Lækningaminjasafnið verður Náttúruhús

Friðrik Friðriksson.

Frágengið er að Ríkissjóður Íslands hefur keypt Lækningaminjasafnið við Safnatröð 5 af Seltjarnarnesbæ, en húsið hefur staðið fokhelt um árabil.  Það eru góð tíðindi. Sá sem þetta ritar var fulltrúi Seltjarnarnesbæjar í úttektarhópi sem mennta- og menningarmálaráðherra skipaði sumarið 2019.  Hópurinn fékk það verkefni að kanna hversu fýsilegt það gæti verið að hýsa Náttúruminjasafn Íslands í Lækningaminjasafninu og flytja starfsemina alfarið á Nesið. Hópurinn svaraði jákvætt tveimur aðalspurningum. Getur þetta húsnæði og svæði orðið framtíðaraðsetur Náttúruminjasafnsins sem verið hefur á hrakhólum húsnæðislega um árabil?  Hins vegar, er það fjárhagslega hagkvæmt fyrir Ríkissjóð að kaupa húsið eins og það er, fullklára það og gera fullbúið til sýningarhalds? Til viðbótar stofnkostnaði er verulega árlegur kostnaður við rekstur safnsins sem lendir alfarið á Ríkissjóði.

Í samningnum tekur Ríkissjóður að sér uppgjör við læknafélögin tvö sem lögðu til framlag í húsið og einnig fellur niður krafa Ríkissjóðs vegna eigin framlags.  Þeir fjármunir sem Seltirningar hafa lagt til þessa hús nýtast sem innviðauppbygging í lóðarframkvæmdum og lögnum svo eitthvað sé nefnt auk tekna sem bærinn hefur af þessari starf-semi til langs tíma með beinum og óbeinum hætti.

Náttúruminjasafn Íslands er eitt þriggja höfuðsafna landsins, auk Þjóðminjasafns Íslands og Listasafns Íslands, stofnað árið 2007 og heyrir undir mennta- og menningarmálaráðuneytið. Náttúrufræðistofnun Íslands, sem stofnuð var 1965 og hefur grunnrannsóknir á náttúru Íslands að meginhlutverki en ekki sýningahald, er systurstofnun Náttúruminjasafnsins og er, líkt og safnið, afsprengi Hins íslenska náttúrufræðifélags sem stofnað var 1889. Náttúrufræðistofnun sinnti sýningahaldi á Hlemmi frá 1967 til 2008 er sýningunni var lokað og stofnunin flutti í Garðabæ. Lok sýningarinnar á Hlemmi hélst í hendur við þá ákvörðun stjórnvalda að stofna þriðja höfuðsafnið, Náttúruminjasafn Íslands, sem hefði fræðslu og miðlun með sýningahaldi að meginhlutverki.

Meginhlutverk safnsins er miðlun þekkingar og fróðleiks um náttúru Íslands með sýningahaldi, útgáfu og öðrum hætti og í því skyni stundar safnið rannsóknir, safnar munum, skráir þá og varðveitir. Það er því fyrst núna með ákvörðun um að hafa höfuðstöðvarnar á Seltjarnarnesi, að möguleikar safnsins á að starfrækja lögboðin hlutverk sín rætist með viðunandi hætti. En auk starfsemi á Nesinu mun Náttúruminjasafnið áfram starfrækja sýningu sína í Perlunni, Vatnið í náttúru Íslands. Við þetta má bæta að allt landið og náttúra í víðasta skilningi þess orðs er undir í starfsemi Náttúruminjasafnsins. Þannig stefnir Náttúruminjasafnið einnig að sýningahaldi og samstarfi við aðila úti á landi. 

Nýtt safn á Safnatröð 5

Mikil tækifæri felast í að útfæra starfsemi Náttúruminjasafnsins á Nesinu. Frábæra staðsetningu þekkjum við.  Mikil nánd við náttúruna – hafið, ströndina, fjöruna og friðlýst svæði í Gróttu og við Bakkatjörn. Samt er svæðið innan seilingar og skammt frá þéttbýliskjarna höfuðborgarsvæðisins og miðstöð þjónustu. Afar fá náttúrufræðisöfn ef nokkurt búa við slíkar aðstæður og í raun má halda því fram að þetta sé draumastaður fyrir safn sem fæst við náttúruna. 

Efnistök sýningarinnar í húsinu eru í mótun en vegna nálægðar við hafið og merkilegar fornleifar og mannvistarminjar á svæðinu, sem sumar eru frá því fyrir landnám, gæti meginþema sýningahaldsins líklega snúast um málefni hafsins, lífríki sjávar og strandar, sjósókn og strandmenningu. Í húsinu gæti orðið glæsileg, nýstárlega og fræðandi sýning sem dregur til sín gesti hvaðanæva að og jafnast á við það besta sem gerist í nágrannalöndunum.  Safnið hefur enda allt til að búa þannig í haginn fyrir starfsemina – stórkostlega náttúru, einstaka náttúrumuni á heimsvísu, frábæra náttúrufræðinga, hönnuði og sérfræðinga í safnkennslu og margmiðlunartækni. Einnig hefur verið nefndur mjög áhugaverður möguleiki á útikennslu fyrir skóla á svæðinu sem safnkennarar Náttúruminjasafnsins myndu sinna, mögulega með því að nýta fræðasetrið í Gróttu. 

Annað áhugavert sýningaþema gæti tengst aðsetri fyrsta landlæknisins í Nesstofu, Bjarna Pálssonar, þar sem fjallað yrði um tengslin milli náttúru- og læknavísinda, m.a. með áherslu á starf frumkvöðla á því sviði, svo sem Eggerts Ólafssonar og Bjarna Pálssonar. Einnig gæti verið áhugavert að fjalla um það nýjasta sem er að gerast á þessu sviði – hátæknilegar rannsóknir í sameindalíffræði og erfðafræði þar sem fengist er við þróun og fjölbreytileika lífs.

Það er varla vafa bundið að þessi niðurstaða fellur mjög að sýn flestra íbúa á Nesinu á náttúruvernd og skynsamlega nýtingu náttúrunnar. Hið nýja safn styrkir vestursvæðin til framtíðar. Náttúrufræði, Lyfjafræði, Nesstofa, fræðasetrið í Gróttu ásamt einstakri náttúru rammast allt inn í nýrri framtíðarsýn. Nú verður það stjórnvalda að ákveða framkvæmdahraðann við að fullklára húsið við Safnatröð 5 og koma starfsemi safnsins fyrir.  Vonandi verður það sem fyrst.

Friðrik Friðriksson – Höfundur er hagfræðingur og Nesbúi.

You may also like...