Skipulag tvívegið fellt úr gildi

– málið virðast enn á byrjunarreit –

Dunhagi 18. Myndin er tveggja ára gömul. Frá þeim tíma hefur húsið látið enn meira ásjá. 

Stórt hús við Dunhaga 18 til 20 liggur undir skemmdum. Húsið var reist 1959 og hefur staðið nánast ónotað um árabil. Húsið er á þremur hæðum. Á jarðhæð þess er um 600 fermetra verslunarrými. Á efri hæðum eru fjórar íbúðir á bilinu 93 til 130 fermetrar. Áður fyrr voru verslanir og þjónustufyrirtæki á jarðhæðinni. Má þar meðal annars nefna Skóstofuna, mjólkurbúð, Jóa byssusmið, fisksölu og nú síðast Háskólaprent.

Húsið komst í hendur núverandi eigenda sumarið 2009 og hefur því lítið sem ekkert verið haldið við síðan þá. Ástand þess mun hafa versnað stöðugt og mest á nýliðnum árum. Ástæður þess að ekkert hefur gerst má rekja til skipulagsferlis sem staðið hefur frá 2017. Þá sóttust eigendur Dunhaga 18 og 20 eftir heimild til að byggja inndregna hæð ofan á núverandi fjölbýlishús, nýtt lyftuhús og viðbyggingu á einni hæð auk kjallara og fyrir aftan húsið. Einnig að fjölga íbúðum úr átta í 20 auk þess sem opna átti stórmarkað. Úrskurðarnefndin taldi að framkvæmdirnar fælu í sér umtalsverð frávik frá byggðamynstri svæðisins að breytingin hefði þurft að eiga sér stoð í deiliskipulagi.

Útsýni til Reykjaness myndi skerðast

Í kærum íbúa kemur fram að í grenndarkynning sem farið hafði fram væri ólögmæt þar sem hún hefði eingöngu náð til íbúa sunnan Hjarðarhaga. Ekki hefði verið tekið tillit til þess að úr íbúðum norðan götunnar væri útsýni til Reykjaness sem myndi skerðast með tilheyrandi rýrnun lífsgæða íbúa og verðgildis íbúðanna. Íbúarnir bentu einnig á að umferð myndi aukast til muna með fjölgun íbúða og komu stórmarkaðs sem bætti á þann skort bílastæða sem þegar væri til staðar. Stækkun kjallara yrði erfið framkvæmd þar sem húsin væru byggð á klöpp og mögulega þyrfti að sprengja fyrir stækkuninni. Nefndin sagði í úrskurði sínum að Dunhagi 18 til 20 sé skilgreindur sem nærþjónustukjarni. Þar sé heimilt að vera með minni matvöruverslanir, bakarí, fiskbúðir og annað til daglegra þarfa innan hverfa. Þá geti íbúðir verið á efri hæðum viðkomandi bygginga.

Byggingarleyfi tvívegis fellt úr gildi

Byggingarleyfið sem veitt var fyrir þeirri framkvæmd var kært til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála sem felldi það úr gildi. Á vegum Reykjavíkurborgar fór þá af stað vinna við deiliskipulag og lauk henni með auglýsingu í Stjórnartíðindum í júlí í fyrra. Það skipulag var einnig kært og felldi nefndin það úr gildi í mars 2020. Á þessum tímapunkti voru því nærri þrjú ár liðin frá upphaflegri umsókn um byggingarleyfi og málið enn á byrjunarreit.

Eigendahópurinn

Eigandi hússins er D18 ehf. Eigendur D18 ehf. eru samkvæmt fyrirtækjaskrá meðal annarra Magnús Magnússon og Guðrún Helga Lárusdóttir. Magnús fór fyrir eigendahópi Borgunar og var forsvarsmaður eignarhaldsfélagsins Borgunar. Í hópi eigenda eignarhaldsfélagsins Borgunar er Stálskip ehf. Stálskip ehf. er fjárfestingarfélag Guðrúnar Helgu Lárusdóttur og barna hennar. Guðrún er jafnframt eigandi þriðjungshlutar í D18 ehf.  

Hæg stjórnsýsla og kæruleiðir

Ekki liggur ljóst fyrir hvar málið er statt í dag. Nágrannar eru orðnir óþreyjufullir um að eitthvað fari að gerast. Í dag er húsið vanrækt. Áætlanir eiganda um viðbyggingu og aðrar endurbætur hafa ekki fengist samþykktar. Málið virðist enn á byrjunarreit stjórnsýslu borgarinnar og endalausra að því er virðist kæruleiða sem verða til þess að úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála telur sér skylt að hafna framkvæmdum. Að undanförnu hefur hópur Rúmena sem hér eru við vinnu hafist við í húsinu. Þeir munu vinna fyrir starfsmannaleiguna Ztrongforce ehf. Þeir hafa verið þar um einhverja hríð en vegna ástands hússins hefur ekki þótt forsvaranlegt að innheimta leigu.

You may also like...