til dæmis ekki fara út úr húsi eftir klukkan sex síðdegis. Það tók dálítinn tíma fyrir hana að skilja að það væri allt í lagi hér fyrir börnin að fara út eftir þann tíma. Það var menningin sem spilaði þarna inn í og hvernig mamma ólst upp. Hún skildi ekki alveg hvernig foreldrar hérna ólu upp börnin sín. En eftir einhvern tíma þá fór hún að skilja það. Hún kom heil á húfi eftir að hafa farið út eftir klukkan sex.“

Samfélagsmiðlar og facbookhópurinn

Hvernig myndaðir þú gott tengslanet til að geta miðlað upplýsingum til þíns hóps? spyr blaðamaður.

„Ég nota samfélagsmiðla mjög mikið,“ segir Pidsinee. „Til dæmis nota ég facebook hópinn | Thai people in Iceland, sem ég stofnaði sjálf, og þýði fréttir sem ég set síðan inn daglega.“ Hún bætir við að Taílendingar hérlendis fái oftar en ekki fréttirnar sínar í gegnum samfélagsmiðla, og þá sérstaklega Facebook. Þannig vita þau hvað er í gangi á Íslandi. „Þess vegna nota ég Facebook mjög mikið til að ná til fólks og einnig til að fá þau til að taka kannanir.“ 

Hvað er efst í huga

Aðspurð um málefni sem er efst í huga hennar, segir Pidisnee að nauðsynlegt sé að leggja aukna áherslu á íþrótta- eða tómstundaiðkun meðal taílenskra barna. Það er eitthvað sem henni langi að vinna að í framtíðinni. „Það eru margir Taílendingar sem eru ekki að senda börnin sín í íþróttir eða tómstundir. Ef þú æfir utan skóla, þá ertu að hitta fólk frá öðrum skólum. Sem getur reynst gagnlegt fyrir framtíð á Íslandi, og getur hjálpað þér í atvinnuleit seinna meir. Að búa yfir góðu tengslaneti er mikilvægt. Ég vil að fólk sé meðvitað um frístundirnar sem eru í boði og um frístundakortið. Þetta kostar mjög lítið fyrir foreldra.“

Bind miklar vonir við tenginguna

En hvaða vonir gerir þú þér um sendiherraverkefnið og framtíð þess? spyr blaðamaður.

„Við erum að vona að geta haldið kynningardag uppi í Fjölskyldumiðstöðinni í Gerðubergi svo við getum hitt alla sem eru áhugasamir, kynnt verkefnastjóra og mig sem sendiherra. Þá höfum við tækifæri til að láta þau vita að hægt sé að leita til mín eða verkefnastjóra og þjónustumiðstöðvar,“ svarar Pidsinee. Hún segir að í menningu Taílendinga sé ekki algengt að spyrja þegar fólk vantar upplýsingar: „Það er mikil vinna fólgin í að leita að upplýsingum í nýju landi og þau vilja frekar sleppa því að spyrja heldur en að gera það. Þau þurfa að hitta einhvern sem þau hafa tengingu við til þess að geta spurt.“ Í lokin segir Pidsinee að hún bindi miklar vonir við að það takist að skapa enn betri tengingu milli menningarhópa og stofnana með þessu verkefni. 

Þórhildur Vígdögg Kristínardóttir

Frá Bangkok í Taílandi.

You may also like...