Ég hef sótt í kuldann
– segir Bjarki Kaldalóns Friis náttúruvásérfræðingur sem hefur bæði starfað á Norðaustur Grænlandi og Svalbarða
Bjarki Kaldalóns Friis náttúruvásérfræðingur hjá Veðurstofu Íslands býr á Seltjarnarnesi. Þótt ævi hans hafi að mestu liðið áfram erlendis á hann sterkar íslenskar rætur – rætur sem eru grónar á Seltjarnarnesi. Móðir hans er Karen Kaldalóns. Dóttir Selmu Kaldalóns og Jóns Gunnlaugssonar læknis sem lengi bjuggu á Seltjarnarnesi. Gunnlaugur Jónsson guðfræðiprófessor er móðurbróðir hans og Bjarki og Jón von Tetzchner tölvufræðingur og athafnamaður eru systrasynir. Bjarki fæddist í Danmörku árið 1974. Faðir hans er Henrik Friis. Henrik er danskur en ólst upp á Grænlandi og bjó þar árum saman. Nesfréttir hittu Bjarka á kaffihúsinu Örnu á Eiðistorgi á köldu síðdegi í byrjun desember. Það blés utan dyra en það fékk ekki á Bjarka. Hann er greinilega vanur kulda en hafði þó ákveðið að klæðast lopapeysunni þann daginn. Eftir evrópskt kaffi með mjólk sem er ekki aðeins drukkið í 101-um heldur líka á Seltjarnarnesi var spjallað saman.
Bjarki ólst fyrstu árin upp í Meistaravík á Grænlandi en síðar í Noregi. Til er saga um hvernig kynni foreldra hans bar að. Henrik Friis starfaði á þeim tíma fyrir Síríus-varðflokkurinn sem var stofnaður árið 1950 og hafði bækistöðvar sínar í Danaborg á Norðaustur Grænlandi. Varðflokkurinn hafði meðal annars þann starfa að gæta hagsmuna danska ríkisins á svæðinu, annast hernaðarlegt eftirlit, aðstoða vísindaleiðangra og kanna dýralíf. Varðflokksmenn höfðu jafnan langa útivist. Voru við störf í 26 mánuði samfleytt en fengu einnar viku frí eftir eitt ár til þess að fara til tannlæknis á Íslandi og njóta lífsins. Henrik Friis fór í frí til Íslands og hitti stúlku sem starfaði á hótelinu þar sem hann gisti. Hún heitir Karen Kaldalóns og ekki varð aftur snúið. Hún flutti út fyrst til Danmerkur 1972 og Bjarki er fæddur tveimur árum síðar 1974 og svo til Grænlands 1975. Bjarki hefur erft ævintýralöngun frá föður sínum og starfaði sjálfur um tíma hjá Síríus varðflokknum á Grænlandi. Hann hefur einnig starfað á Svalbarða sem jarðfræðingur. Engu líkara er en að hann hafi sótt í kuldann.
Fortíð föður míns blundaði í mér
„Faðir minn er danskur en fæddur á Grænlandi. Foreldrar hans voru dönsk en bjuggu á Grænlandi í nær þrjá áratugi. Þau eru nú fallin frá og pabbi og mamma hafa búið í Noregi í yfir fjóra áratugi. Það er ekki dropi af grænlensku blóði í mér og ég tala ekki grænlensku að neinu gagni. Ég gekk aldrei í skóla þar, þar sem var enginn skóli. Engu að síður blundaði þessi fortíð föður míns og afa og ömmu í mér. Mig langaði til að kynnast þessum slóðum sem eru hluti af lífi þeirra. Þannig kom til að ég ákvað að sækjast eftir inngöngu í Síríus flokkinn þar sem faðir minn hafði starfað um tíma.“ Bjarki segir það hafa tekið tíma að fá inngöngu í hann. „Ég var sjónskertur sem barn. Man að ég sá illa á skólatöfluna. Menn þurftu hins vegar að standast stranga sjónmælingu og hafa fulla sjón til þess að fá inngöngu í Síríus. Svo komst ég að því að laga mátti sjónina með laser aðgerð og eftir hana greindist ég með fulla sjón. Þá gat ég sótt um. Ég fór á sex mánaða undirbúningsnámskeið. Þar fengum við þjálfun í að takast á við ýmislegt sem getur gerst á þeim slóðum sem Sírísu starfar. Við þurftum að læra að gera einfaldar aðgerðir vegna slysa eins og að búa um sár og fleira. Við þurftum einnig að geta gert við það sem aflaga fer því að ekki verður hlaupið eftir hjálp til næsta bæjar. Þess vegna verðum við að vera sæmilega heima í vélfræði og lagtækir rafeindavirkjar.“
Úr 15 gráðu hita í 40 gráðu frost
Þú varst á Grænlandi fyrstu ár bernskunnar. Hvernig var að koma þangað aftur. „Ég mundi ekkert mikið eftir árunum á Grænlandi. Ég var svo ungur. Mér fannst allt svo lítið þegar ég kom þangað aftur fullorðinn. Til dæmis húsin. Í barnsminninu voru þau mikið stærri. Vera má að það stafi af því hversu lítill ég var þá. En þarna var ég líka á ólíkum slóðum á Norðaustur Grænlandi. Í algeru vetrarríki. Ég hafði sótt um og verið á námskeiði sem allir sem sækja um inngöngu í flokkinn þurfa að fara í gegnum. Föstudag nokkurn í mars 2005, skömmu áður en eitt Síríus-námskeiði lauk hringdi yfirmaður minn í mig. Einn varðliða Síríus-flokksins hafði kalið á fótum. Hann þurfti á læknisaðstoð að halda og verð að fara heim. Mér var sagt að búa mig til ferðar. Ég hafði snör handtök. Fór til Oslóar að kveðja fjölskylduna en var kominn til Íslands á mánudagsmorgni. Þaðan lá leiðin til Norðursetu á Grænlandi sem er næstum á 82. gráðu norðlægrar breiddar. Þar var 40 stiga frost. Ég hafði verið í 15 stiga hita. Munurinn var 55 gráður. Ég var 12 daga í þjálfun í Norðursetu en að því loknu hófst hin langa ferð suður á bóginn. Hún stóð í þrjá mánuði.“
Tíu metra frá ísbirni
Þú hefur eflaust frá ýmsu að segja frá dvölinni í Síríus-flokknum. Á slóðum sem eru um margt ólíkar því sem við þekkjum hér heima. Þurftirðu aldri að berjast við ísbirni. „Jú við lentum í þeim. Ég man sérstaklega eftir einu atviki þar sem bangsi kom við sögu. Ég man að dag nokkurn meðan á ferðinni stóð höfðum við, ég og félagi minn náð háttum í gömlum veiðikofa eftir slæmt færi og erfiðan dag. Eftir að hafa tjóðrað hundana höfðum við talstöðvarsamband við Danaborg eins og venjuleg á kvöldin. Allt í einu fóru hundarnir að gelta. Það þýddi að einhver eða eitthvað var í nánd. Óralangt var til næstu stöðvar og fáir á ferli um þessar slóðir. Best að vera við öllu búinn svo ég greip byssu og þaut út. Félagi minn kom á eftir með myndavél og byssu. Hundarnir sátu og horfðu allir í sömu átt. Viti menn. Þarna kom stóreflis ísbjörn röltandi og stefndi í áttina til okkar. Við byrjuðum að hrópa og kalla og skutum nokkrum neyðarblysum að birninum. Hann virtist ekki taka eftir þeim. Þá skutum við nokkrum blysum í feld bjarnarins en hann lét þau engu máli skipta heldur hélt áfram í áttina að okkur. Þegar aðeins innan við tíu metrar voru eftir til hundanna skaut ég síðasta blysinu og lenti það í síðu bjarnarins án þess að hann sýndi nein viðbrögð. Ég hugsaði mig um hvað ég ætti að gera. Ætti ég að skjóta hann. Ætli hann félli strax við fyrsta skot eða næði hann að ráðast á okkur. En þess þurfti sem betur fer ekki. Bangsi skipti allt í einu um skoðun. Hann sneri við og rölti á brott. Innan skamms var hann horfinn sjónum og sameinaðist landslaginu.“
Lagnaðarísinn hefur breyst
Annars stafar mesta hættan á þessum slóðum ekki af ísbjörnum þótt þeir láti sjá sig annað slagið,“ segir Bjarki. „Mesta hættan stafar af lagnaðarísnum á haustin. Hann er þunnur þótt hann sé seigur. Þess vegna fara menn stundum lengra út á ísinn en óhætt er. Ef maður fellur niður um vök getur verið erfitt að koma sér upp úr, því að skörin brotnar stöðugt undan manni. Seinni hluta vetrar og á vorin er hættan minni. Þá er ísinn þykkari og heldur betur. Önnur helsta hættan er veðrið því skyndilega getur brostið á með stormi og hríð.“ Þegar Bjarki er inntur eftir því hvort veðurfar hafi breyst á Grænlandi á undanförnum árum segir hann veðrið vindasamara. Það snjói meira en þegar foreldrar sínir hafi búið í Meistaravík. Áður fyrr hafi verið meiri stillur og mun kaldara. „Fram að aldamótum 2000 var hægt að fara á hundasleðum frá Danaborg suður til Meistaravíkur að hausti til, sem er um 200 km leið. Undanfarin átta ár hefur firðina lagt seinna á haustin en áður og ísinn verið of þunnur og erfiður yfirferðar til þess að við hættum okkur í slík ferðalög. Hugsanlega er þetta dæmi um hnattræna hlýnum. Þetta geta einnig verið eðlilegar sveiflur í veðurfari.“
Jarðfræðin hentaði mér vel
Þrátt fyrir að hafa alist upp á Grænlandi fyrstu þrjú og hálft ár ævinnar liggur ævi Bjarka að miklu leyti í Noregi. „Faðir minn fékk vinnu í Noregi 1980 og þá fluttum við þangað frá Grænlandi. Ég á nánast enga uppeldissögu á Íslandi. Það er ekki fyrr en ég sæki um MS-nám við Háskóla Íslands haustið 2008. Ég hafði lært húsasmíði í Danmörku og verið þrjú ár í háskóla í Noregi og Svalbarða, en þá var ég búinn að vera í Síríusflokknum á Grænlandi í þrjú og hálft ár. Ég var búinn að heyra margar sögur þaðan frá föður mínum. Það hefur eflaust aukið áhuga mín á að prufa þetta. Ég var líka um tíma leiðsögumaður á Suðurskautinu, Grænlandi og Svalbarða. Eftir Grænlandsdvölina var námsáhugi minn enn til staðar til að klára MS. Ég sótti um inngöngu í Háskóla Íslands. Ég lærði þar jöklajarðfræði þar sem ég sat á skólabekk á árunum 2008 til 2011. Hún hentaði mér vel. Kannski var það útivistarmaðurinn og náttúrubarnið sem dróg mig að henni. Eftir að hafa lokið prófi var enga vinnu að hafa hér á landi. Áhrifa hrunsins gætti enn svo ég fór að leita fyrir mér erlendis.“
Fékk vinnu á Svalbarða
„Þarna var ég kominn með konu. Hafði fest ráð mitt eins og það er kallað. Hún heitir Anna Mjöll Guðmundsdóttir og er aðjúnkt við HÍ í ferðamálafræði og ættuð úr Hafnarfirði. Ég hafði varla vitað hvað Hafnarfjörður var áður en við kynntumst. Eitthvað sem maður keyrði í gegn um á leiðinni til og frá Keflavíkurflugvelli. Ég fór að leita mér að vinnu og þar sem foreldrar mínir búa í Noregi og ég er alinn þar með mestu leyti upp leitaði hugurinn þangað. Þetta endaði með því að ég fékk tilboð um vinnu á Svalbarða sem jarðfræðingur á vegum námufyrirtækis. Ég sló til og við héldum norður á bóginn. Ég fór að vinna fyrir kolanámufyrirtæki. Þetta reyndist fjölbreytt starf. Hluti af því var skrifborðsvinna en fólst einnig í því að finna nýja staði. Allt upp í 1000 metra hæð. Það er talsvert af kolum á Svalbarða og þau eru eftirsótt vegna þess hversu þau eru hrein og brennanleg. Þau eru kölluð hágæðakol og skapa minni mengun. Þetta starfar af jarðfræðilegum aldri þessa svæðis. Þetta eru upp til 65 milljón ára gömul kol og allt önnur en brúnkolin sem víða eru notuð. Ég var að sumu leyti komin aftur í kunnuglegt umhverfi þótt vetrarríkið væri ekki það sama í Danaborg á Grænlandi. Þar er nokkur fjöldi ísbjarna. Þeir eru þó þarna á sveimi og leita stundum inn í Longyearbyen sem er einskonar höfuðstaður syðst á eyjunni. Einkum ef lítið er um æti. Þeir eru friðaðir en þó þarf einstöku sinnum að aflífa þá ef líf fólks er í hættu. En því fylgir lögreglurannsókn.“
Seltjarnarnesið verður að duga – alla vega í bili
En svo er ævintýrunum lokið og þið ákveðið að koma heim. „Lokið í bili,“ segir Bjarki og lýkur úr kaffibollanum. „Mig var farið að langa til þess að prufa að búa á Íslandi. Konan er íslensk – fædd og alin upp hér heima. Hún vildi ekki búa á Svalbarða til eilífðar. Löngunin um Grænland kemur stundum upp í hugann. Kannski eigum við eftir að fara þangað? En varla til þess að ílengjast. Við eigum líka dóttur, hún Katla Cecilia, þriggja ára. Ég held það myndi ekki ganga. Seltjarnarnes verður að duga. Alla vega í bili.“