Leysir vanda Náttúruminjasafnsins

Hús sem ætlað var Lækningaminjasafni verður hún að höfuðstöðvum Náttúruhúss. Við hlið hússins sést til Nesstofu. Möguleikar á samvinnu við Nesstofu og Fræðasetrið í Gróttu eru góðir.

Starfshópur sem Lilja Alfreðsdóttir mennta- og menningar­málaráðherra skipaði, hefur komist að þeirri niðurstöðu að Nes á Seltjarnarnesi sé kjörinn framtíðarstaður fyrir Náttúruminjasafn Íslands m.t.t. nálægðar við hafið, fjölbreyttrar náttúru svæðisins og menningarsögulegs gildis þess. Er hús Lækningaminjasafnsins sem þar stendur hálfbyggt, talið henta að mörgu leyti vel fyrir starfsemi Náttúruminjasafnsins.

Starfshópurinn mælir með því að samið verði við Seltjarnarnesbæ um að ríkið eignist húsnæði Lækningaminjasafnsins og að það verði fullbyggt í samræmi við þarfir Náttúruminjasafnsins. Aðlögun húsnæðisins að þörfum Náttúruminjasafnsins tæki tiltölulega skamman tíma og yrði hagkvæmara en hönnun og bygging nýs húss. Áætlað er að gera megi húsnæðið tilbúið undir starfsemi Náttúruminjasafnsins og fullgera þar sýningu á um tveimur árum.

Áætlaður kostnaður við að ljúka byggingu hússins miðað við núverandi teikningar er 650 milljónir króna með 10% til +15% vikmörkum. Viðbótarkostnaður vegna aukningar á sýningarrými á aðalhæð og í kjallara er áætlaður um 100 milljónir króna. Áætlaður kostnaður við fullgerða sýningu Náttúruminjasafnsins í allt að 500 fermetra sýningarrými er um 400 m.kr. Árlegur rekstrarkostnaður miðað við allt að 18 ársverk, sem sum hver samnýtast starfsemi Náttúruminjasafnsins í Perlunni og á fleiri stöðum, er áætlaður um 300 m.kr. Tekjur af sýningarhaldi eru áætlaðar 150 til 400 m.kr. á ári og helgast aðallega af fjölda erlendra gesta á sýningar safnsins.

You may also like...