Ég er Vesturbæingur og rappari

– segir Ragna Kjartansdóttir hljóðvinnslufræðingur og tónlistarmaður –

Ný hljómsveit Rögnu og Hildar heitir Red Riot. Fyrsta lagið þeirra kemur út nú á föstudaginn og heitir Bounce Back og verður að finna á öllum helstu streymisveitum.
Mynd eftir Bryndísi Jónatansdóttur.

Hún er fyrsti kvenkyns tónlistarmaðurinn sem kemur fram hér á landi á sviði rapptónlistar. Hún vakti fyrst athygli fyrir framlag sitt í Subterranean og Tha Faculty hópnum sem rappari í kringum aldamótin 2000. Eftir heimkomu frá námi tók hún aftur til við rappið. Í mars 2019 gaf hún út sína aðra sólóplötu, sem ber heitið „Is Anybody Listening?“ Ragna Kjartansdóttir er menntuð í hljóðvinnslu og starfar einnig sem tónlistarmaður. Hún vinnur sjálfstætt að hljóðhönnun og hljóðvinnslu fyrir ýmsa aðila auk annarra tónlistarverkefna. Hún vann sem dæmi hljóðmyndina fyrir Latabæ, Ófærð, Brot og hefur sinnt ýmsum hljóðvinnsluverkefnum frá því hún lauk námi í New York. Nú vinnur hún meðal annars hljóðvinnslu fyrir þáttaseríu sem Baltasar Kormákur er að hefja framleiðslu á í samstarfi við Netflix og nefnist Katla. Ragna er Vesturbæingur en flutti um tíma í Kópavog með fjölskyldu sinni.

„Ég er Vesturbæingur“ segir Ragna. „Foreldrar mínir eru Kjartan Emilsson og Priscilla Zanoria sem er ættuð frá Filippseyjum. Þau kynntist í Flórída þar sem þau voru við nám og mamma fylgdi pabba hingað til lands að því loknu. Pabbi var að læra í flugskóla og mamma var í námi í verkfræði sem hún lauk síðan við Háskóla Íslands jafnframt því að læra þar einnig íslensku. Mamma er meðal fyrstu Filippseyinganna sem fluttust hingað til lands. Hún var 24 ára gömul og aðeins fjórir Filippseyingar voru þá búsettir hér á landi.

Gekk framhjá með barnið 

Ragna segir skemmtilega sögu frá því er hún fæddist. „Mamma beið í ofvæni á fæðingardeildinni eftir því að komið væri með barnið, mig inn í stofuna til hennar. Pabbi var á leiðinni úr vinnu og mamma talaði þá enn litla íslensku þótt það breyttist síðar. Svo kom ljósmóðirin með barn í fanginu. Barnið var dökkt á hörund eins og ég og mamma taldi sig vera að fá barnið sitt. Henni brá hins vegar mjög þegar ljósmóðirin gekk fram hjá henni að konunni sem beið í næsta rúmi. Greinilega íslensk kona. Hún hugsaði hvað væri að gerast. Varla gætu mörg börn af asískum uppruna verið að fæðast á sama tíma. En ekki leið á löngu þar til önnur ljósmóðir birtist. Hún var líka með barn í fanginu sem samsvaraði húðlit mömmu. Málið skýrðist því faðir hins barnsins var einnig filippínskur og var þá móðirin íslensk.

Þetta byrjaði allt á rappkvöldi í félagsmiðstöð

„Við bjuggum á Skeljagranda í Vesturbænum og ég gekk í Grandaskólann og síðar Hagaskóla. Við fluttum síðan í Kópavog og ég fór í Hamrahlíðina þegar kom að framhaldsskóla. Áfangakerfið hentaði mér ágætlega. Þar er meira frelsi en innan bekkjakerfisins. Ég var í unglingavinnunni í Kópavogi. Á þeim tíma var rappþáttur sem var kallaður Kroni í útvarpinu. Ég fór að hlusta á rapp og ég man að ég beið í ofvæni eftir þættinum í hverri viku. Svo gerðist það að á rappkvöldi í einni félagsmiðstöðinni að mér var ýtt inn í hring þar sem var “open mic”. Þar rappaði ég í fyrsta skipti fyrir framan aðra.”

Ekki bein tenging við íslenska tónlist

“Ég byrjaði að rappa þegar ég var 15 ára. Ég hafði ekki fengist við tónlist áður og hafði ekki hugsað um að verða tónlistarmaður. Ég datt hreinlega inn í þetta. Síðan þá hafa orðið miklar breytingar. Rappið hefur þróast rétt eins og aðrar tónlistargreinar. Listamenn eins og A Tribe Called Quest, De La Soul, Common og Das EFX voru sérstaklega mótandi á þessum tíma.“ Ragna segir að rappið hafi byggst á trúverðugleika. „Flestir þekktust. Fylgdust hver með öðrum. Þekking á tónlistarmönnum og menningu tónlistarstefnunnar skipti höfuðmáli. Subterranean, sem þýða mætti innlend neðanjarðarmenning var ekki aðeins hljómsveit heldur tenging fólks við þá tíma. Ég hafði ekki gert ráð fyrir þeirri athygli sem Subterranean fékk. Við sköpuðum tónlistina sjálf, þetta var neðanjarðarmenning sem spratt upp á yfirborðið með tímanum.“ Ragna var spurð hvort rappið geti átt sér einhverja fyrirmynd í íslenskri menningu. Eru íslensku rímurnar einhverskonar forveri rappsins. „Ekki beinlínis,“ segir hún. „Rappið á sér aðrar rætur en ef til vill má tengja þetta með þörfinni að tjá sig með notkun rímna.”

Ragna tilbúin á svið. 
Mynd eftir Juliette Rowland.

Rapptónlistin samgróin íbúum New York

Ragna flutti til New York borgar um aldamótin 2000 til að læra hljóðupptöku. Hún notaði einnig tíma til að að fylgjast með hip hop menningu í New York. Hún segir að eitt það merkilegasta sem hún upplifði við dvölina í New York hafi verið að finna hversu samgróin rapptónlistin sé íbúum borgarinnar.

Kom til baka sem Cell7

Eftir að Ragna flutti aftur til Íslands fór hún að einbeita sér að því að vinna í hljóðvinnslu. Hún kom svo aftur í sviðsljósið sem rappari árið 2013 sem sóló tónlistarkonan Cell7 með plötuna Cellf í samstarfi við fyrri samstarfsaðila úr Subterranean. Þegar vinkona hennar stakk upp á að hún myndi sækja um ríkisstyrk til að taka upp sólóplötu fór Ragna að láta sig dreyma um nýja tónlist. Sú tónlist sem Ragna kynnti á þeirri plötu var nokkuð öðruvísi en þeir straumar sem voru í rappinu. Hún var farin að skapa sér sinn eigin stíl. Í stað þess að fjalla um vímuefnaneyslu, efahyggju eða frægð eins og algengt var í rappinu byggði hún tónlist sína meira á eigin reynslu „Ég lagði mikla áherslu á að vinna fjölbreytta plötu sem myndi ná til margra óháð því hvort rapptónlist höfðaði meira en önnur tónlist til hlustenda. Ég hafði lagt grunninn að flestum laganna þegar ég hóf lokavinnuna við plötuna. Ég lagði áherslu á sem mesta fjölbreytni. Vildi ná til sem flestra.” 

Ætlum að bjóða fólki tónlist heim til sín

Auk þess að vinna að ýmsum verkefnum sem Ragna tekur að sér og vinnur meira og minni í stúdíói sem hún hefur komið sér upp í bílskúrnum hjá sér er hún að leggja grunn að nýju verkefni. Hún er að vinna ásamt annarri konu Hildi að skapa tónlist undir nafninu Red Riot, saman ætla þær að bjóða í heimaparty til flutnings í samkomum og jafnvel heimahúsum á komandi sumri. Hildur syngur og ég rappa. Við erum komnar vel á veg með fyrstu breiðskífuna okkar. Samkomubannið og aðrar takmarkanir vegna kórónuveirunnar hafa skapaða nýjar aðstæður sem við höfum þurft að bregðast við. Nú ætlum við að koma með tónlist til fólks í stað þess að fá fólk til okkar. Þetta er heilmikil útgerð. Við verðum á ferð með fullan bíl af tækjum og tólum. Þetta er öðruvísi en að vera trúbador með kassagítar. Við ætlum að halda party heima hjá fólki. Fólk á að geta dansað hvort sem það er heima í stofu eða í öðrum rýmum. Við förum að afhjúpa þetta verkefni á næstu dögum og ég er bjartsýn. Við ætlum okkur að gefa út plötu í framhaldinu. Ég veit um marga sem hafa þurft að fresta tónleikum eða hætta við þá. En það þýðir ekkert að gefast upp og ekki dugar að frjósa inni með nýjar hugmyndir. Maður verður að koma þeim út á meðal fólks. Þetta er tilvalið fyrir fólk sem vill slá í partý ásamt vinum sínum og til að fylla upp í fjöldann getum við mögulega útvegað fleiri til að skapa betri stemningu. Þetta á allt eftir að koma í ljós.”

Flest við höndina í Vesturbænum

Ragna er löngu komin til baka í Vesturbæinn. Kveðst alltaf hafa kunnað vel við sig þar. „Ég er Vesturbæingur. Ég bjó í áratug á Meistaravöllum. Hoppaði svo á milli íbúða. Þetta var svo stutt að hægt var að bera búslóðina á milli. Þar var enginn flutningabíll á ferð. Hér er líka svo stutt í allt. Strákurinn minn er í tómstundum í Frostaskjólinu. Maður hefur flest við höndina.”  

You may also like...