Engin mislæg gatnamót
– á mótum Arnarnesvegar og Breiðholtsbrautar –
Hætt hefur verið við að byggja mislæg gatnamót á mótum Arnarnesvegar og Breiðholtsbrautar. Byggð verður brú og ljósastýrð vegamót sett upp. Talið er að þessi framkvæmd hafi minna rask í för með sér en mislæg gatnamót með tilheyrandi umferðaslaufum. Með þessari leið er ætlunin að hljóðvist muni batna fyrir nálægar íbúðir í Fellahverfi. Breytt útfærsla hafi ennfremur ekki áhrif á fyrirhugaðan Vetrargarð í Breiðholti og bæti samgöngur gangandi og hjólandi. Arnarnesvegur er hluti af samgöngusáttmála höfuðborgarsvæðisins sem sveitarfélögin á svæðinu og Vegagerðin standa í sameiningu að. Stefnt er að því að útboð vegna verksins fari fram á næsta ári.
Á vef Reykjavíkurborgar kemur fram að gert er ráð fyrir að Arnarnesvegur fari á brú yfir Breiðholtsbraut en mæti götunni í plani á ljósastýrðum gatnamótum. Gatnamótin verða með þessari lausn ekki eins landfrek og inngrip í landslag og jarðrask og efnisflutningar verða mun minni en í öðrum mögulegum lausnum. Þá verður með brúnni til góð leið fyrir gangandi og hjólandi vegfarendur milli Elliðaárdals, Seljahverfis og efri byggða Kópavogs. Gert er ráð fyrir að hljóðvist verði undir viðmiðunarmörkum vegna smíði 1,5 metra hás hljóðveggs á brú og rampa við Breiðholtsbraut auk endurbættrar hljóðmanar milli nýrra gatnamóta og undirganga milli Jaðarsels og Suðurfells.
Hringtorg við Vatnsendahvarf
Gert er ráð fyrir hringtorgi við Vatnsendahvarf, einni brú yfir Breiðholtsbraut fyrir akreinar og stíga, og tengingu við Breiðholtsbraut með umferðarljósum. Núverandi ljósastýrð vegamót við Vatnsendaveg verða felld niður en þó verða þar leyfðar hægribeygjur. Talið er að þessu útfærsla skapi aukið rými við skíðabrekku í Reykjavík miðað við þær lausnir sem samþykktar voru í mati á umhverfisáhrifum og tekur jafnframt minna rými norðan Breiðholtsbrautar. Á vef Vegagerðarinnar kemur fram að munur á þeirri tillögu sem nú liggur fyrir og þeirri sem samþykkt var í matsferlinu sé sá að ekki verði um fullbúin mislæg vegamót að ræða heldur ljósastýrð vegamót.
Vetrargarðurinn hafður í huga
Þegar hverfisskipulag fyrir Breiðholt var kynnt fyrr í haust bárust margar athugasemdir þar sem var lýst yfir áhyggjum af því að fyrirhuguð lagning Arnarnesvegar myndi skerða Vetrargarðinn sem á að reisa efst í Seljahverfi. Þessi nýja blandaða lausn fyrir gatnamót við Breiðholtsbraut er hagkvæm fyrir garðinn og þá fjölbreyttu starfsemi sem gert er ráð fyrir að verðu þar allan ársins hring.