Þetta varð meira flakk en við höfðum hugsað okkur
– Sigríður Björg Guðjónsdóttir ríkislögreglustjóri og séra Skúli Ólafsson sóknarprestur í Neskirkju spjalla við Vesturbæjarblaðið –
“Ég er ættuð af Bráðræðisholtinu. Sigurður Þorsteinsson langafi minn og Gróa kona hans bjuggu í litlum steinbæ sem stendur enn niður við sjóinn. Þau eignuðust ellefu börn og á þessu þrönga heimili var alvöru stássstofa sem jafnan var lokuð. Hann var útgerðarmaður og gerði út bátinn Aðalbjörgina. Þessi útgerð er til enn en hún ber annað nafn. Sú sem rekur ættir sína í steinbæ á Bráðræðisholtinu er Sigríður Björk Guðjónsdóttir ríkislögreglustjóri og bætir við að hún sé Þingeyingur í hina ættina. „Góð blanda,” segir séra Skúli Sigurður Ólafsson sóknarprestur í Neskirkju eiginmaður hennar um leið og hann hellir kaffi í bolla fyrir komumann að morgni til í Vesturbænum á dögunum. Þau Sigríður Björk og Skúli eiga viðburðaríkt líf að baki og hafa búið á ýmsum stöðum þar sem þau hafa fengið verk að vinna. “Við höfum elt hvort annað þangað til að við erum orðin staðföst í Vesturbænum,” segir Skúli. Sigríður Björk tekur undir þetta á meðan hún sinnir ungu barnabarni sem er í pössun hjá ömmu og afa.
Þau segjast alltaf hafa ætlað að búa í Reykjavík en atburðarásin hafi orðið önnur. “Við hófum búskapinn á Bergstaðastræti en fluttum svo á Flókagötu. Árið 1995 hófst flakkið. Við fluttum fyrst til Kaupmannahafnar, þar sem Sigríður Björk lagði stund á framhaldsnám í lögfræði og ég lauk mínu námi við háskólann og prestaskólann. Við fluttum til Kaupmannahafnar með frumburðinn okkar, hana Ebbu Margréti.
Skrifaði útfararræðu um sprelllifandi bilvélavirkja
Dvölin þar syðra var lífleg og þau lýsa því að munurinn á menningu þessara frændþjóða hafi birst stundum á óvæntan hátt. Skúli nefnir sem dæmi þegar hann var í prestaskólanum og nemendur áttu að skrifa líkræður. „Flestir voru þeir í starfsþjálfun í dönskum kirkjum og gátu því tekið þátt í útförum. Sjálfur var ég ekki í þeirri stöðu svo ég notaði fyrirmynd af ágætum bifvélavirkja af íslenskum ættum sem ég hafði leitað til og notaði hann sem grunn í textann minn. Hann var vitaskuld snarlifandi. Og ég taldi að mér hefði tekist nokkuð vel til. Þegar kom að því að fara yfir ræðurnar kom eitt og annað fram. Okkur var víst uppálagt að ræða sem minnst um æviferil þess sem kvaddur var en raunin var öll önnur í mínu tilviki. Nemendur áttu að gagnrýna textann minn en byrja á jákvæðum nótum. Það sló því þögn á hópinn, fólki datt augljóslega ekkert í hug. Loks sagði ein stúlka í hópnum eitthvað á þessa leið: “þetta er eins og í Íslendingasögunum”. Hún hafði greinilega kynnst þeim eitthvað og átti við frásagnir af ættum og ýmsu úr lífshlaupi viðkomandi. Svo gátu þeir gagnrýnt mig fyrir langlokuna. Mögulega hitti hún naglann á höfuðið og þessi íslenska hefð að rekja lífshlaup samferðafólks í útförum kann að eiga þessi upptök.“
Skattstjóri á Vestfjörðum
Við fluttum svo aftur heim að loknu námi og skömmu síðar var Sigríður skipuð skattstjóri á Vestfjörðum. “Þá var ekki um annað að gera en flytja vestur á Ísafjörð. Við höfðum aldrei búið utan höfuðborgarinnar og því var þetta ný reynsla fyrir okkur. Við bjuggum þar í tveimur lotum ef svo má segja. Sú fyrri hófst haustið 1996.” Sigríður Björk segir að á þessum tíma hafi verið unnið að því að tölvuvæða skattinn. „Það gekk á ýmsu. Breytingarnar lögðust misjafnlega í fólk. Tæknin var líka stundum að stríða okkur sem vorum að vinna við þetta. Allt hafðist þetta þó og eftir á held ég flestir séu löngu sáttir við þessa breytingu.”
Aðstoðarprestur í skugga snjóflóða
Skúli sinnti þar kennslu en var svo vígður aðstoðarprestur eins og það hét þá, við Ísafjarðarprestakall. Hann segir samfélagið á þeim tíma hafi verið í sárum eftir snjóflóðin í Súðavík og á Flateyri og margir áttu um sárt að binda auk þess sem atvinnulífið hafði orðið fyrir miklum skakkaföllum. „Við skynjuðum það um leið hvernig fólk mætti mótlætinu og leitaðist við að sækja sér styrk þar sem hann var að fá. Þar skipaði kirkjan vissulega ákveðinn sess en því má ekki heldur gleyma hversu auðugt lista- og menningarlíf er á svæðinu. Það hafði ekki lítið að segja þegar kom að því að blása krafti í fólk. Á þessum árum kynntumst við mörgu góðu fólki,” segir Skúli og bætir við að miðlungur þeirra, Ólafur Þorsteinn, hafi fæðst á Ísafirði.
Nú varð ég að elta hann
“Einn daginn sagði Skúli að nú yrði ég að elta sig,“ segir Sigríður Björk. Næsti viðkomustaður okkar var í Gautaborg. Hann hafði fengið embætti sem prestur Íslendinga í Svíþjóð með aðsetur í Gautaborg. Þetta var vorið 2000 og við tók erilsamt starf með miklum ferðalögum. Íslendingar búa víðsvegar í þessu víðfeðma landi, flestir á Stokkhólmssvæðinu, niður á Skáni og auðvitað í Gautaborg. „Ég var mikið á ferðinni. Lestaferðirnar voru margar. En það var mjög gaman og gefandi að fást við þetta,” segir Skúli. Sigríður Björk tekur við. „Ég var verkefnalaus til að byrja með og það hentaði mér ekki til lengdar. Ég setti því undir mig hornin og fór í nám í Evrópufræðum í Lundi. Ég þurfti að vakna klukkan fimm á morgnana og taka lestina frá Gautaborg til Lundar flesta virka daga. Svona gekk þetta til í tvö ár en þá fór ég og börnin heim. Skúli var eitt ár til viðbótar í Svíþjóð en elti mig svo heim.”
Aftur á Ísafjörð
Árið 2002 var Sigríður Björk skipaður sýslumaður á Ísafirði. Þá tók við seinni Ísafjarðarlotan. “Ég naut góðs af að hafa kynnst byggðinni og mannlífinu eftir að hafa búið þar og sinnt öðru opinberu embætti. Þarna var ég farin að starfa sem umboðsmaður ríkisvaldsins og eitt af því sem ég kynntist í starfinu var lögreglan. Á þessum tíma fékk ég áhuga á lögreglumálum sem hefur fylgt mér og mótað starfsferli minn að miklu leyti síðan.
Árin í Keflavík
Á árinu 2006 urðu enn breytingar á lífi Sigríðar Bjarkar og Skúla. Hann fékk veitingu fyrir starfi sóknarprests við Keflavíkurkirkju. Hann segir nokkur læti hafa orðið af því í sókninni því sá er sótti á móti honum en þjónaði einnig við kirkjuna var ósáttur. „Þetta jafnað sig smám saman og andrúmsloftið batnaði. Skúli segir að á prestskaparárum sínum hafi hann farið í gegnum erfiða tíma með Keflvíkingum. “Efnahagshrunið 2008 bitnaði hart á íbúum Suðurnesja og atvinnuleysi var mikið. Við nutum einstakra sjálfboðaliða í kirkjunni og störfuðum af krafti til uppbyggingar. Við styrktum fjölda barna jafnvel á hverum degi með mat og buðum upp á heitar máltíðir í kirkjunni. Þá endurnýjuðum við kirkjuskipið með miklum myndarskap undir stjórn Páls V. Bjarnasonar arkitekts en hann er borinn og barnfæddur Keflvíkingur. Ég hafði mikla ánægju af að starfa með Keflvíkingum og á góðar minningar þaðan. Þar fæddist yngsta barnið okkar, Guðjón Ingi.”
Aftur að elta eiginmanninn
„Ég varð að elta eiginmanninn á nýjan stað. Þó ekki til Svíþjóðar heldur Keflavíkur. Ég var þá komin inn í löggæslumálin eftir störfin fyrir vestan og gegndi stöðu aðstoðarríkislögreglustjóra til ársins 2009 er ég tók við lögreglustjóraembættinu á Suðurnesjum. Starfið í Keflavík var fremur hefðbundið. Verkefnin eru lík frá einu umdæmi til annars þótt samfélögin séu nokkuð mismunandi.“
Lögreglustjórar færðir til
En svo gerist það að lögreglustjórar voru færðir til. Ég var flutt til Reykjavíkur. Ólafur Helgi Kjartansson sem starfað hafði á Suðurlandi var fluttur í minn stað til Keflavíkur og fleiri tilfærslur áttu sér stað. Við vorum þá með lítið barn og erfitt fyrir fjölskylduna að fara að búa á tveimur stöðum. Þá þurfti Skúli að fara að elta mig,” segir Sigríður Björk.
Vart er hægt að hugsa sér betri kirkju
“Þarna varð ég að klóra mér í höfðinu,” segir Skúli. “Það eru vitaskuld mörg góð brauð á höfuðborgarsvæðinu og á þeim tíma var ég búinn að ljúka doktorsritgerðinni sem ég hafði byrjað allmörgum árum áður. Ég sótti um nokkur brauð en aðrir umsækjendur reyndust hlutskarpari. Það átti þó eftir að vera gæfa mín því ég fékk náð fyrir augum valnefndar í Nessókn árið 2015. Vart er hægt að hugsa sér betri kirkju að þjóna við. Aðstaðan og samstarfsfólkið eru eins og best verður á kosið. Þá er kirkjan með myndlistarsal og það er ein skemmtileg vídd í þjónustunni að eiga samskipti við listafólk sem undirbýr og setur upp sýningar.
Nú get ég gengið í vinnuna
Ég tók við prestsembætti af sr. Sigurði Árna Þórðarsyni eftir að hann fór yfir í Hallgrímskirkju. Það var svo árið 2016, eftir að sr. Örn Bárður Jónsson sóknarprestur réðist til þjónustu við aðra Neskirkju, í Noregi nánar tiltekið, að ég tók við sóknarpreststöðunni. Um það leyti festum við kaup á ágætu parhúsi í Vesturbænum og nú get ég gengið í vinnuna.” Hér hefur enn bæst við fjölskylduna en tvö barnabörn okkar, Úlfrún Lillý Björk og Snæbjörn Skúli fæddust eftir að við færðum okkur hingað í Vesturbæinn. Dóttirin og tengdasonurinn bjuggu hjá okkur og við vorum því til skamms tíma átta í heimili. Nú eru þau flutt að heiman, en reyndar bara í kjallarann. Það er eftir sem áður líf og fjör í kringum hópinn.
Baráttan við heimilisofbeldi
Sigríður Björk Guðjónsdóttur hóf störf sem ríkislögreglustjóri 16. mars. sl. Hún færði sig á milli húsa en heldur áfram að vinna að þeim málum sem brenna á henni, einkum baráttuna gegn heimilisofbeldi og greiðari þjónustu við borgarana. Ætla má að fjölskyldan sé komin á fast land eftir flakk um ýmsa áfangastaði bæði á landsbyggðinni og í nágrannalöndum. „Þetta gæti nú seint talist heimshornaflakk“ bætir Skúli við, „en fyrir okkur sem hugðumst aldrei flytjast austur fyrir Elliðaár reyndist þessi framtíð ólík þeim áformum sem við höfðum gert.“