Kór Fella- og Hólakirkju með tónleika 14. mars
Sameiginlegir kórtónleikar Kórs Fella- og Hólakirkju og Kammerkórs Reykjavíkur verða haldnir í Fella- og Hólakirkju sunnudaginn 14. mars kl. 16. Stjórnandi Kammerkórs Reykjavíkur er Sigurður Bragason. Arnhildur Valgarðsdóttir organisti stjórnar kirkjukórnum og er meðleikari á tónleikunum en einnig leikur Matthías Stefánsson snillingurinn landskunni á fiðlu. Þá hefur verið ákveðið að kórinn, Kristín Ragnhildur og Svava Kristín flytji Stabat Mater að kvöldi föstudagsins langa kl. 20. Flutningur þessa verks var orðinn fastur liður í dagskrá kirkjunnar en féll niður á síðasta ári vegna sóttvarna.
Efnisskráin er fjölbreytt, nýtt og gamalt, kirkjulegt og veraldlegt. Kórarnir flytja svo sameiginlega þrjú verk Sigurðar Bragasonar. Svo skemmtilega vill til að sama dag, 14. mars kl. ellefu fyrir hádegi verður send út útvarpsmessa frá Fella- og Hólakirkju. Arnhildur Valgarðsdóttir segir að nú fari allt að rúlla aftur. Kirkjukór Fella- og Hóla hafi verið einn af fáum kórum sem haldið hafi úti söng í kófinu, Flutt dúetta og kvartetta sem æfðir hafi verið í litlum hópum. Nefna má að í desember hélt kórinn úti sérstöku söngjóladagatali, hvern dag var lítið atriði tekið upp og birt á facebook síðu kirkjunnar og kórsins.