Ásókn í verknám kallar á stækkun FB

– 53% nemenda skólans í verknámi á liðinni haustönn –

Fjölbrautaskólinn í Breiðholti.

Borgarráð hefur samþykkti tillögu borgarstjóra um að gengið verði til viðræðna við menntamálaráðuneytið um þátttöku borgarinnar í kostnaði við framkvæmdir í húsnæðismálum Fjölbrautaskólans í Breiðholti. Á haustönn 2020 voru skráðir nemendur 1.734 talsins í dag- og kvöldskóla. Þeir skiptast þannig að í verknám eru skráðir 915  eða 53%, í bóknám 580 eða 33%, listnám 186 eða 11% og sérdeild 53 sem eru 3%. Nemendaspá gerir ráð fyrir 10% fjölgun nemenda næstu sjö árin.

Í bréfi menntamálaráðuneytisins til borgarstjóra um málið kemur fram að mikil fjölgun nemenda hafi verið í verknámi undanfarin ár og þá helst í rafvirkjun og húsasmíði og verknám þarfnist meira rýmis en bóknám. Þá telja stjórnendur Fjölbrautaskólans í Breiðholti að komið sé að þolmörkum og sjá fram á að synja þurfi mörgum nemendum um skólavist í framtíðinni ef aðstaða til kennslu verði ekki bætt. Skortur sé einnig á kennslustofum, aðstöðu fyrir kennara, starfsmenn og nemendur í aðalbyggingu skólans.

Kostaður upp á milljarð

Gert er ráð fyrir því að byggja tvær skemmur ásamt tengibyggingum, samtals um það bil 2.155 fermetrar. Framkvæmdasýsla ríkisins áætlar að stofnkostnaður verði 970 milljónir króna á verðlagi í október 2020. Við bætist annar kostnaður, svo sem vegna kaupa á búnaði í húsnæðið. Miðað við óvissu í áætlunum gæti heildarkostnaður orðið á bilinu 983 til 1.418 milljónir. Í samþykkt borgarráðs segir að semja þurfi við menntamálaráðuneytið um það hver greiðsluþátttaka verði, hvernig greiðslur dreifist miðað við framvindu og hvernig haldið skuli á kostnaðarfrávikum og framkvæmdaáhættu.

You may also like...