Ásgerður hættir að loknu kjörtímabili
Ásgerður Halldórsdóttir bæjarstjóri á Seltjarnarnesi ætlar ekki gefa kost á sér til áframhaldandi starfa að sveitarstjórnarmálum þegar yfirstandandi kjörtímabili lýkur. Þessu greinir hún frá í viðtali í janúarblaði Nesfrétta.
Ásgerður segir í viðtalinu að hún muni ljúka sínu þriðja kjörtímabili sem bæjarstjóri vorið 2022 og setja þar endapunkt. Hún kveðst telja það farsælast að Sjálfstæðisflokkurinn á Seltjarnarnesi hafi tíma til þess að fylkja liði að nýju. Ég hef það líka sem fyrirmynd að svona gerði Sigurgeir Sigurðsson þetta þegar hann hætti eftir sinn langa bæjarstjóraferil. Ásgerður segir að 12 ár verða að teljast nokkurt langlífi í bæjarstjórastól á okkar tímum. Flokkar og frambjóðendur eiga ekkert fylgi víst og fyrir því verði að berjast með því að skora mörk og vinna leiki. Samstaðan skiptir mestu máli og sín helsta ósk sé að Sjálfstæðismenn á Nesinu gangi sameinaðir til næstu kosninga.