Fjölgun framundan á Nesinu

– Ásgerður Halldórsdóttir horfir fram til tímamóta í eigin lífi – Bæjarstjóri Seltjarnarness segir að bæjarbúar kunni að meta stuttar boðleiðir og litla yfirbyggingu –

Ásgerður Halldórsdóttir bæjarstjóri ásamt Ólafi Ragnari Grímssyni fyrrum forseta Íslands og íbúa á Seltjarnarnesi til margra ára og konu hans Dorrit Moussaieff. Myndin var tekin á 40 ár afmæli Seltjarnarnesbæjar 9. apríl 2014. Þá var Ólafur Ragnar forseti Íslands.

Þegar við setjumst niður til þess að ræða málefni Seltjarnarnesbæjar er hugur bæjarstjórans í Egyptalandi þar sem sonurinn Viggó lætur að sér kveða í handboltalandsliðinu eins og hann hefur gert í þýsku úrvalsdeildinni þar sem hann er með markahæstu mönnum. „Það hefur verið spennandi að fylgjast með íþróttaferli hans en alveg ömurlegt að komast ekkert út til fjölskyldunnar í Þýskalandi vegna COVID-faraldursins“, segir Ásgerður. „Fyrir okkur Kristján (Guðlaugsson eiginmann Ásgerðar) hefur íþróttastarfið í Gróttu verið kjarni tilverunnar og börnin okkar þrjú alist upp innan þess eins og svo fjölmargir Seltirningar. Það hefur verið góður skóli sem skilað hefur báðum sonunum í atvinnumennsku í handbolta og dóttur okkar árangri og ánægju. Ég hlakka til þess að geta sinnt Gróttu betur í framtíðinni og svo náttúrlega að geta umgengist barnabörnin fimm meira en verið hefur þegar bæjarstjóraönnum lýkur.“

–   Bíddu við, hvað sagðirðu þarna?

– Já, þú heyrðir rétt, ég sagði samstarfsfólki mínu í meirihluta Sjálfstæðisflokksins fyrir ári síðan að ég myndi ekki gefa kosta á mér áfram sem oddviti og bæjarstjóraefni.  Vorið 2022 mun ég ljúka mínu þriðja kjörtímabili sem bæjarstjóri og setja þar endapunkt. Sumir segja að það eigi aldrei að tilkynna svona lagað löngu fyrirfram en ég tel það farsælast að Sjálfstæðisflokkurinn á Seltjarnarnesi hafi tíma til þess að fylkja liði að nýju. Ég hef það líka sem fyrirmynd að svona gerði Sigurgeir Sigurðsson þetta þegar hann hætti eftir sinn langa bæjarstjóraferil. Síðast liðin ellefu ár hef ég gengt starfi bæjarstjóra á Seltjarnarnesi. Ég hef notið þess að starfa ávallt með góðu fólki, mér hefur aldrei leiðst í vinnunni. Verkefnin eru krefjandi en um leið heillandi og starfsfólkið svo öflugt að tíminn hefur bara flogið áfram. Bæjarfélagi verður heldur ekki stjórnað nema með samvinnu við íbúana og þau samskipti eru alltaf ánægjuleg. Gott bæjarfélag byggist á samvinnu starfsmanna og kjörinna fulltrúa við bæjarbúa. Samvinna og heilindi er það sem skiptir máli í öllum samskiptum.

 –  Hefur það áhrif á ákvörðun þína að Sjálfstæðisflokkurinn stendur ekki eins vel í könnunum og oft hefur verið?

–  Nei þetta er engin skyndiákvörðun og 12 ár verða að teljast nokkurt langlífi í bæjarstjórastól á okkar tímum. Flokkar og frambjóðendur eiga ekkert fylgi víst og fyrir því verður að berjast með því að skora mörk og vinna leiki. Samstaðan skiptir mestu máli og mín helsta ósk er að Sjálfstæðismenn á Nesinu gangi sameinaðir til næstu kosninga. Það gerðum við ekki síðast og slíkt skilur eftir spor. Ásgerður upplýsir að undir stjórn sjálfstæðismanna hafi Seltjarnarnes boðið íbúum sínum upp á lægstu útsvarsprósentu sem þekkist í landinu, 13,66%, og lægstu fasteignagjöldin. Rekstur bæjarfélagsins sé traustur. 

–  Seltjarnarnesbær er með eitt allra lægsta skuldahlutfall allra sveitarfélaga landsins þó að skattar á íbúa séu óvíða lægri. Þessi staða gefur bæjarfélaginu svigrúm til þess að laga sig að nýjum aðstæðum. Það hefur einnig mikil sóknarfæri. Skipulagning á nýju íbúasvæði við Bygggarða er nú í ferli og fjölgun skattgreiðenda því framundan.

Árið 2020 var erfitt ár og í þannig árferði er nauðsynlegt að bæjarstjórn skoði vel reksturinn. Bregðast hefur þurft við og bæjarstjórn hefur tekið stefnumótandi ákvarðanir hvernig snúa megi við þeirri þróun að gjöld fari ekki fram úr tekjum á ársgrundvelli. Svara verður þeirri spurningu hvernig hægt sé að byggja undir þá þjónustu sem bærinn veitir án þess að auka útgjöld þannig að þjónustan samræmist tekjuflæðinu.

Kristján Guðlaugsson eiginmaður Ásgerðar ásamt barnabörnunum fimm um jólin.

Seltjarnarnes áfram sjálfstætt

Sveitarfélögum landsins hefur fækkað umtalsvert síðustu áratugi með sameiningum. Þau eru nú 69 talsins eftir síðustu sameiningu fyrir austan. Talað hefur verið um að tilgangurinn með sameiningu hafi verið að stækka sveitarfélögin og efla getu þeirra til að sinna lögbundnum verkefnum og þjónustu við íbúana. Sérð þú fyrir þér Seltjarnarnesið sameinist Reykjavík? 

–  Ég sé ekki fyrir mér breytingu á höfuðborgarsvæðinu næstu árin, það er mikið og gott samstarf milli sveitarfélaga hér. Slíkar óskir þurfa að koma frá íbúum með lýðræðislegum hætti. Ég skynja það ekki þannig að slíkar væntingar muni komi frá bæjarbúum næstu árin. Ég hef fundið fyrir mikilli ánægju þeirra með stuttar boðleiðir og litla yfirbyggingu í rekstri bæjarfélagsins.

Heilsueflandi samfélag

–  Nú hefur verkefnið ,,Fjölþætt heilsuefling 65+“ með Janusi Guðlaugssyni byrjað hvernig gengur það? 

–   Það er mikill áhugi fyrir þessu verkefni hjá íbúum þessa aldurshóps. Íþróttafulltrúi bæjarins, Haukur Geirmundsson, stýrir verkefninu ,,Heilsueflandi samfélag“ hjá okkur, þar sem áherslan er að marka heildræna heilsueflingu allra aldurshópa. 

Tómstundastyrkir

–  Hvernig hafa tómstundastyrkir verið að nýtast fjölskyldum? 

–  ,,Í dag eru það um 610 börn á aldrinum 5-18 á Seltjarnarnesi sem nýta sér tómstundastyrkinn. Hér er um að ræða hreina viðbót við styrki bæjarins til íþróttastarfs, en styrkirnir eru einnig veittir til tónlistarnáms og æskulýðsstarfs. Umsóknarferlið verður gert auðveldara á þessu ári og er nú í vinnslu. Kannanir sem gerðar hafa verið fyrir bæjarfélagið sýna að íbúar eru ánægðir með aðstöðu til íþróttaiðkunar.

Náttúruminjasafn í bæinn

–  Nú er í höfn samstarf bæjarins við menntamálaráðuneytið um að taka yfir safnahúsið að Safnatröð 2. Hvernig sérðu það fyrir þér?

–  Þetta er að sjálfsögðu ákaflega spennandi. Þarna er um að ræða gríðarlega stórt verkefni sem mun bjóða upp á margvíslega möguleika fyrir Seltjarnarnes, m.a. í ferðaþjónustu. Nú mun Náttúruminjasafn Íslands taka við húsinu og byggja upp öflugt og langþráð safnastarf. Tilurð þessara byggingar eins og oft hefur komið fram var erfðagjöf Jóns Steffensen heitins á sínum tíma í þágu lækningaminjasafns og um leið til að minnast Bjarna Pálssonar. Minnisvarði um Bjarna við Nesstofu var reistur á sínum tíma til að minnast þess að þar settist hann að þegar hann tók fyrstur manna við embætti landlæknis. Og þessu upphafshlutverki þarf náttúrlega að sýna sóma.

Hátt þjónustustig metnaðarmál

–  Nú hefur bærinn staðið fyrir miklum framkvæmdum sl. ár hvaða verkefni mun njóta forgangs í ár?

–  Á liðnu ári voru miklar framkvæmdir hjá bænum. Á síðustu fjórum árum hefur verið framkvæmt fyrir tæpa fjóra milljarða króna. Á yfirstandandi ári verður helsta og mikilvægasta verkefnið að byggja sambýli fyrir fatlað fólk við Kirkjubraut 20. Meirihlutinn á Seltjarnarnesi hefur ávallt forgangsraðað í þágu velferðarmála og skólamála. 

Ásgerður á árshátíð Seltjarnarnesbæjar í byrjun árs 2020 ásamt Margréti Guðbrandsdóttur.

Ánægja og athafnasemi

–  Nú liggur fyrir könnun meðal sveitarfélaga hvernig kemur Nesið út þar?

–  Um 87 prósent íbúa Seltjarnarness eru ánægðir með sveitarfélagið sem stað til að búa á samkvæmt árlegri könnun Gallup.  Seltjarnarnesbær er fjölmennasti vinnustaðurinn á Nesinu, en þar starfa rúmlega 320 manns.  Starfsemin er m.a. grunnskóli, frístund, leikskóli, tónlistarskóli, íþróttamiðstöð, sundlaug, félagsmiðstöð, félagsþjónusta, bókasafn, þjónustumiðstöð og bæjarskrifstofur. Um 90 prósent íbúa Seltjarnarness eru ánægðir með þjónustu leikskólans í sömu könnun.  Á heildina litið er Seltjarnarnesbær ofarlega í samanburðinum við stærstu bæjarfélög landsins, samkvæmt mælingu Gallup, hvað varðar þjónustu og ánægju íbúa með hana. Þessa góðu niðurstöðu ber að þakka starfsmönnum bæjarins, þar sem áherslan er á skilvirka stjórnun og öfluga þjónustu við íbúa.

Forgangsverkefni á samdráttarskeiðum

– Algengt forgangsverkefni sveitarfélaga á samdráttarskeiðum eins og núna er að skera niður kostnað. Þarf bærinn ekki að ganga í það verk?

–  Stjórnendur bæjarins spyrja sig sífellt þeirra spurninga, bæði á samdráttar og vaxtarskeiðum, hvort og hvar megi auka hagkvæmni. Lykilhugtak í því umhverfi sem við störfum í núna er stefnumarkandi rekstrarhagræðing. Það er mun vænlegra til árangurs að hafa stöðuga hagræðingu í rekstri að leiðarljósi eins og Seltjarnarnesbær hefur gert til langs tíma heldur en að bregðast harkalega við og skera niður kostnað á samdráttarskeiði. Með því er hægt að að ná mun betri árangri að jafnaði til lengri tíma litið.

Við þurfum á sama tíma og við erum með lægstu útsvarsálagningu að skoða hvernig hægt sé að nýta enn betur tekjur bæjarins. Heimsfaraldur Covid19 hefur haft áhrif á rekstur allra bæjarfélaga í landinu. Atvinnuleysi hefur aukist lítillega á Nesinu undanfarna mánuði. Það gæti haft áhrif bæði á skatttekjur og velferðarútgjöld. En ég lít bjartsýn fram á veginn. Viðspyrnan með tilkomu bóluefnisins mun nú hefjast á næstu misserum.

2021 verður gott í lokin

– Heldur þú að árið 2021 verði gott ár? 

–  Þetta verður erfitt ár, það vita allir, en gott í lokin spái ég. Á þessu tímum heimsfaraldurs og einangrunar er nauðsynlegt að sýna aðhald og ráðdeild.  Aðalatriðið er að verja grunnþjónustuna og sníða sér stakk eftir vexti. Við hér á Nesinu þurfum og getum varið þá góðu stöðu sem bæjarfélagið hefur byggt upp. Seltjarnarnesbær stendur vel til þess að takast á við tímabundið áfall í kjölfar faraldursins. Fjárhagsstaða bæjarins er mjög sterk. Kjörtímabilið er rúmlega hálfnað og ég mun sem bæjarstjóri halda áfram að þjónusta bæjarbúa ásamt starfsfólki bæjarins eins og framast er unnt. Væntingar fólks um að allt verði eins og áður eru eðlilegar, en það er engu að síður þannig að við verðum að laga okkur að aðstæðum eins og þær eru. COVID19 er ekkert lamb að leika sér við. Nú er tími til þess að snúa bökum saman og takast á við það andstreymi sem við mætum næstu misseri þar til búið er að bólusetja þjóðina. Um leið þurfum við að halda áfram að vera til, gleðjast og hlakka til sumarsins. Við þurfum að hafa úthald til þess að þreyja Þorrann og Góuna og verja okkar fjölskyldukúlu, lætur Ásgerður Halldórsdóttir bæjarstjóri vera sín lokaorð í þessu viðtali.

You may also like...