Íþróttamaður og íþróttakona Gróttu árið 2020
Íþróttamaður og íþróttakona Gróttu fyrir árið 2020 voru valinn í byrjun janúar og voru knattspyrnufólkið Tinna Brá Magnúsdóttir og Hákon Rafn Valdimarsson kjörin. Vegna covid var ekki hægt að halda hóf og því var valin tilkynnt í myndbandi sem fór á samfélagsmiðla félagsins fimmtudaginn 15. janúar.
Tinna Brá er fædd árið 2004 og var því 16 ára síðasta sumar og enn gjaldgeng í 3. flokki. Þrátt fyrir ungan aldur lék Tinna alla leiki meistaraflokks í sumar, í fyrsta skipti sem félagið lék í næst efstu deild, og var besti leikmaður liðsins. Tinna sýndi miklar framfarir sem og stöðugleika í leik sínum. Liðið tryggði sæti sitt örugglega í deildinni eftir að hafa verið í toppbaráttu framan af sumri.
Þá lék Tinna einnig með 3. flokki þar sem liði fór alla leið í úrslitaleik um Íslandsmeistaratitilinn. Árangur Tinnu var frábær í sumar, þannig að athygli vakti. Tinna var valin í lið u17 ára landsliðs Íslands og spilaði tvo landsleiki á árinu, þar af annan í byrjunarliði á móti Írlandi. Tinna er ein af okkar efnilegustu leikmönnum sem komið hafa upp í gegnum barna- og unglingastarf félagsins. Áræðni hennar, dugnaður og metnaður hafa skilað henni í fremstu röð íslenskra markvarða og verður spennandi sjá hvert hæfileikarnir leiða hana. Þá hefur Tinna verið mikil og góð fyrirmynd fyrir yngri iðkendur félagsins og meðal annars tekið að sér aðstoðarþjálfun hjá yngstu æfingahópunum.
Hákon Rafn Valdimarsson knattspyrnumaður, íþróttamaður Gróttu
Hákon er aðeins 17 ára og því enn gjaldgengur í 2. flokki á síðasta tímabili. Hákon spilaði alla leiki meistaraflokks í sumar, sem markaði fyrsta tímabil félagsins í efstu deild. Hákon er eins og flestir vita markvörður og það eru ekki margir markmenn sem eru orðnir aðalmarkmenn sinna liða svo ungir að árum í efstu deildum íslenskrar knattspyrnu. Tímabilið var gríðarleg áskorun fyrir leikmenn liðsins og félagið í heild sinni en Hákon sýndi mikinn stöðugleika í leik sínum og var með bestu mönnum liðsins. Frammistaða Hákons vakti athygli víða og hefur hann unnið sér sæti í hópi u21 árs landsliði Íslands, þrátt fyrir að vera einungis 19 ára á árinu. Þá vakti frammistaða Hákons einnig athygli erlendra liða og hefur hann nú í vetur farið á reynslu til Svíþjóðar þar sem látið var vel af frammistöðu hans. Hákon sýndi mikinn stöðugleika í leik sínum í sumar og hefur þroskast mikið sem leikmaður á undanförnum árum. Félagið hlakkar til að fylgjast með Hákoni bæta sig sem leikmaður og vonast til að hann nái sem allra lengst. Þá er hugarfar Hákons til fyrirmyndar og eftirbreytni fyrir unga leikmenn liðsins. Hann sýndi jákvætt viðhorf, æfði vel og er nú farinn að njóta ávaxta þess.
Auk þess voru fimleikakonan Freyja Hannesdóttir útnefnt íþróttakona æskunnar og handknattleiksmaðurinn Ari Pétur Eiríksson íþróttamaður æskunnar. Fimleikaþjálfarinn Anna Sóley Jensdóttir er þjálfari ársins hjá Gróttu. Sjálboðaliðar ársins hjá deildunum eru Jón Gunnar Þorsteinsson fimleikadeild, Bjarni Torfi Álfþórsson handknattleiksdeild og Árni Pétursson fyrir knattspyrnudeild.