Fjarþjónusta og þjálfun 65+ hófst í janúar 2021

Seltjarnarnesbær og Janus heilsuefling hafa ritað undir samkomulag um að Janus heilsuefling taki að sér verkefnið Fjölþætt heilsuefling 65+ á Seltjarnarnesi. Upphaflega stóð til  að fara af stað með verkefnið um mánaðarmótin ágúst/september sl. Í ljósi aðstæðna í samfélaginu vegna Covid-19 sem tengdist samkomutakmörkunum, lokun heilsuræktarstöðva og íþróttahúsa var ákveðið að fresta innleiðingu verkefnisins til ársins 2021 eða þar til að samkomutakmörkunum verður aflétt.

Þrátt fyrir að innleiðing á verkefninu hafi verið frestað hefur bærinn ásamt Janusi heilsueflingu gert með sér samkomulag um að bjóða eldri íbúum Seltjarnarnesbæjar upp á ákveðna fjarþjónustu tengda heilsueflingu, íbúum að kostnaðarlausu. Hér er um að ræða upplýsingaveitu á vegum Janusar heilsueflingar sem verðandi þátttakendur fá aðgengi að. Janus heilsuefling hefur sérhæft sig í slíkri nálgun undanfarið og þjónustar alla sína þátttakendur með góðum árangri á þessum erfiðu tímum í gegnum fjarþjálfunarfyrirkomulag.

Þjónustan er meðal annars fólgin í því að þeir sem skrá sig í verkefnið fá senda tölvupósta með ýmsum heilsutengdum fróðleik, fá kynningu á verkefninu og aðgengi að lokaðri Facebook síðu fyrirtækisins. Þar geta þátttakendur nálgast heilsupistla sem reglulega verða settir inn um heilsutengda þætti sem sérstaklega eru ætlaðir eldri aldurshópum. Þá fá þeir aðgengi að myndböndum og veggspjöldum með æfingum sem æskilegt er að framkvæma heima til að halda við eða bæta eigin heilsu. Dagleg hreyfing er það sem stefnt er að fyrir hvern og einn.

Þessi nálgun verður íbúum sveitarfélagsins að kostnaðarlausu út janúar en þá verður staðan endurskoðuð með tilliti til samkomutakmarkana. 

Áður en verkefnið fer af stað í þeirri mynd sem það er skipulagt í heild sinni, m.a. með aðgengi að heilsuræktaraðstöðu og fræðsluerindum í fjölmennari hópum, verður send út fréttatilkynning með góðum fyrirvara og verkefnið kynnt frekar fyrir eldri aldurshópum 65 ára og eldri á Seltjarnarnesi. Það verður gert um leið og samkomutakmörkunum léttir og reglugerðir um sóttvarnir rýmkaðar. Það er von okkar að íbúar taki þessari nálgun vel en markmiðið er að koma til móts við daglega hreyfiþörf og fræðast um ýmsa heilsutengda þætti. 

Það eina sem hver og einn þarf að gera er að skrá sig til þátttöku í verkefnið á Seltjarnarnesi. Skráning er þó ekki bindandi fyrir seinni tíma þátttöku í verkefninu. 

Skráningin í fjarþjálfun og þjónustu er hafin og fer fram hér: www.janusheilsuefling.is/skraning/

You may also like...