Vilja byggja á bakvið “Stelluhúsið”
Reykjavíkurborg hefur borist fyrirspurn Stefáns Arnar Stefánssonar arkitekts samkvæmt uppdráttum Argos ehf. um hvort leyfi fáist til að reisa nýbyggingu á lóðinni við Bankastræti 3. Fyrir er þar friðað hús úr tilhöggnu grágrýti sem var reist árið 1881. Snyrtivöruverslunin Stella hefur verið rekin í húsinu síðan 1942 eða í 78 ár.
Fram kemur í greinargerð með fyrirspurninni að samkvæmt tillögu að deiliskipulagi fyrir reitinn frá árinu 2005 hafi verið heimilað að byggja um 1.310 fermetra hús á lóðinni Bankastræti 3. Í nóvember 2018 fór fram samkeppni um nýja viðbyggingu og stækkun Stjórnarráðshússins austast á reitnum og að Bankastræti. Deiliskipulag vegna framkvæmda við stjórnarráðið var ekki gert og grenndarkynning fór heldur ekki farið fram. Lóðarhafinn er Herbertsprent ehf. og vegum hans er ætlunin að reisa fjögurra hæða nýbyggingu, alls 1.173 fermetra. Gamla steinhúsið á lóðinni er 175 fermetrar. Við hönnun nýbyggingar og skipulags á lóðinni hefur verið horft til þess að skerða ekki ásýnd gamla steinhússins við Bankastræti sem var friðlýst árið 2011 skv. lögum um húsafriðun.
Herbertsprent á sér langa sögu. Herbert Sigmundsson prentari stofnaði Herbertsprent 1929 og var það til húsa í Bankastræti 3, húsi sem faðir hans Sigmundur Guðmundsson prentari hafði byggt fyrir prentsmiðju sína árið 1880 til 1881. Eftir lát Herberts tók sonur hans Haukur við rekstri prentsmiðjunnar og var hann prentsmiðjustjóri frá 1931 til 1959. Hann gerðist síðan kaupsýslumaður. Steinhús prentsmiðjunnar í Bankastræti “Stelluhúsið” hefur lengi verið eitt af kennileitum miðbæjar Reykjavíkur.